Stuð á þeim stóru í Stóru – Laxá

Gabríel Þór Bjarnason staddur neðst í Dagmálahyl með hundraðkallinn sinn. …
Gabríel Þór Bjarnason staddur neðst í Dagmálahyl með hundraðkallinn sinn. Skömmu áður hafði hann misst fisk sem var svipaður eða jafnvel aðeins stærri. Ljósmynd/RÞ

Það hljóp skyndilega stuð í þá stóru í Stóru – Laxá á miðvikudagskvöldið um átta leytið þegar fór að rigna. Gabríel Þór Bjarnason var staddur við Dagmálahyl sem hann segir að sé sinn uppáhalds veiðistaður á landinu. Dagmálahylur er á efra svæðinu í Stóru og tilheyrði áður svæði fjögur.

„Ég setti undir svona brasilískan Sunray og krók númer átta. Fiskur tók bara í fyrsta kasti og ég var rétt með skothausinn af línunni út í. Þetta var alveg efst í Dagmálahylnum. Ég „strækaði“ hann ekki í tökunni heldur lyfti bara stönginni mjúklega upp og fann að þetta var laus taka. Þannig að ég taldi mig þurfa að halda þéttingstaki á honum allan tímann og var með allan fókus á því. Ég lenti í því að elta hann á hlaupum einhverja fjögur til fimm hundruð metra niður með ánni. Svo kom að því að hann komst á hægara vatn og þá datt úr honum. Hugarfarið hjá mér var alveg í lagi og í staðinn fyrir að vera eitthvað að svekkja mig á þessu þá ætlaði ég bara að setja í annan,“ sagði Gabríel Þór Bjarnason í samtali við Sporðaköst um magnaða kvöldstund í Stóru – Laxá.

Gabríel Þór og félagi hans Rögnvaldur Þorgrímsson voru sammála um að þessi lax hefði verið 100 sentímetrar plús.

Á nákvæmlega sama tíma var Magnús Ingi Guðmundsson að spila stórlax í Heimahyl, sem hann missti. Sá fiskur var metinn 95 sentímetrar plús.

Gabríel kastaði aftur í Dagmálahyl. Enn rennsveittur og móður á adrenalín ofskammti vann hann út línu. „Hann tók í þriðja kasti. Þetta var líka hálftíma viðureign eins og sá sem slapp. Við þurftum aftur að hlaupa eins og með þann fyrri. Þessi lax rauk þvert yfir ána og keyrði alveg í bakkann hinum megin. Þá leið mér eins og þetta væri mögulega búið en þar sem ég hafði náð að „stræka“ þann fisk, eða setja krókinn vel í hann þá slapp það. Ég náði honum aftur að réttum bakki og eftir það tóku við hlaup og tuttugu mínútna barátta eins og með þann fyrri. Við vorum ekki með háf og Rögnvaldur varð bara að sporðtaka hann.“

Þeir félagar vönduðu sig við mælinguna á fiskinum og stóð hann slétta hundrað sentímetra og er sá stærsti úr Stóru í sumar.

En fjörinu var ekki lokið í Dagmálahyl það kvöldið. Þeir félagar settu í og lönduðu tveimur stórlöxum í viðbót sem mældust 84 og 87 sentímetrar. Allir þessir laxar voru silfraðir og ný gengnir en ekki lúsugir.

Jay Monahan með 99 sentímetra fisk sem tók Sunray í …
Jay Monahan með 99 sentímetra fisk sem tók Sunray í Stekkjarnefi. Ljósmynd(ÞS

Hafi Dagmálahylur verið í uppáhaldi hjá Gabríel þá er óhætt að álykta að honum verður aldrei velt úr sessi eftir þessa mögnuðu veiði.

„Þetta voru ótrúlega kraftmiklir fiskar. Ég þekki Dagmálahyl vel og þessir stóru vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera. Súnkuðu sér niður í sí og æ og á bakvið helstu steina og ofan í klettarennur. Þeir láta svo sannarlega hafa fyrir sér. Svo heppilega vildi til að ég var með tuttugu punda taum, en vanalega veiði ég á tólf punda taum á svæði fjögur. Stóru – Laxár stofninn er öðruvísi en aðrir laxar. Mér finnst þeir sterkari og þreytast síður.“ 

Jói Fel landaði einum 98 í Stóru - Laxá fyrir …
Jói Fel landaði einum 98 í Stóru - Laxá fyrir nokkrum dögum. Það var þá stærsti lax sumarsins. Það met stóð ekki lengi. Ljósmynd/ÞS

Áfram var stuð í Stóru í gær og fréttum við af veiðimanni sem tók sex fiska á stöngina fyrir hádegi. Þá veiddist 99 semtímetra hængur í gær í Stekkjarnefi og var þar að verki Jay Monahan. Fiskurinn tók Sunray með látum. Nokkrum dögum áður hafði Jói Fel tekið einn 98 sentímetra fisk og eru þessi stórfiskar nú að koma á færibandi í Stóru sem er að gefa betri veiði en mörg undanfarin ár.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert