Hún Áslaug Anna Árnadóttir segist komin með veiðimaníuna eftir að hún landaði 90 sentímetra maríulaxi á Eskeyjarflúð í Laxá í Aðaldal. Hún er af því mikla veiðikyni sem byggt hefur Nes í Aðaldal, eins lengi og elstu menn muna.
Áslaug Anna er tólf ára, alveg að verða þrettán, og fór með pabba sínum fyrr í sumar og veiddi Eskeyjarflúð. „Ég er ný byrjuð að veiða en öll fjölskyldan alveg hreint elskar þetta. Ég fór með í þessa veiðiferð og hef bara verið að kasta með einhendu en pabbi vildi að ég prófaði tvíhendu. Ég er enn þá bara að læra og vissi ekki alveg hvað ég var að gera. En ég var búin að taka svona fimmtán köst með tvíhendunni þegar við sáum lax stökkva. Pabbi sagði, „Þú nærð þessum.“ Ekki málið sagði ég. Svo byrjuðum við að kasta á hann en hann var mjög nálægt landi. Svo beit hann á,“ sagði Áslaug Anna í samtali við Sporðaköst.
Og svo hófst viðureignin. Hún kallaði á pabba sem er Árni Pétur Hilmarsson sem hefur verið leiðsögumaður á Nessvæðinu og í Laxá frá unga aldri. „Pabbi, hann beit á. Ég gerði eins og pabbi hafði sagt mér. Ekki gera neitt ef einhver bítur á. Bara alveg kyrr.“
Árni Pétur hætti samstundis að veiða og kom til aðstoðar. „Pabbi byrjaði á að segja mér að lyfta upp línunni og ég vissi sko ekkert hvað ég var að gera. Ég var bara að rúlla inn þegar fiskurinn var ekki að synda í burtu. Pabbi vildi að ég lagaði bremsuna og ég bara spurði, hvað er það? Hvað á ég að gera? Pabbi hjálpaði mér svo að laga hana og fór svo að ná í háfinn. Á meðan var ég bara að dúlla mér að ná honum inn. Svo bara allt í einu tók fiskurinn á rosa sprett lengst út í á og á bak við eyjuna sem er þarna.“
Nú voru góð ráð dýr og segir Áslaug Anna að pabbi sinn hafi talið að fiskurinn var búinn að fara fyrir grjót. Það var líka staðan og Árni Pétur segir að þau verði að vaða út og losa línuna. „Pabbi tók stöngina og hann náði að losa línuna frá grjótinu en þetta var svo djúpt að ég þurfti bara að hanga á honum. Hann hélt að fiskurinn væri búinn að slíta línuna en hann var þá búinn að fara á bak við tvo steina. En pabbi náði að losa þetta allt og ég tók við stönginni og eftir smá tíma háfaði hann fiskinn,“ sagði Áslaug Anna sem þar með hafði veitt sinn maríulax og það var níutíu sentímetra hrygna. Frábær byrjun í þessari stórlaxaá.
„Og ég fann bara eftir þetta að ég var komin með veiðimaníuna,“ sagði Áslaug Anna ákveðin. Hún hefur ekki komist að veiða eftir þetta en vonast til að fá að kasta í lokahollinu í Laxá um miðja september.
En hvort ykkar var stressaðra yfir þessum laxi, þú eða pabbi þinn?
„Það var sko örugglega pabbi. Ég var í pínu fríkáti og vissi ekkert hvað ég var að gera. En þetta var svakalega flottur fiskur 90 sentímetra langur og 42 í ummál. Þetta var pínu mikil heppni held ég. Systir mín var aðeins öfundsjúk af því að maríulaxinn hennar var þrjú eða fjögur pund og hún var búin að veiða í mörg ár en ég fékk þann fyrsta eftir nokkur köst. En hún var líka voða ánægð fyrir mína hönd.“
Það er viðbúið að tíminn sem Árni Pétur fær við ána í fjölskyldutúrum minnki mikið, en hann er nú með þær veiðisystur með alvarlega veiðidellu og ljóst að pressan á honum verður mikil.
Sporðaköst óska Áslaugu Önnu hjartanlega til hamingju með maríulaxinn.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |