Veiði í Vopnafjarðaránum hefur farið vel af stað. Einkum má sjá að Hofsá hefur verið að gefa góða veiði og umtalsvert meiri en í fyrra. Sumarið 2021 var fremur slakt í Hofsá eftir gott sumar 2020, þegar áin fór í fyrsta skipti yfir þúsund laxa frá árinu 2013. Haldi áfram sem horfir ætti Hofsá að geta náð viðlíka tölu í sumar.
Jón Magnús Sigurðarson, bóndi á Einarsstöðum, formaður veiðifélagsins og yfirleiðsögumaður við Hofsá var að ljúka leiðsögn í gærkvöldi þegar við náðum tali af honum. „Síðasta holl var býsn gott og endaði með 76 laxa. Þarna voru mjög góðir veiðimenn á ferð sem þekkja ána mjög vel. En við tókum svo vel eftir því að smálaxinn var að mæta eftir síðasta stóra straum. Það var líka að koma stór lax í bland. Þetta sáum við ekki í fyrra. Þá var lítið sem ekkert komið af smálaxi á þessum tíma,“ sagði Jón Magnús í samtali við Sporðaköst.
Svona sögulega séð, er þetta snemmt fyrir smálaxinn hjá ykkur.
„Gamla mynstrið, þegar hún var í gamla farinu var hann oft að mæta um miðjan júlí. En þessi staða núna á þessum tíma er að minna ofurlítið á gamla daga. Svo er fiskurinn að dreifast vel og það eru kannski helst svæði þrjú og sjö sem eru slök en fiskur er að dreifa sér býsna vel.“
Í gærkvöldi voru komnir á land 190 laxar en voru 155 í fyrra að kvöldi 21. júlí. Hofsá er í miklu vatni þessa dagana og vel yfir meðallagi að sögn Jóns, og hefur verið það alveg frá því í hollinu eftir opnun. Hann segir að sama skapi að fiskurinn sé einkar vel haldinn, bæði hvað varðar smálaxinn og stórlaxinn. „Tveggja ára fiskurinn er alveg ótrúlega vel haldinn og hrygnurnar eru djúpar og þykkar. Við erum búnir að fá nokkra fiska yfir níutíu sentímetra og þeir eru virkilega flottir. Stóri hængurinn er að mæta með smálaxinum og það var eins og maður man þetta frá því áður fyrr.“
Eins og staðan er núna, telurðu að Hofsá eigi inni fyrir þúsund laxa sumri?
„Já, ekki spurning, ef þetta heldur svona áfram. Ef þetta er ekki bara eitthvert skot þá er hún klárlega að fara í þúsund. Viðmiðið var oft að til þess að hún næði þúsund löxum þá þurfti hún að vera komin í 350 laxa um mánaðamótin. Og ef við höldum áfram að fá smálax í næsta straumi þá er það ekki spurning.“
Er ekki næsti straumur sem er í lok mánaðarins ykkar aðal straumur upp á smálaxinn?
„Jú og fyrst að smálaxinn er að skila sér í þessum straumi sem var fimmtánda júlí þá vonandi er það bara fyrirboði um að við eigum eftir að fá meira af honum. Annars er það þannig í þessum ám að við erum að fá nýgenginn lax alveg fram í september. En já næsti straumur er svona okkar stærsti straumur hér í þessum landshluta,“ sagði Jón Magnús.
Staðan er svipuð í Selá, að sögn Helgu Kristínar Tryggvadóttur, sölustjóra hjá Six Rivers Project sem heldur utan um rekstur Vopnafjarðaránna. Þar er veiðin á svipuðu róli og í fyrra og hefur verið ágæt síðustu daga.
Miðfjarðará í Bakkafirði er komin yfir sjötíu laxa og er það mjög gott á þessum tíma og ekki síst í ljósi þess að þar er aðeins veitt á tvær stangir. Síðasta holl var með þrjátíu laxa.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |