Veiðimenn hafa verið að setja í töluvert af stórlaxi síðustu daga í húnvetnsku ánum. Staðfestur hundraðkall veiddist í Miðfjarðará í gær og var þar að verki Theódór Friðjónsson og setti hann í hundrað sentímetra fisk í Grjóthyl sem er magnaður veiðistaður í sjálfri Miðfjarðaránni. Honum til aðstoðar var Helgi Guðbrandsson þaulreyndur leiðsögumaður í Miðfirði. Laxinn var þrímældur af Helga og stóð slétta hundrað sentímetra. Ummálið mældist 51 sentímetri. Að sögn Theódórs var þetta fremur snörp og stutt viðureign og var lokið á tólf mínútum. Þetta er fyrsti laxinn í sumar sem nær þessari stærð í Miðfirði.
Veiðin síðustu daga hefur verið upp á við í Miðfirði og hafa dagar þar gefið yfir þrjátíu laxa upp á síðkastið. Heilt yfir veiðin byrjað rólega í Miðfirði miðað við það sem veiðimenn eiga að venjast á þeim slóðum.
102 sentímetra hængur veiddist í Vatnsdalsá í vikunni og var það við Bjarnastein. Erlendur veiðimaður landaði fiskinum en var einn á ferð. Nokkrir fiskar í þessum stærðarflokki hafa sést í Vatnsdalnum í sumar og viðbúið að þeir verði tökuglaðari þegar myrkrið fer aftur að mæta og daginn að stytta.
Blanda hefur gefið flotta stórlaxa veiði síðustu daga. 101 sentímetra fiskur veiddist á Breiðunni að norðanverðu á Collie Dog og í fyrradag kom svo 99 sentímetra fiskur af Breiðunni að sunnanverðu og tók sá fiskur fluguna Valbein.
Margir af þessum stórlöxum eru greinilega búnir að vera um nokkra stund í ánum og líklegt að vatnavextir síðustu daga og haustleg norðanáttin hafi hreyft við þeim. Oft eru þessir fiskar nánast límdir við botninn yfir hásumarið og detta ekki inn í veiðina fyrr en sumarið er við það að segja sitt síðasta. Sá tími er undir lok ágúst og er alltaf spennandi þegar sá tími rennur upp.
Gaman að bæta því að í morgun snerust hlutverkin við hjá þeim Theódór og Maríu. Hann myndaði og hún var fyrirsæta. María setti í og landaði glæsilegri 87 sentímetra hrygnu og Theódór tók þessa mynd sem hér fylgir. Skilaboðin með henni voru: „Miðfjarðará að gera vel við okkur.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |