Dagur Ólafsson, fimmtán ára átti frábæran morgun í Laxá í Aðaldal. Laxá er stundum kölluð „Big Laxá“ og er það tilvísun í bæði stærð árinnar og stórlaxastofninn sem á þar heimkynni sín. Dagur upplifði hvoru tveggja. Árni Pétur Hilmarsson og fleiri innfæddir stórveiðimenn voru við veiðar. Sporðaköst óskuðu eftir skýrslu frá Pésa eins og hann er oftast kallaður. Hún fylgir hér.
„Morgunvaktin í Laxá var frábær. Það komu fimm laxar á land. Holl tvö í Laxá er „gædaholl“ þar sem valin maður er í hverju rúmi. Þar er þéttasti kjarninn sem stendur að ánni að veiða saman ásamt mökum og afkomendum.
Ólafur Helgi sem oft er kallaður „Helvítis kokkurinn“ átti heimasvæðið í Nesi og deildi stönginni með Degi syni sínum. Dagur var fyrr um morguninn búinn að missa fallegan fisk í Kirkjuhólmakvísl. Þeir feðgar héldu þá í Sandeyrarpoll þar sem Óli reisti stórann fisk. Korter var eftir af vaktinni og nú voru góð ráð dýr. Dagur fékk næst val á flugu og var SunRay Bismo settur undir. Eitt rennsli og sá stóri negldi hana. Upphófst mikli barátta. Fyrir þá sem ekki þekkja þá er Sandeyrarpollur ekki stór staður á mælikvarða Laxár. Fiskurinn setti sig fastann í dýpinu neðst í hylnum og hreyfði sig hvergi. Þá kom tveggja áratuga gædareynsla Óla sér vel þar sem beita þurfti bellibrögðum til að ná laxinum aftur af stað. Tók hann þar næst strikið niður í Dýjaveitur þar sem honum var landað eftir fjörutíu mínútna baráttu og niðurstaðan var 102 sentímetra metra hængur, nýgenginn og glæsilegur.“
Þetta er fyrsti hundraðkallinn af Norðurlandi í sumar og afar viðeigandi að hann veiðist í „Big Laxá.“ Áður höfðu þrír slíkir höfðingjar ratað inn á hundraðkallalistann hjá Sporðaköstum og voru þeir allir veiddir á Vesturlandi.
Sporðköst senda hamingjuóskir á unga veiðimanninn Dag Ólafsson.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |