Sá stærsti til þessa veiddist í Ásunum

Sturla Birgisson til vinstri og skælbrosandi veiðimaður, Lord Falmouth með …
Sturla Birgisson til vinstri og skælbrosandi veiðimaður, Lord Falmouth með þann stærsta sem komið hefur á land í sumar. Mjög var vandað til mælingarinnar. Stulli sá hann fyrst í ánni 11. júní. Ljósmynd/Ásar

Stærsti lax sem veiðst hefur á Íslandi í sumar veiddist í gærkvöldi í Laxá á Ásum. Sturla Birgisson staðarhaldari og umsjónarmaður fór með Falmouth lávarð upp í Langhyl. Þeir voru að veiða Skrána og undir var sett Evening dress kvart tommu flottúba og krókur númer fjórtán.

Lord Falmouth sem var með Stulla, eða Stu eins og Bretarnir kalla hann staldraði við. „Ég sagði við hann. Síðasta kast hjá mér var svo lélegt að ég vil skoða tauminn. Það passaði. það voru tveir vindhnútar á honum. Ég sagði við Stu við þyrftum nýjan taum. Það var líka eins gott,“ sagði lávarðurinn í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi.

Hér er Stulli einn með laxinn og það sést svo …
Hér er Stulli einn með laxinn og það sést svo greinilega á gripinu um stirtluna hversu stór og mikil hún er. Ljósmynd/Ásar

En þessi saga er lengri. Þann 11. júní sá Stulli lax undir brúnni á þjóðvegi eitt. Hann sá að þetta var lax í yfirstærð og án efa hundraðkall. Í opnun 17. júní sá hann þennan lax, að hann telur, fara upp Mánafoss. Stulli kallaði á eftir honum, „Sé þig seinna.“ Stulli hafði sagt Sporðaköstum frá þessu atviki. Svo fannst þessi fiskur ekki fyrr en í gærkvöldi og það í Langhyl.

Við erum komnir þar í sögunni að það er kominn nýr taumur undir hjá Falmouth. Kastið tekst með ágætum og Stulli lýsir tökunni svona. „Hann kom upp og ég sá hann. Hann náði henni ekki í fyrstu atrennu en sneri sér strax við og kom hálfur upp úr og negldi fluguna. Um leið og ég sá sporðinn sagði ég við Lordinn. „Þetta er hann.“ Ég hef aldrei séð svona ofsafengna töku í Langhyl og lætin voru rosaleg,“ sagði Stulli í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi.

Þetta var viðureign sem stóð í hálftíma. Sjálfur sagðist Falmouth hafa verið stressaður. „Ég vissi fljótlega að þetta var mjög stór fiskur. Og þegar frændi minn og vinur komu og ætluðu að fylgjast með viðureigninni öskraði Stu á þá að fara lengra í burtu. Þá fyrst fattaði ég að við voru að slást við einhvern risa. Ég losaði aðeins á bremsunni og notaði þumalputtann á hjólið. Ég var orðinn mjög stressaður. Stu var svo klár með háfinn og náði að háfa þó laxinn kæmist varla í háfinn.“

Langhylur í baksýn.105 sentímetra lax í forgrunni.Langhylur er stór og …
Langhylur í baksýn.105 sentímetra lax í forgrunni.Langhylur er stór og hægur og hentar vel til að takast á við svona stórlax. Ljósmynd/Ásar

Þeir félagar mældu fiskinn og hann stóð 105 sentímetra sem gerir hann að stærsta laxi veiddum á Íslandi það sem af er sumri. Stulli segist hafa vandað sig sérstaklega mikið við mælinguna eftir að hafa lesið frétt á Sporðaköstum í fyrradag um gagnrýni á hundraðkallalistann. „Ég var að fara að sleppa honum en ákvað að mæla hann aftur til öryggis. Þar staðfestist á óyggjandi hátt að hængurinn var 105 sentímetrar.“ Stulli gerði meira en það. Hann sendi mynd af mælingunni svo ekki fer á milli mála að fiskurinn stendur 105 sentímetra.

„Ég hef aldrei átt svona stórkostlega stund í laxveiði eins og ég upplifði seinnipartinn í dag. Ég hef aldrei veitt svona stórkostlegan fisk áður. Ekkert í líkingu við þennan fisk. Að upplifa þetta hér á norðurhluta Íslands var hreint úr sagt einstök lífsreynsla. Ég hef komið til Íslands í tvo áratugi að veiða lax og njóta þessarar mögnuðu náttúru og þetta er lang stærsti lax sem ég hef veitt. Ég hafði fengið stærst átján punda lax en allt bliknar í samanburði við þennan stórkostlega fisk,“ sagði lávarðurinn og átti erfitt með að finna nægilega stór og mörg lýsingarorð yfir gærdaginn.

Stulli segir að það hafi verið heppilegt að fiskurinn hélt til í Langhyl. Aðrir veiðistaðir hefðu gert viðureign við þennan stórfisk mun erfiðari og dregið úr líkum á að landa honum. En það var gott að þeir félagar Stulli og stórlaxinn sáust aftur. Veiðist þessi fiskur aftur síðar í sumar getur hann mælst enn lengri því neðri kjafturinn á hængnum stækkar og gengur fram og hleypur sú stækkun á nokkrum sentímetrum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert