Þorsteinn Bachmann stórleikari átti stórleik í Mýrarkvísl í gærkvöldi þegar hann landaði fjórða laxi sumarsins seint í gærkvöldi. Þorsteinn var í skýjunum þegar Sporðaköst náðu tali af honum skömmu eftir löndun og sleppingu á 84 sentímetra hrygnu.
„Ég held að Mýrarkvísl sé fegursta orð íslenskrar tungu,“ sagði leikarinn og um hann fór sæluhrollur. Eins og fyrr segir er þetta fjórði laxinn sem veiðist í Mýrarkvísl í sumar. Við gerðum frétt þegar búið var að veiða tvo og þótti það merkilegt. Í fyrrakvöld veiddist 90 sentímetra hængur.
En það er skemmtileg saga á bak við hrygnuna hans Steina. „Ég var staddur í Keflavík eftir að hafa skutlað fólki út á flugvöll og ákvað að heyra í Matta. Hann var bara staddur á skrifstofunni og sagði að þeir væru að fara að leita að laxi og spurði hvort ég vildi ekki koma með. Ég sagði bara. Ég sé þig á eftir. Alla leiðina norður hugsaði ég bara um lax, einhverra hluta vegna. Við Hittumst svo og borðuðum og skelltum okkur svo í galla og fórum að veiða,“ sagði Þorsteinn um þessa skyndiákvörðun.
Það var ekki mikill tími til umráða og hann var búinn að kasta í um það bil hálftíma þegar Matti kallar að nú væri kominn tími. Þorsteinn var að strippa inn síðasta kastið þegar flugan var negld. „Duggghhh,“ hermir leikarinn eftir hljóðinu þegar hrygnan rauf yfirborðið og skellti sér á Black Ghost. „Þetta var svo mögnuð viðureign. Hann var svo fjörugur að ég hef aldrei upplifað annað eins. Bara aldrei. Ég hélt þrisvar sinnum að ég væri búinn að missa hann. Stökk allur upp úr og straujaði ána alveg fram og til baka og bara gerði allt sem þeir geta gert.“
Þetta var í veiðistaðnum Garðspolli neðarlega í Mýrarkvíslinni. „Þetta hafðist. Þetta var mikið teamwork. Þetta var fimm manna verk og svo lak úr honum þegar hann var kominn í háfinn. Þeir voru allir þarna með mér, Matti, Gilbert og Ísak Daníel. Fimm menn og traktor,“ hló leikarinn.
Hann segist hafa haft rosalega góða tilfinningu fyrir þessum veiðistað. Þegar hann byrjaði að kasta á hann. „Þetta var þannig sko að ég hafði á tilfinningunni að það væri lax þarna. Ég fann fyrir þannig hreyfingu á vatninu. Ég byrjaði með Dimmblá og fannst hann vera að skoða hana og ég var bara viss um að það væri stór fiskur þarna. Það kom líka á daginn. Sænski leiðsögumaðurinn Gilbert Jonsson og minn helsti leiðbeinandi var mér innan handar í öllu þessu máli.“
Það er eitthvað svo viðeigandi að Þorsteini Bachmann gangi vel í Mýrarkvíslinni sem var sögusvið vinsælu gamanmyndarinnar Síðasta veiðiferðin. Þar leikur Þorsteinn einmitt Val Aðalsteins sem er veiðidóni og frekjuhundur.
Þannig að þetta er ekki síðasta veiðiferðin þín í Mýrarkvísl?
„Ónei maður hugsar varla orðið um annað en veiði og er bara orðinn eins og hinir sjúklingarnir. Maður má varla vera að því að vera í vinnunni.“ Símtalinu lýkur með hlátrarsköllum og góðum óskum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |