Six Rivers Project, félag breska auðmannsins Jim Ratcliffe, hefur undirritað tíu ára leigusamning um veiðirétt í Hafralónsá. Samningurinn var undirritaður í gær á skrifstofu Langanesbyggðar. Veiðifélag Hafralónsár skipaði sérstaka samninganefnd þar sem áttu sæti fimm landeigendur og var það meðal annars gert til að koma fleirum að borðinu, en aðeins þrír skipa stjórn veiðifélagsins.
Helga Kristín Tryggvadóttir, sölustjóri Six Rivers Project leiddi ferlið fyrir hönd leigutaka og segir hún í samtali við Sporðaköst að ferlið hafi tekið nokkurn tíma en verið mjög opið og niðurstaða hafi verið mjög góð. Á félagsfundi þar sem greidd voru atkvæði um samninginn sögðu þrettán landeigendur já, einn sat hjá og einn greiddi atkvæði gegn samningnum.
„Ég er mjög þakklát landeigendum við Hafralónsá að sýna okkur þetta afdráttarlausa traust. Við erum öll spennt að fara í samstarf við veiðifélagið og landeigendur um uppbyggingu á ánni og hefja þar rannsóknir og stuðla að auknum framgangi Hafralónsár. Við teljum ána eiga mikið inni og við munum fara strax í hrognagröft og flutning á löxum í haust,“ sagði Helga Kristín í gær.
Nýtt sex hundruð fermetra veiðihús verður byggt við Hafralónsá í líkingu við húsin sem á reisa við Hofsá og Miðfjarðará í Bakkafirði. Hönnun og staðsetning liggur ekki fyrir en verður kynnt síðar.
Aðspurð hvort þetta muni leiða til hækkunar á verði á veiðileyfum sagði Helga Kristín að það myndi gerast. Leiguverð er nú hærra en verið hefur og mun verðið hækka en það verður gert í áföngum.
„Þetta er svo spennandi. Hafralónsá er einhver fallegasta laxveiðiá sem ég hef kynnst. Ég veiddi hana í fyrsta skipti í fyrra og hún heillaði mig gjörsamlega. Það verður mikið ævintýri að fara í þá uppbyggingu og rannsóknir sem kveðið er á um í samningnum.“
Nafn félagsins, Six Rivers Project vísar til ánna sex sem félagið ýmist á, að fullu eða að hluta eða er með á leigu. Þær eru; Selá og Hofsá í Vopnafirði. Sunnudalsá, Vesturdalsá og Miðfjarðará í Bakkafirði. Segja má að með leigusamning undirritaðan um Hafralónsá, standi félagið loks aftur undir nafni ef horft er í heiti félagsins. En Hafralónsá er þá sjötta áin sem félagið fóstrar. Áður fyrr var Tungulækur sjötta áin en átti svo sem ekki alveg samleið með áformum um rannsóknir og uppbyggingu á laxveiðiám.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |