Við afar krefjandi aðstæður um síðustu helgi gerði Davíð Jón Kristjánsson og félagar magnaða veiði í Arnarvatni stóra á Arnarvatnsheiði. Davíð landaði þá nokkrum urriðum yfir sjötíu sentímetra og var sá stærsti 75 sentímetrar sem er með því stærsta sem hægt er að búast við að fá á heiðinni.
„Aðstæður voru ömurlegar. Það var brjálað rok beint í andlitið á okkur og vatnið eins og kókómjólk á litinn. En við vorum samt að sjá fisk út um allt. Þessir stóru komu á Blue Fox spún og sá stærsti mældist 75 sentímetrar. Við vorum búnir að reyna fluguna en það var ótrúlega erfitt að kasta upp í rokið,“ sagði Davíð Jón í samtali við Sporðaköst.
Hann landaði ótrúlega flottri seríu. Fékk tvo urriða sem mældust 73 sentímetrar og einn sem var heilir 75. Fiskarnir vigtuðu 4,8 og 4,9 kíló. Þetta eru þrír fiskar sem allir eru að daðra við tíu pundin.
„Við vorum fjórir á þessum stað og það var mikið að gera hjá okkur öllum. Við vorum norðarlega í vatninu við tóftirnar og ána. Fiskarnir sem við vorum að fá voru þetta fjögur til sjö pund fyrir svo utan þessa þrjá. Við vorum þarna með einhverja tæpa tuttugu fiska.“
Davíð segir að þeir veiði árlega á Arnarvatnsheiðinni. Hann hefur farið á heiðina með pabba sínum og mágum og svo var sonur hans Guðjón Smári að koma með í fyrsta skipti. „Það er töluvert labb á þennan stað. Okkur var bent á þetta fyrir tveimur árum að þarna væru stærstu fiskarnir í vatninu. Til dæmis í fyrra þá vorum við að til klukkan sex um morguninn. Við gátum bara ekki hætt og þetta voru allt svona boltar.“
Veiðihópurinn tekur alltaf helgi og seinni daginn í þessari ferð fóru þeir á staði sem kallaðir eru Alkahóll og Nef. Voru þar á milli og veiddu vel þar, en töluvert smærri fisk og var honum öllum sleppt.
Þessir þrír sem þú landaðir yfir sjötíu sentímetra, er þetta ekki með því allra stærsta sem heiðin er að gefa?
„Hann Eiríkur veiðivörður var mjög undrandi á lengdinni á þeim. En hann vissi af jafn þungum fiskum sem voru þó ekki nema 68 og 69 sentímetrar en hann var ekki viss um hvort hann myndi eftir svona löngum fiskum áður. Enda var þetta hörku barátta að slást við þessa stærstu. Þetta var alveg barátta upp á svona kortér. Þessir fiskar tóku svakalegar rokur þegar alltaf þegar maður var að nálgast þá með háfinn í fyrsta skipti og nánast tæmdu úr af spólunni og þetta gerðist þrisvar til fjórum sinnum. Ég missti líka einn svona þar sem ég var að reyna að háfa hann sjálfur. Hann lak af bara rétt við háfinn. Eftir það þá kallaði ég eftir aðstoð við að háfa þessa stóru. Þetta eru svo sterkir fiskar og þegar hann er kominn í fjögur pund og þaðan af stærra þá þarf að berjast við þessa fiska.“
Þessir stóru urriðar fá þann heiður að verða hluti af jólahaldi fjölskyldunnar. Þeir fara í reyk og verða borðaðir á jólum. Tengdamamma fékk þessa minni, sem voru þó svo sannarlega ekki litlir.
„Toby hefðbundinn silfraður var líka að gefa veiði og maðkurinn, en Blue Fox var að virka vel eins og alltaf. Þetta er lítill spinner og inni í honum er kúla þannig að spúnninn gefur frá sér víbring og ég hef séð það að fiskurinn verður reiður. Hann ræðst á hann. Fyrst þegar mér var bent á þennan spún var mér sagt að maður fengin rosalega oft á hann og yfirleitt fljótt. Það hefur líka verið mín reynsla með þennan spún,“ sagði Davíð.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |