Besta opnun gaf 18 laxa á þrjár stangir

Helgi Sveinsson spjótkastari og laxahvíslari með einn af mörgum á …
Helgi Sveinsson spjótkastari og laxahvíslari með einn af mörgum á Iðunni á opnunardag. Ljósmynd/EPVÞ

Flestar af þekktustu laxveiðiánum hafa nú opnað. Alltaf ríkir nokkur spenningur um þessar opnanir þó að þær gefi kannski ekki mikla vísbendingu um það sem koma skal. Það er hins vegar nokkuð ljóst að best opnunin, þegar horft er í fjölda stanga, tíma og fjölda laxa var á Iðunni. Þar hófst veiðin 24. júní. Veitt er á þrjár stangir og gaf opnunardagurinn hvorki fleiri né færri en 18 laxa. Þessir fiskar voru á bilinu 66 til 92 sentímetrar og það sem er sérstaklega athyglisvert er að öllum þessum löxum var sleppt. En það hefur ekki verið skylda á Iðunni að sleppa löxum og er það reyndar ekki enn þó að stefnt sé að því að sleppa í það minnsta öllum tveggja ára hrygnum sem veiðast.

Elías Pétur með einn silfraðan. Öllum átján löxunum af Iðunni …
Elías Pétur með einn silfraðan. Öllum átján löxunum af Iðunni þennan morgun var sleppt. Ljósmynd/HS

Þetta breytta viðhorf helst í hendur við uppkaup á netalögnum á vatnasvæðinu fyrir neðan Iðuna, nefnilega Hvítá og Ölfusá. Enn eru einhver net lögð en þeim hefur fækkað mjög mikið fyrir tilstuðlan Verndarsjóðs villtra laxastofna, NASF.

Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson var einn þeirra sem veiddi Iðuna á opnunardag. Hann sagði að þetta hefði hreinlega verið magnað. „Þetta var eiginlega á alla vegu dásamlegt, fyrir utan að vöðlurnar mínar láku í klofinu. En það gleymdist alltaf þegar maður fékk töku,“ sagði Elías í samtali við Sporðaköst og hló við. 

Hann sagði alls konar flugur hafa verið að virka. Monkey Sunray, Svartur Frances kón og Bismó nefndi hann sem dæmi.

Nokkru ofar á vatnasviðinu opnaði Stóra – Laxá og það með stæl. Við höfum áður fjallað um efra svæðið, en svokallað neðra svæði sem er gamla 1,2 og 3. Opnaði í gær seinni part dags og voru þar breskir veiðimenn að opna ána. Þeir lönduðu tíu löxum og voru þeir stærstu níutíu plús eins og sagði í skeyti frá umsjónaraðilum. Þetta eru frábærar opnanir á efri hluta þessa víðfeðma vatnasvæðis.

Ian Morris landaði þessum 99 sentímetra hæng í Norðurá í …
Ian Morris landaði þessum 99 sentímetra hæng í Norðurá í gær. Veiðistaðurinn er Kríuhólmi. Ljósmynd/BÞH

Alvöru stórlax úr Norðurá

Sannkallaður stórlax veiddist í Norðurá í gær. Þar var að verki Ian Morris og fékk hann laxinn við Kríuhólma. Mældist hann 99 sentímetrar og er sá stærsti úr Norðuránni það sem af er sumri. Þessi stórvaxni hængur tók Collie dog 1/2". Stórlöxum hefur fjölgað á Vesturlandi hin síðari ár og er það mikið fagnaðarefni því að fyrir um áratug var óttast að þessi dýrmætu gen væru á undahaldi í borgfirsku ánum. Annað er komið á daginn.

William Buchan frá Skotlandi er ekki nískur á brosið enda …
William Buchan frá Skotlandi er ekki nískur á brosið enda er þetta 93 sentímetra silfraður stórlax sem hann veiddi í Blöndu í morgun. Ljósmynd/RH

Batinn í Blöndu heldur áfram

Nú er stækkandi straumur sem nær hámarki á fimmtudag og binda margir vonir að veiðin glæðist með þeim straumi. Sporðaköst höfðu samband við Róbert Haraldsson yfirleiðsögumann í Blöndu og báðu um aflestur af laxateljara í ánni. Róbert brást vel við því. Í gærkvöldi var 61 lax genginn í gegnum teljarann en í morgun sýndi hann töluna 74. Þetta veit á gott og skilaði sér líka í veiði. Í morgun settu veiðimenn í Blöndu í tíu stórlaxa og lönduðu sex þeirra. Þeir voru á bilinu 80 til 93 sentímetrar. Allir fiskarnir veiddust á Breiðunni og voru fjórir af þessum sex lúsugir. Róbert sagði í samtali við Sporðaköst að morguninn hefði svo sannarlega byrjað með látum. Klukkan hálf níu voru þrjá stangir með fisk á í einu. Eftir rólega byrjun í Blöndu er þetta kærkomið og gaman að geta þess að meðallengd fyrstu þrjátíu laxanna í ánni eru 85 sentímetrar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert