Fyrsti fiskurinn hennar var 243 pund

Mæðgurnar með styrjuna sem Esther landaði og mældist um 240 …
Mæðgurnar með styrjuna sem Esther landaði og mældist um 240 sentímetrar. Erla dóttir hennar aðstoðar við halda dýrinu. Þessi fiskur var 243 pund. Ljósmynd/Esther

Fólk tekur veiðidelluna með ólíkum hætti. Það eru ekki margir Íslendingar sem byrja í styrjuveiði og landa fyrsta fiskinum sínum sem  er yfir tvö hundruð pund. Þetta gerði hún Esther Guðjónsdóttir formaður Veiðifélags Stóru – Laxár. Hún landaði nýlega styrju í ánni Fraser sem vigtaði 243 pund og mældist 7,9 fet eða um 240 sentímetrar. Fiskurinn var talinn vera 42 ára gamall.

„Maðurinn minn á frændur úti í British Columbia sem við búa við ána Fraser þar sem er stunduð veiði á styrjum. Við fórum og heimsóttum þá og þeir stungu upp á styrjuveiði. Okkur leist vel á það og úr varð mjög skemmtilegur veiðitúr,“ sagði Esther Guðjónsdóttir í samtali við Sporðaköst.

Hún greindi nýlega frá því á facebook síðu sinni að fjölskyldan hefði farið í slíka veiði og árangurinn var mjög góður.

Vissir þú eitthvað hvað þú varst að fara út í?

„Ég var búin að sjá myndir af þeim að veiða þannig að maður hafði svona óljósa hugmynd. Fraser áin er mikið fljót með fjölda hliðaráa og rennur til sjávar í Vancouver. Við vorum í borginni Abbotsford og fórum þaðan, þann 7. júní. Styrjan er veidd af bátum og við vorum með fjórar stangir. Það er notuð beita sem er niðurskorinn fiskur. Styrjan er botnfiskur og telst hrææta þannig að við vorum að sökkva þessu vel.

Við fylgdumst svo bara með stöngunum og þegar fiskur var búinn að taka leyndi það sér ekki og stöngin var gripin,“ upplýsti Esther.

Jóhann tekst á við stóra styrju. Átökin leyna sér ekki.
Jóhann tekst á við stóra styrju. Átökin leyna sér ekki. Ljósmynd/Esther

Það fór alveg heill dagur í þetta. Þau voru komin um borð í bátinn um níu leytið um morguninn og þá tók við drjúg sigling upp ána og svo þurfti að finna fiskinn. Um borð voru fiskleitartæki og þegar búið var að finna torfu var kastað akkeri. Aftur voru þau svo komin í höfn um klukkan fjögur síðdegis.

Jóhann Kormáksson eiginmaður Estherar fékk fyrsta fiskinn og var hann rétt tæpir tveir metrar. Erla og Guðjón, börn þeirra fengu svo næsta og var hann 155 sentímetrar og loks var það Esther sem tók sinn 243ja punda eða 240 sentímetrar. Í lokin lönduðu þau svo einum saman en hann var sínu stærstur eða 332 pund.

Enginn smá fiskur. Styrjan stekkur Eins og sjá má er …
Enginn smá fiskur. Styrjan stekkur Eins og sjá má er Fraser áin sannkallað stjórfljót og fellur til sjávar skammt frá Vancouver. Ljósmynd/Esther

„Þetta voru ofboðsleg átök að berjast við þessa stóru fiska. Það þurfti að halda í mann svo maður færi hreinlega ekki fyrir borð. Ég var örugglega í hálftíma að slást við fiskinn og það þurfti að bakka bátnum til finna pláss til að komast í land því það var ekki hægt að ná þessum fiski um borð í bátinn.“

Esther segir styrjuna haga sér ekki ósvipað og laxinn. Gangi til sjávar og komi svo á nýjan leik til að hrygna. Öllum styrjum ber að sleppa. Flestir fiskarnir eru merktir og grannt er fylgst með stofninum í Fraser ánni.

Jóhann og Erla með fjórða og stærsta fiskinn þar sem …
Jóhann og Erla með fjórða og stærsta fiskinn þar sem allir þurftu að hjálpast að. Ljósmynd/Esther

Hún mælir hiklaust með þessari veiði og ekki síst fyrir þá sem hafa veitt nánast allt annað. „Þetta var mjög gaman og ekki leiðinlegt að byrja svona á toppnum. Ég á aldrei eftir að veiða stærri fisk á ævinni,“ hló hún.

Þú ert ekki að fara að kasta á þessa titti í Stóru – Laxá eftir þetta ævintýri, eða hvað?

„Ég hef aldrei veitt í Stóru – Laxá þó að ég hafi verið formaður veiðifélagsins í tólf ár. Ég á eftir að veiða minn fyrsta lax.“

Esther fór nám í veiðileiðsögn í Ferðamálaskóla Íslands í vetur. Það segist hún hafa gert til að verða betri formaður og skilja þetta sport betur. „Mig langaði að skilja þetta og kynnast hlið veiðimannsins og leiðsögumannsins og ekki bara einblína á peningahliðina heldur líka skilja hitt betur. Ég hafði mjög gott af því og ég skil þetta allt öðruvísi núna.“

Stóra – Laxá opnar einmitt fyrir veiði á morgun á efra svæðinu og svo tekur við opnun á neðra svæðinu þann 27. Laxar hafa sést á svæðinu og er Esther spennt hvernig sumarið mun verða.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert