Eitt elsta og virðulegasta vörumerki í veiðivörum er Hardy sem framleitt hefur veiðistangir og hjól í hundrað og fimmtíu ár. Í tilefni af tímamótunum hefur Hardy fagnað í veiðibúðum um alla Evrópu og einnig í Bandaríkjunum, á þessu ári. Þannig var boðið upp á afmælisköku og áhugaverða sýningu á gömlum munum sem tengjast Hardy, í Veiðihorninu í gær.
Hardy er breskt vörumerki og hefur alla tíð framleitt vörur sínar þar og gerir enn í dag að stærstum hluta. Hardy er eins breskt og hægt er að vera og stór hluti sögu stangveiða þar í landi tengist Hardy beint og óbeint.
Christen Stenild sölustjóri í Danmörku var viðstaddur uppákomuna og sagði ánægjulegt að Hardy væri aftur búið að ná sterkri fótfestu á Íslandi með aðkomu Veiðihornsins. Hardy er nú hluti af Pure fishing samsteypunni sem heldur utan um fjölmörg þekkt vörumerki á sviði stangveiði og útivistar.
Christen sagði sögu Hardy merkilega og óslitna og 150 ára saga væri eitthvað sem ekki væri hægt að kaupa fyrir peninga. „Þetta er saga og vitnisburður um gæða framleiðslu og óbilandi áhuga á að búa til vandaðan búnað fyrir veiði og veiðimenn,“ sagði Christen í stuttri tölu þar sem hann fagnaði bæði tímamótunum og því að hafa á nýjan leik öflugan samstarfsaðila á Íslandi.
Gamlir muni sem tengjast Hardy hafa fengið heiðurssess í Veiðihorninu og má þar meðal annars sjá veiðistangir af nokkrum kynslóðum og veiðihjól. Mörg þessara gömlu veiðihjóla eru enn í framleiðslu og til sölu. Gömlu Hardy bæklingarnir eru afar merkilegir. Þannig var Hardy farið að prenta litmyndir af flugum í bæklingnum sínum á fjórða áratug síðustu aldar. Þó nokkrum árum áður en íslensk dagblöð fóru að nýta sér slíka prentun. Í mörgum þessara bæklinga er fjallað er um Ísland og munum við um helgina grípa niður í þær lýsingar sem dregnar voru upp af veiðilandinu Íslandi í bókmenntum Hardy fyrir seinni heimstyrjöldina.
Sporðaköst óska Hardy, Veiðihorninu og Pure Fishing til hamingju með tímamótin.
Veiðihornið er samstarfsaðili SporðakastaLengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |