Mun betri byrjun í Kjósinni en í fyrra

Fyrsti laxinn úr Laxá í Kjós sumarið 2022. Agnar Þór …
Fyrsti laxinn úr Laxá í Kjós sumarið 2022. Agnar Þór Guðmundsson veiddi hann í Laxfossi að norðanverðu snemma í morgun. Ljósmynd/HE

Það er stór opnunardagur í dag í laxveiðinni. Veiði hófst í morgun í Miðfjarðará, Laxá í Kjós, Eystri – Rangá og Hítará. Byrjum á Miðfirðinum. Fyrsti laxinn þar kom á land eftir örfáar mínútur og var það í sjálfri Miðfjarðaránni í veiðistaðnum Horni. Dæmigerður tveggja ára lax 82 sentímetrar.

Einn er kominn úr Vesturá og fékkst hann í Kerafossi. Áttatíu sentímetra fiskur. „Við höfum oft séð meira af fiski á þessum tíma hér í Miðfirðinum en við höfum svo sem séð hann víða í dag og síðustu daga. Það er ofurlítið skrítin staða í þessu við höfum verið að reisa mikið af fiski og hann hefur verið að elta en það bara vantar tökuna í hann eins og það er skrítið með glænýjan fisk,“ sagði Rafn Valur Alfreðsson leigutaki í Miðfirði í samtali við Sporðaköst í hádeginu. Stuttu síðar í samtalinu mátti heyra, „Já, já já já ahhhh. Hann hætti við,“ kallaði hann til veiðifélaga síns sem var að kasta á Hlíðarfossbreiðuna. Vænn lax hafði elt fluguna einhverja þrjá metra en seig svo undan. Þriðji laxinn kom svo á land á sama stað og sá fyrsti í Horni.

Rafn Valur Alfreðsson með fyrsta laxinn úr Vesturá í Miðfirði …
Rafn Valur Alfreðsson með fyrsta laxinn úr Vesturá í Miðfirði í morgun. Tekinn í Kerafossi. Ljósmynd/GBN

Sem sagt þrír í Miðfirði á fyrstu vakt. Oft verið betra en slangur af fiski á ferðinni.

Laxá í Kjós var líka í sparifötunum í morgun þegar spenntir veiðimenn héldu af stað. Fyrstu laxarnir þar sáust 23. maí og einhver slæðingur hefur gengið síðan. En Haraldur Eiríksson leigutaki. Hvernig hefur fyrsta vaktin verið?

Erlendur veiðimaður með fyrsta laxinn úr Miðfjarðará sumarið 2022. Þessi …
Erlendur veiðimaður með fyrsta laxinn úr Miðfjarðará sumarið 2022. Þessi veiddist í Horni og stuttu síðar kom annar þar. Ljósmynd/RVA

„Við erum bara býsna sátt eftir fyrstu vaktina. Fimm á land og aðrir fimm misstir. Þetta var frekar hryssingslegur morgun og eftir fjörugan fyrsta klukkutíma var svo aftur fjör síðasta klukkutímann þegar aðeins hlýnaði. Mest af þessum fiski kom neðst í ánni í kringum Laxfoss og þar fyrir neðan. Stærsti fiskurinn var áttatíu sentímetrar en við fengum líka lúsuga smálaxa sem veit á gott.“

Guðveig Elísdóttir þreytir lax í Laxfossi að sunnan í morgun.
Guðveig Elísdóttir þreytir lax í Laxfossi að sunnan í morgun. Ljósmynd/HE

Það er alveg óhætt að segja að þessi fyrsta vakt gefi góð fyrirheit í Kjósinni. Síðasta þriggja daga opnun skilað sex löxum en nú komu fimm á land og hefðu hæglega getað verið fleiri. Einn stórlax misstist í morgun og var það í Poka sem er býsna ofarlega í Kjósinni. 

Guðveig með 80 sentímetra hrygnu og Óðinn Elísson óðalsbóndi samfagnar.
Guðveig með 80 sentímetra hrygnu og Óðinn Elísson óðalsbóndi samfagnar. Ljósmynd/HE

„Ég held að það viti á gott að smálaxinn er að mæta frekar í fyrra fallinu núna. Það heldur uppi tölunum og ég held að það sé góðs viti að fá hann snemma,“ sagði Haraldur Eiríksson í samtali við Sporðaköst.

Óðinn landaði svo sjálfur þessum lúsuga smálaxi á Fossbreiðu. Spennandi …
Óðinn landaði svo sjálfur þessum lúsuga smálaxi á Fossbreiðu. Spennandi að sjá að smálaxinn er mættur snemma. Ljósmynd/HE

Þriðja áin til að opna í morgun var svo Eystri – Rangá. Þar var öllu rólegra og fyrsta vaktin er laxlaus. Við höfum ekki upplýsingar enn um fyrstu vakt í Hítará.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert