Laxveiðin hófst fyrir alvöru á NA–landi í gær. Þá opnuðu þær systur í Vopnafirði, Selá og Hofsá. Einnig var fyrsti veiðidagur í Hafralónsá. Sunnan heiða hófst veiði í Stóru – Laxá á efra svæðinu eða svæði fjögur eins og það var kallað. Þá var fyrstu löxunum landað í Tungufljóti í Biskupstungum, neðan Faxa.
Þrátt fyrir leiðinda veður og haustlegan kulda voru opnanir með ágætum. Sex laxar komu á land í Selá og fjórir í Hofsá. Nokkrir sluppu eins og gengur og gerist. James Ratcliffe landeigandi og forsprakki Six Rivers Project sem leigir laxveiðiár á NA–landi opnaði Selá. Hann setti í og landaði fiski meðal annars í Fosshyl og Efri Sundlaugarhyl. Alls landaði hann fjórum af þessum sex löxum. Eins og við fyrri opnanir notaði Jim, Sunray Shadow með góðum árangri. Allir sex fiskarnir sem veiddust í Selá á opnunardegi voru fallegir tveggja ára laxar.
Hofsá gaf fjóra laxa og veiddust þeir vítt og breitt um ána. Sérstaka athygli vakti að smálax var einn af þessum fjórum og fékkst hann í Hvammshyl. Aðrir staðir sem gáfu fiska voru Þvottalækjarstrengir og Wilsons run.
Aðeins vestar og norðar voru veiðimenn að kasta fyrstu köstin á Hafralónsá. Þegar upp var staðið var sex löxum landað á fyrsta degi og telst það mjög góð byrjun á þeim bænum. Oftast eru veiðistaðirnir Gústi og Stapi sterkastir í opnun.
Stóra – Laxá opnaði efra svæðið fyrir veiðimönnum í gær og var töluverð spenna í mönnum þar sem nokkuð er um liðið frá því að fyrstu laxarnir sáust þar. Fyrsta laxinn fékk Eva Sigurðardóttir og var það 87 sentímetra gullfallegur hængur.
Fyrstu löxunum var landað úr Tungufljóti í Biskupstungum en fyrir veiðimenn er helsta kennileiti þar fossinn Faxi og það var einmitt fyrir neðan hann sem fyrsti laxinn veiddist og var það falleg tveggja ára hrygna. Þegar uppvar staðið komu fjórir laxar á land í Tungufljótinu á opnunardegi.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |