Hann Robert Taubman átti draumaaugnablikið í gær þegar 103 sentímetra hrygna tók svarta Sunrayinn hans í Grundarhorninu í Laxá í Aðaldal. Leiðsögumaður með honum var Árni Pétur Hilmarsson, Nesmaður og einn af rekstraraðilum Laxár.
Myndin af Robert með laxinn er gulls ígildi. Brosið er nánast endalaust og þessi langa og mikla hrygna var stífmæld af Árna Pétri. „Kallinn var bara ekki að ná að halda henni almennilega og böglaðist alltaf í höndunum á honum,“ hló Árni Pétur þegar við spurðum hann út í mælinguna.
Þetta er fjórði hundraðkallinn sem veiðist í Aðaldal í sumar og annar laxinn sem mælist 103 sentímetrar. Það er mun sjaldgæfara að hrygnur verði svo stórar og því setjum við hana skör ofar en hænginn sem veiddist í Fosspolli þann 19. júlí og var líka skráður 103 sentímetrar.
Reyndur veiðimaður hafði samband við Sporðaköst og taldi ótækt að hrygnur féllu í flokkinn hundraðkallar ef þær ná hundrað sentímetrum eða meira. Vildi hann að þær yrðu kallaðar fjallkonur. Þeirri hugmynd var hafnað.
Enn og aftur hvetjum við veiðifólk og þá ekki síst leiðsögumenn til að vanda til mælinga og myndtöku á þessum merkisfiskum sem ná hundrað sentímetrum. Sporðköstum hafa borist myndir af fiskum sem hafa verið mældir í þessari stærð, en vantað hefur vitni til að staðfesta mælingu. Þá eru fiskarnir ekki lengur skráðir á hundraðkallalistann.
Hafandi skrifað þetta hvetjum við fólk til að halda áfram að senda okkur myndir af þessum allra stærstu fiskum Íslands.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |