„Veiðin hefur batnað á þessum 40 árum“

Grétar með pattaralegan urriða. Eins og sjá má á vatninu …
Grétar með pattaralegan urriða. Eins og sjá má á vatninu var það gruggugt eftir rokið. Samt fengu þeir glugga seinni daginn og veiddu vel. Ljósmynd/GÞ

Arnarvatnsheiðin opnaði fyrir veiðimönnum þann 15. júní. Þeir hörðustu voru mættir upp eftir þann 14. og byrjuðu að veiða á miðnætti. Í þeirra hópi voru Grétar Þorgeirsson og synir. „Já. Við vorum klárir í bátinn á miðnætti. Búnir að grilla og stangirnar voru klárar. Heilt yfir var þetta fínt þrátt fyrir erfið skilyrði. Það var svo hvasst að vötnin urðu kolmórauð og fyrri daginn sem við vorum var lítil veiði. Svo gerðist það seinni daginn að við fengum smá glugga þar sem vindur gekk aðeins niður og sólin reif sig fram. Þá lentum við í skemmtilegri veiði,“ sagði Grétar í samtali við Sporðaköst.

Veiðibíllinn á brúnni yfir Norðlingafljót 2019, þegar hún var tekin …
Veiðibíllinn á brúnni yfir Norðlingafljót 2019, þegar hún var tekin í notkun. Þá var miklum farartálma eytt. Ljósmynd/GÞ

Arnarvatnsheiði á sér fjölmarga aðdáendur enda ekki skrítið. Svæðið er víðfeðmt og fjölbreytt og umfram allt gjöfult. Grétar segir að slóðin og leiðin upp eftir sér þurr og góður og eftir að brúin kom yfir Norðlingafljót er fært upp í Úlfsvatn og Arnarvatn litla á hvernig fjórhjóladrifs bíl sem er. „Við gátum reyndar ekki farið upp í efstu vötnin, eins og Hlíðarvatn. Slóðinn þangað er ennþá blautur. Við höfum stundum farið þangað í opnun en það var ekki í boði núna.“

Þeir feðgar voru í Arfavatni neðra þegar glugginn kom. „Við fórum á rúntinn fyrri daginn, þegar vötnin voru flest óveiðanleg. Þá hittum við menn við Refsveinu sem voru búnir að mokveiða þar á makríl og aðra beitu. Þeir voru með eitthvað á milli sextíu og sjötíu fiska. Við nenntum ekki að fara í þeirra fótspor þannig að við fórum í Arfavatnið.“

Hafsteinn Helgi með einn af mörgum urriðum. Þegar veðrið tók …
Hafsteinn Helgi með einn af mörgum urriðum. Þegar veðrið tók sér smá hvíld gekk þetta allt upp. Ljósmynd/GÞ

Þeir fengu eins og fyrr segir fína veiði um leið og dúraði. Þetta voru fiskar á bilinu tvö til fjögur pund og Grétar sagði að fiskurinn núna væri mjög vel haldinn. Greinilegt að hefðu verið góð skilyrði fyrir hann. „Þetta er misjafnt milli ára hvernig hann er haldinn. En þetta var allt flottur fiskur sem við fengum. Mest af því var urriði en eitthvað um bleikju líka. Þetta voru skipfeitir skrattar.“

Arfavatn neðra er rétt fyrir ofan Arnarvatn litla. Stutt á rennur þar á milli. Þeir veiddu mest í vatninu sjálfu en fengu líka fiska í læknum sem rennur á milli.

Guðbjartur Geiri fékk þennan úr landi. Straumflugur voru að gefa …
Guðbjartur Geiri fékk þennan úr landi. Straumflugur voru að gefa þeim mest af veiðinni. Ljósmynd/GÞ

„Við fengum þetta mest á straumflugur. Black Ghost gaf okkur vel, Kötturinn og Mickey Finn og flugur sem strákarnir mínir hafa verið hnýta í ýmsum útgáfum. Svo var gaman að því að Langskeggur var líka að virka vel fyrir okkur."

Þrátt fyrir rok og þar af leiðandi erfiða aðstæður hafa margir verið að birta myndir á facebook af fallegum fiskum af Arnarvatnsheiðinni. Grétar segir að margir hafi verið að leggja leið sína upp eftir á þjóðarhátíðardaginn en frekar fáir veiðimenn verið fyrstu dagana.

Róbert vel klæddur með fallegan urriða í Arfavatni neðra. Það …
Róbert vel klæddur með fallegan urriða í Arfavatni neðra. Það er lykilatriði að klæða sig vel þarna efra þegar hann blæs. Ljósmynd/GÞ

Grétar hefur veitt á Arnarvatnsheiðinni samfellt í 41 ár. Aðeins árið 2006 datt út hjá honum þegar hann neyddist til að vera í veiðileiðsögn á sama tíma í Norðurá. En hvað segir hann um þær breytingar sem orðið hafa á veiðinni á þeim tíma?

„Mér finnst þetta bara hafa batnað. Fiskurinn er orðinn stærri og jafnari. Þegar ég var að veiða þarna sem ungur maður var fiskurinn smærri og kannski meira af honum en mér finnst þetta miklu jafnari veiði núna og meira af stórum fiski.

Við tókum eftir því að það var miklu meira af mink en við höfum séð áður. Við sáum hann á fimm stöðum en oft höfum við kannski séð einn en þetta var miklu meira. Við lentum meira að segja í því að einn synti í veg fyrir bátinn og við reyndum að háfa hann en það tókst ekki.“

Synir Grétars, Hafsteinn Helgi, Guðbjartur Geiri og Róbert voru í för með pabba og er þetta í fyrsta skipti sem þetta var eingöngu feðgaferð. Niðurstaðan er einföld. Fín ferð og veiði þrátt fyrir erfið skilyrði sökum veðurs.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert