Óvenju margt er hægt að lesa út úr vikulegum veiðitölum á angling.is sem er vefur Landssambands veiðifélaga og heldur utan um tölur yfir veiði í laxveiðiám. Það fyrsta sem vekur sérstaka athygli er mikil veiði í Flókadalsá í Borgarfirði. Þar eru komnir 87 laxar á land á þrjár stangir og lætur það nærri að vera besta veiði á landinu miðað við lax á stöng á dag.
„Þetta er miklu betri byrjun en undanfarin ár,“ sagði Sigurður Jakobsson formaður Veiðifélags Flókadalsár. „Ég man ekki eftir því að þetta hafi gerst undanfarin ár. Það kann að vera að þetta hafi verið á svipuðu róli þegar metárið var 2013 og áin fór í 937 laxa.“
Sigurður segir að opnunin hafi gengið vel og svo hafi komið holl sem greinilega hafi hitt á göngu og skilaði 36 löxum og hafi fyllt kvótann en hann er sex laxar á stöng á dag.
En ef listinn á angling er skoðaður þá er Urriðafoss í fyrsta sæti með 341 lax. Það er mun minni veiði en í fyrra en Urriðafoss var kominn í 500 laxa um þetta leiti í fyrra.
Norðurá er í öðru sæti listans með 206 laxa og er það á pari við byrjunina í fyrra.
Haffjarðará er í þriðja sæti með 123 laxa. Það er töluvert betri byrjun en 2021 en á þessum tíma voru komnir 92 laxar úr henni.
Eins og fyrr segir er svo Flókadalsá í fjórða sæti með 87 laxa á sínar þrjár stangir. Í fyrra var hún í 36 löxum á þessum tíma.
Þverá/Kjarrá hafa skilað inn tölum.
Miðfjarðará kemur næst með 68 laxa en var á sama tíma í fyrra með 65.
Laxá í Kjós er mun betri en í fyrra. Nú er talan 58 en var fyrir ári 35.
Næstar koma jafnar Grímsá, Ytri – Rangá og Stóra – Laxá en sú síðast nefnda hefur skilað mjög góðri veiði þessa fyrstu daga. Allar eru þær bókaðar með 54 laxa en Grímsá í fyrra var með 16 laxa á þessum tíma. Þá er Ytri með mun betri veiði en í fyrra. Einungis 10 laxar voru komnir á land í fyrra á sama tíma.
Svo koma þessar:
Hítará 43
Blanda 40
Laxá í Aðaldal 36
Laxá í Leirársveit - ekki skilað tölum.
Langá 32
Elliðaárnar - ekki skilað tölum.
Víðidalsá 30
Þetta eru fimmtán hæstu árnar. Aðrar eru með minna en svo skýrist myndin betur eftir því sem vikunum fjölgar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |