Eftir mjög dræma byrjun í Laxá á Ásum er útlitið nú gerbreytt. „Það eru bara hressilega góðar göngur og þetta er mun meira en undanfarin þrjú ár, miðað við sama tíma. Við erum að taka núna tólf til fjórtán laxa á dag og setja í og missa annað eins,“ sagði Sturla Birgisson rekstaraðili og umsjónarmaður Laxá á Ásum.
Í gær fóru Ásarnir yfir hundrað laxa og til samanburðar voru þeir fimmtíu talsins á þessum tíma í fyrra. Sturla segir þetta í góðum gír og í rúma viku hafa verið að koma inn góðar göngur á hverjum degi og nú er lax í hverjum einasta veiðistað frá Krókhyl og upp úr.
„Ég er búinn að vera bjartsýnn fyrir smálaxinum í sumar. Ég vissi að tveggja ára laxinn var mikið spurningamerki og ekki líkur á að hann kæmi í miklu magni."
Stulli viðurkennir að eftir fyrstu vikuna í vor þá var komið smá stress í hann þegar veiðin var mjög róleg. „En ég sá strax í byrjun veiðinnar að fyrstu smálaxarnir voru mættir og það styrkti mig í trúnni að þetta gæti orðið gott sumar þó að það byrjaði rólega.“
Þó að minna sé af tveggja ára laxinum þá eru þeir stóru svo sannarlega til staðar. „Ég veit af einu ferlíki fyrir ofan Mánafoss. Ég sá hann fyrst undir brúnni 11. júní. Svo sá ég hann fara upp Mánafoss í opnuninni. Það var 18. júní sem hann fór upp. Þannig að hann er búinn að koma sér fyrir einhvers staðar á efri hlutanum.“ Stulli er greinilega spenntur yfir því hvort þessi fiskur muni koma fram síðar í sumar. Það leynir sér ekki að þetta er fiskur sem hann langar til að bregða málbandi á.
Erlendur veiðimaður lenti í miklu ævintýri í síðasta holli. Hann setti í mjög stóran fisk í Neskvörn, sem er núna fullur af fiski. Þessi fiskur vissi nákvæmlega hvað hann var að gera. Tók strikið niður og leitaði uppi alla steina sem í boði voru og sargaði þar tauminn sem á endanum gaf sig og var það töluvert neðar í ánni eða í Krókhyl. „Þetta var meters fiskur en fimmtán punda Maxima taumurinn gaf sig á endanum. Þeir sáu hann vel. og einu sinni var ekki nema hálfur meter í háfinn en hann var klókur þessi. Þeir sáu hann mjög vel og þetta var splunku nýr hængur,“ hlær Stulli.
Eins og staðan er í dag lítur út fyrir gott smálaxasumar og það eru oft árin sem fara upp fyrir meðaltalið í veiðinni. Þannig hafa verið að sjást stórir dagar í Borgarfirðinum. Síðustu tveir dagar hafa gefið tæplega níutíu laxa í Norðurá. 33 í gær og 54 í fyrradag. Þá má sjá góðan stíganda í Miðfjarðará. 17 laxar veiddust í fyrradag og 23 í gær. Þá hafa einnig verið flottir dagar í Laxá í Kjós upp á síðkastið og gaf 9. júlí 22 laxa. Við höfum áður greint frá kröftugum göngum í Langá og þá er veiðin í Elliðaánum búin að vera mjög góð og langt síðan að menn hafa séð svo mikið af fiski þar. Fleiri ár mætti telja til, eins og vatnasvið Hvítár og Ölfusár, þar sem Stóra – Laxá, Sogið og Tungufljót hafa allar verið að gefa góða veiði.
Eins og sumarið er að teiknast upp núna gæti það orðið ríflegt meðalár. Það er nokkuð sem við höfum ekki séð undanfarin þrjú ár. Stór straumur er á fimmtudag og þannig að búast má við góðum göngum næstu daga og nú er full ástæða til bjartsýnni. Það sem stórt smálaxaár hefur einnig eru auknar líkur á góðu stórlaxa sumri árið á eftir. En nú er rétt að fara ekki fram úr sér og fyrst sjá hvernig þetta teiknast upp á næstu dögum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |