Sportveiðiblaðið fagnar fjörutíu ára útgáfuafmæli um þessar mundir. Fyrsta eintakið kom út árið 1982 og fyrsta tölublað fertugasta árgangs er í dreifingu í þessum skrifuðu orðum. Ritstjórinn hefur verið sá sami frá upphafi og það er Gunnar Bender. Hann er nú að fara hringinn í kringum landið og dreifa nýjasta blaðinu á sölustaði. Það hefur hann gert sjálfur frá upphafi.
Nýja blaðið er í bókstaflegri merkinu feitt af efni og sannkallaður afmælisbragur á því. Blaðið er í sparifötunum og aldrei verið glæsilegra. Ritstjórinn er hins vegar orðinn gráhærður enda fullvaxta. Hvernig hljómar þetta Bender?
„Ég segi nú bara; eins gott að þetta er ekki öfugt,“ segir hann og hlær sínum landsþekkta hlátri.
„Já þetta er búin að vera langur tími og auðvitað hefur gengið á ýmsu. Það hafa komið tímar sem voru erfiðir en við höfum farið í gegnum þá skafla. Auðvitað er þetta ekki bara ég einn. Það hefur stór og breiður hópur stutt við bakið á okkur með ýmsum hætti og það ber að þakka. Fjölmargir sem hafa komið að verkinu á fjörutíu árum. Einna vænst þykir mér samt alltaf um greinar sem við fáum frá áskrifendum og áhugafólki. Það hefur gert svo mikið fyrir okkur að vera í góðu sambandi við lesendur.“
Hvað hefur breyst á þessum fjörutíu árum, ef þú átt að taka eitthvað sérstaklega út?
„Við birtum alltaf verð á veiðileyfum í mörg ár. Það var mikið lesið og ég man að verðið fyrir hálfan dag í góðri laxveiðiá var 6,500 krónur hér í gamla daga. Nú eru allir hættir að birta verð þannig að þar er ekkert að frétta. En ef maður horfir á hvað stendur upp úr þá er svo minnistætt þegar við vorum að taka fyrstu viðtölin. Ég man þegar við Þröstur Elliðason og Steingrímur Steingrímsson heimsóttum Sveinbjörn Beinsteinsson allsherjargoða uppi í Dragháls. Það var kalt í veðri og frostið inni hjá honum var ekki minna. Hann bauð okkur upp á bjúgu en þau voru svo frosin að það hefði verið hægt að drepa mann með þeim. Sama má segja um kökuna sem hann bauð okkur líka,“ aftur er Benderinn ekki að draga af sér þegar hláturinn grípur hann.
Hann telur einnig upp viðtöl við Björn J. Blöndal sem búið var að segja við hann að hann myndi aldrei fá. „Við bara fórum og bönkuðum upp á hjá honum og hann tók okkur mjög vel og við fengum frábært viðtal við hann.“
En hvað hefur breyst í veiðinni ef við horfum þangað?
„Þetta er náttúrulega mikil breyting. Fluguveiðin er oðrin allsráðandi og ég held að það séu ekki nema einhverjar tíu ár sem leyfa orðið maðk. Þetta er orðin einhvern vegin fínni veiði en var.“
Saknarðu maðkveiðinnar sem veiðimaður?
„Mér finnst betra að hafa einn og einn ánamaðk.“ Hlátur.
„En auðvitað er mikilvægt að fjölga ungu veiðimönnunum. Það er áríðandi.“
Já. Eru þetta ekki mest orðnir gamlir menn í þessu sporti, eins og þú?
„Já og eins og þú.“
Nýjasta tölublaðið er stútfullt af efni og þar kennir eins og ávallt margra grasa. Gamla goðsögnin Pétur í Nesi er viðhafnarviðtali og fer einkar vel á því. Einar Páll Garðarsson, Sigurður Sigurjónsson og Helga Gísladóttir eru einnig viðmælendur að þessu sinni.
Árni Friðleifsson fyrrverandi formaður SVFR sendir blaðinu afmæliskveðju. Árni rifjar upp hvar hann var staddur þegar fyrsta eintak Sportveiðiblaðsins barst. Hann var í hléi í Norðurá og bókstaflega reif í sig blaðið. Hann var nærri búinn að missa af seinni vaktinni.
Sporðaköst óska Sportveiðiblaðinu og Gunnari Bender ásamt samstarfsfólki til hamingju með afmælið
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |