Taldi 51 lús á litlum sjóbirtingi

Ívar Örn taldi 51 lús á birtingnum sem var smávaxinn. …
Ívar Örn taldi 51 lús á birtingnum sem var smávaxinn. Hann hefur aldrei séð neitt í líkingu við þetta. Hefur hann þó stundað veiðar á sjóbirtingi í sjó í rúma þrjá áratugi. Ljósmynd/Ívar Örn Hauksson

„Ég hef veitt sjóbirting á flugu í sjó hér í Arnarfirði og nágrenni í meira en þrjátíu ár og hef aldrei séð neitt í líkingu við þetta. Ég taldi 51 lús á honum. Ég hef alveg veitt birtinga með lús oft áður og þær geta alveg farið upp í að fimm, sex jafnvel sjö á þessum stærri fiski og þá í kringum veiðiugga eða aftur við stirtlu,“ sagði Ívar Örn Hauksson í samtali við Sporðaköst.

Hann veiddi lítinn sjóbirting í gær og eins og fyrr segir taldi hann 51 lús á honum. Hann telur að þær hafi verið fleiri því það vantaði víða hreisturflögur á fiskinn og ummerki sáust á honum eftir fleiri lýs.

Fiskurinn veiddist í Arnarfirði en þar eru einmitt sjókvíar þar …
Fiskurinn veiddist í Arnarfirði en þar eru einmitt sjókvíar þar sem alinn er lax. Ljósmynd/Ívar Örn Hauksson

Það er ekki langt í sjókvíaeldi í Arnarfirðinum þar sem Ívar Örn veiddi birtinginn. Ein helsta ógn sem Norðmenn hafa tilkynnt um í tengslum við sjókvíaeldi er mikið af lús og berst hún á villtan fisk og getur drepið hann. Ívar Örn kannast við þetta og hefur kynnt sér umhverfismat í tengslum við sjókvíaeldi. Þar segir hann að vitnað hafi verið til norskra heimilda þess efnis að ellefta lúsin sem fiskur fær sig ríði baggamuninn og þá séu allar líkur á að hann drepist ef fiskurinn er ungur.

Hann tók myndirnar sem fylgja fréttinni og sýna þær greinilega mikið magn af lús á fiskinum og þá ekki síst á höfði og tálknum. Eftir að hafa hreinsað lýsnar af sjóbirtingnum sleppti hann honum aftur.

Lýs voru líka á kviðnum á fiskinum og einnig vantaði …
Lýs voru líka á kviðnum á fiskinum og einnig vantaði hreisturflögur á kviðinn sem bendir til að lýsnar hafi verið enn fleiri. Ljósmynd/Ívar Örn Hauksson

Andstæðingar sjókvíaeldis á Íslandi hafa bent á hættuna af mikilli lúsahættu í kringum sjókvíaeldi. Því hefur alltaf verið hafnað en ljóst er að þessi birtingur hefur lent í aðstæðum sem eru mjög ólíkar því sem gerist og gengur. Ástæða er til að hvetja fólk og sérstaklega veiðimenn til að fylgjast með lús á laxfiskum og tilkynna ef þeir verða varir við tilvik líkt og þetta. Mikilvægt er að halda utan um slík atvik.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert