Margir gældu við þá von að veiðisumarið 2022 yrði gott smálaxaár. Nú er að koma í ljós að þær væntingar ganga ekki eftir. Það er víða meira af smálaxi en í fyrra en langt frá því sem vonast var eftir. Þá vekur líka athygli að í öllum ám hafa verið að veiðast afar smáir smálaxar. Þó þeir séu kallaðir smálaxar, eftir að hafa verið eitt ár í sjó, þá finnst mörgum að þeir standi of vel undir nafni þetta árið. Mikið hefur veiðst af löxum sem eru á bilinu 50 til 58 sentímetrar og telst það mjög smár smálax. Enn minni laxar hafa verið veiðast en menn jafnvel veigra sér við að skrá fisk undir 50 sentímetrum.
Nýjar veiðitölur voru birtar inni á angling.is nú í hádeginu. Ytri – Rangá og Vesturbakki Hólsár eru í efsta sæti og hafa gefið mun betri veiði en í fyrra. Heildarsvæðið er komið með 1.707 laxa á móti 1.059 í fyrra. Ytri gaf bestu vikuveiðina í liðinni viku, eða 525 laxa á móti 344 í sömu viku í fyrra.
Jákvæðu fréttirnar eru NA–hornið. Þar má sjá mikla aukningu í veiði frá því sem var í fyrra, en hafa verður í huga að það ár var alls ekki gott í þeim landshluta, þegar kemur að laxveiði. Einstaka ár eru að gera það betra en í fyrra og eru þeim gerð skil fyrir neðan topplistann. En með hverri viku sem líður staðfestist betur og betur að þetta sumar er fjórða slaka veiðisumarið í röð og er það verulegt áhyggjuefni.
Verð á veiðileyfum tekur ekki mið af þessu og virðist sem markaðurinn sætti sig við hækkandi verð á sama tíma og veiðin er verulega undir meðaltali. Þess lengra tímabil sem tekið er í meðaltalinu þessi dekkri verður myndin.
Hér má sjá topplistann eftir síðustu viku. Fyrsta talan er heildarveiði miðað við lok veiðidags í gærkvöldi. Síðan kemur tala innan sviga og er það veiðin á sama tíma í fyrra. Næst kemur tala yfir vikuveiðina og loks innan sviga vikuveiðin í vikunni þar á undan. Við bætum nú við tölu fyrir sömu viku í fyrra.
1. Ytri – Rangá og Vesturb. Hólsár 1.707 (1.059) Vikuveiði 525 (413). 2021 – 344
2. Eystri – Rangá 1.322 (1.292) Vikuveiði 467 (405). 2021 – 428
3. Þverá/Kjarrá 992 (883) Vikuveiði 127 (134). 2021 – 147
4. Norðurá 930 (1.030) Vikuveiði 129 (90). 2021 – 119
5. Urriðafoss 798 (790) Vikuveiði 36 (61). 2021 – 3
6. Miðfjarðará 675 (819) Vikuveiði 223 (119). 2021 – 185
7. Langá 607 (494) Vikuveiði 82 (98). 2021 – 85
8. Haffjarðará 573 (588) Vikuveiði 76 (93). 2021 – 105
9. Laxá í Kjós 530 (475) Vikuveiði 134 (61). 2021 – 63
10. Elliðaár 527 (376) Vikuveiði 70 (91). 2021 – 58
11. Selá 500 (395) Vikuveiði 103 (171). 2021 – 65
12. Hofsá 498 (283) Vikuveiði 134 (144). 2021 – 62
13. Laxá í Leirársveit 497 (470) Vikuveiði 100 (54). 2021 – 62
14. Grímsá 456 (317) Vikuveiði 53 (94). 2021 – 33
15. Laxá á Ásum 449 (361) Vikuveiði 74 (99) 2021 – 46
16. Jökla 440 (290) Vikuveiði 80 (125). 2021 – 74
17. Stóra – Laxá 407 (242) Vikuveiði 67 (58). 2021 – 34
18. Flókadalsá 339 (144) Vikuveiði 34 (45). 2021 – 10 *Lokatölur í fyrra 281
19. Hítará 404 (308) Vikuveiði 89 (81). 2021 – 58
Nokkrar ár vekja athygli. Þar má fyrst nefna Laxá í Dölum sem er nú komin í 272 laxa en var á sama tíma í fyrra í 121. Það er mikil bæting frá í fyrra, en vatnsmagn í Laxá hefur verið með besta móti og fiskur því átt greiðari leið til að ganga en oft áður.
Hafralónsá er í takt við aðrar ár á NA–landi. Veiðin í sumar er komin í 196 laxa á móti 109 á sama tíma í fyrra. Svalbarðsáin er nú í 166 löxum en var með 136 á sama tíma í fyrra.
Gljúfurá í Borgarfirði er á betra róli en í fyrra. Þar hafa nú veiðst 167 laxar á móti 96 í fyrra.
Vatnsdalsá hefur átt erfitt sumar. Þar eru komnir á land 173 laxar á móti 194 í fyrra sem var lélegt ár.
Sömu sögu er að segja af Laxá í Aðaldal. Hún er núna komin með 233 laxa sem er svipað og í fyrra, en síðustu tvö ára hafa verið þau lélegustu frá upphafi skráninga þar sem hún hefur aðeins skilað um og undir fjögur hundruð löxum.
Tölur eru fengnar af vef Landssambands veiðifélaga, en útreikningar eru Sporðakasta. Upplýsingar um fleiri ár má sjá inni á angling.is.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |