Þær systur á Suðurlandi, Skógá og Vatnsá opna síðastar laxveiðiáa á Íslandi. Veiði hófst í þeim um helgina og hafa báðar boðið fyrstu laxana velkomna. Fyrsti laxinn í Vatnsá veiddist reyndar fyrir tímann eða þann 17. júlí og var það veiðimaður sem var að eltast við urriða.
Opnunarhollið fékk tvo laxa strax á fyrstu vakt og sáu um helgina góða grúbbu af laxi sem var mætt í veiðistaðinn Hornið, sem er ofarlega í ánni. Vatnsá er síðsumarsá og opnar 21. júlí. Ásgeir Arnar Ásmundsson sem selur í og hefur umsjón með Vatnsá segir þetta vita á gott að hann sé mættur í einhverju magni þetta snemma. Ásgeir er með Skógá á leigu og ætlar sér að rífa hana upp. „Fyrstu laxarnir í henni sáust um helgina og það er mjög góðs viti. Ég minnist þess að hafa veitt laxa í henni á árum áðum þann 21. júlí. Fyrstu laxarnir sáust í ármótum Kvernár og Skógár á föstudag. Þeir voru nánast glærir þeir voru svo nýir,“ sagði Ásgeir í samtali við Sporðaköst.
Vatnsá rennur úr Heiðarvatni í Kerlingadalsá sem rennur til sjávar skammt austan við Vík í Mýrdal. Veiði í Vatnsá hefur sveiflast mjög í gegnum árin og farið rétt yfir þúsund laxa þegar seiðasleppingar voru sem mestar. Meðalveiði síðustu tíu ára er í kringum 170 laxa.
Skógá sem býr til Skógarfoss hefur að sama skapi sveiflast mjög mikið og hafa komið ár þar sem hún var að gefa góða veiði. Það að sama skapi hefur alfarið byggt á seiðasleppingum eins og í Vatnsá. Áhugavert verður að fylgjast með Skógá í sumar í ljósi þess að Ásgeir er nú aftur tekinn við svæðinu eftir nokkurt hlé.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |