Sumar veiðisögur eru einfaldlega ótrúlegri en aðrar. Þessi saga fer í þann flokk en er engu að síður dagsönn. Oddur Rúnar Kristjánsson er nú staddur í Hrútafjarðará í sínum öðrum veiðitúr. Í fyrra var hans fyrsti túr og það einmitt í Hrútu. Í gærmorgun var hann ásamt tengdapabba, Magnúsi Magnússyni eða Maggú og þeir áttu Réttarstreng, efst í ánni.
Oddur fékk aðstoð við fluguval og það var Rauð Frances með kón sem varð fyrir valinu. Fljótlega fékk hann viðbragð og smálax tók fluguna. Þetta var eins og gefur að skilja mikið gleðiefni. Mældist sextíu sentímetrar. Maríulaxinn kominn og lífið gat ekki orðið mikið betra. Eða hvað?
Oddur hélt svo áfram nokkru síðar með þá rauðu og aftur tók lax. Það var klukkan 12:20 eða um leið og hádegisfréttir fóru í loftið. „Þetta var svona fjörutíu mínútna barátta og lauk akkúrat klukkan 13. Ég var áttaði mig bara alls ekki á þessu strax. Ég var algerlega fókuseraður á línuna, að hafa hana strekkta og gefa engan slaka, þannig að ég sá ekki fiskinn fyrr en eftir svona kortér. Maggú var búinn að sjá hann og sagði að þetta væri lurkur. Ég var svo mikið að vanda mig og áttaði mig ekki á hvað hann var stór. Ég er ekki með þá reynslu að fatta þetta. Það var ekki fyrr en hann stökk að ég sá að hann var stærri.“
Þegar laxinn kom á land áttaði Oddur sig á hversu stór hann var. Enda sýndi málbandið 102 sentímetra. Einn af stærstu löxum sem veiðst hafa á landinu það sem af er sumri.
„Þetta er reyndar að sýjast inn og strákarnir voru að segja mér að þetta sé svipað og að fara holu í höggi eða álíka.“ Oddur var eins og gefur að skilja ótrúlega glaður og kannski mætti líkja þessu við að fara holu í höggi á par fjórir golfbraut.
Síðasti hundraðkall sem veiddist í Hrútafjarðará kom á land 9. september 2020 og mældist sléttir hundrað sentímetrar. Þann fisk veiddi Gísli Vilhjálmsson á Sunray Shadow.
„Ég sagði einmitt við strákana eftir þetta að ég gæti bara hætt núna. Stysti og magnaðasti veiðiferill allra tíma. Maríulax og hundraðkall á klukkutíma. Maður hættir bara á toppnum,“ hló Oddur Rúnar. „Ég var bara svo ánægður með að hafa fengið þann fyrsta að ég var í skýjunum.
Hollið sem nú er að veiðum var komið með fimm laxa eftir dagsveiði en í heildina eru komnir um 25 laxar sagði Oddur og töluvert af fiski í ánni.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |