Forsprakkar gamanmyndanna Síðasta veiðiferðin og Allra síðasta veiðiferðin dvöldu við Langá síðustu þrjá daga og veiddu og sóttu innblástur fyrir næstu myndir. „Við vorum þarna með þrjár stangir og svo voru einhverjir útlendingar á hinum stöngunum. Þetta var mjög dannað og hreinlega eins og í klaustri miðað við það umhverfi sem við höfum teiknað upp í myndunum okkar. En það urðu til sögur sem munu nýtast," sagði Örn Marinó Arnarson, leikstjóri í samtali við Sporðaköst í dag eftir að veiði lauk.
Þorkell Harðarson, leikstjóri og Sigvaldi J. Kárason klippari voru að veiðum ásamt þeim Myndformmönnum. Skemmst er frá því að segja að þeir félagar veiddu vel þrátt fyrir klausturlifnað. „Hollið var með eitthvað í kringum fjörutíu fiska og okkar stangir voru með sextán af þeim. Þannig að þetta var gaman en líka erfitt. það er enginn nýr fiskur að koma og við vorum að lemja á fiskum sem hafa séð allar flugur í heiminum.“ Örn Marinó viðurkenndi að þeir félagar hefðu notað tímann í að ræða næstu mynd sem verður tekin upp sumarið 2023. En er komin staðsetning hvar hún verður tekin upp?
„Já. Það verður svolítið tvist í henni. Við tökum upp á tveimur stöðum. Bæði í Stóru – Laxá og í Svartá fyrir norðan.“
Og hvað á hún að heita?
„Lang síðasta veiðiferðin."
Eru þið ekki að verða uppiskroppa með lýsingarorð um síðustu veiðiferðina?
„Nei. Það er Næst síðasta veiðiferðin og Fyrsta veiðiferðin. Það er sko svona tímabils mynd þar sem þeir eru ungir og eru allir að veiða með flot og maðk nema náttúrulega ungi Valur sem er strax orðinn flugusnobbarinn í hópnum. Þetta er mynd sem gerist um aldamótin. Sennilega árið 2002. Þetta verður mynd um maðkalaxveiði,“ sagði Örn Marinó að lokum.
Heyrðu, sendu mér myndir af ykkur með veiðina. „Já. Sjálfsagt, en við megum skrifa myndatextana sjálfir,“ svaraði hann að bragði.
Já það er í lagi. Þannig að það er rétt fyrir lesendur að hafa það í huga að engir menn hafa gengið meira fram af veiðimönnum en þeir Örn Marinó, Keli og Silli eins og þeir eru kallaðir, þegar mynd og myndatexti er skoðuð.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |