Fyrstu laxarnir í Mýrarkvísl veiddust í júní. Það þykir snemmt á þeim bæ og yfirleitt gefur það fyrirheit um gott veiðisumar. Þau fyrirheit eru núna að verða að veruleika og Mýrarkvísl er búin að gefa um áttatíu laxa. Besti tíminn hennar er ekki runninn upp þannig að útlitið er afar gott.
Matthías Þór Hákonarson er með kvíslina á leigu og er einnig mikið í leiðsögn með veiðimönnum sem koma í ána. Þegar við náðum tali af Matta, eins og hann er kallaður var hann býsna kátur með stöðu mála. Veiðina, veðrið og bara allt.
„Við erum bara hér í mjög góðum gír. Það er mjög góð veiði og fiskur er enn að ganga. Þeir lentu í hörkugöngu niður á neðsta svæði í fyrradag og það eru öll svæði inni. Við fengum grútlegna stórlaxa efst í ánni og glænýja smálaxa neðst í henni. Þetta er bara æðislegt,“ hló Matti þegar Sporðaköst náðu sambandi við hann þar sem hann var í leiðsögn ofarlega í ánni. Í hylnum sem heitir því heillandi nafni Langalygna. Inn á milli þess sem hann svarar spurningum í símann er hann að koma með tillögur fyrir Pamelu veiðikonu sem hann er með í leiðsögn. „Pam kastaðu aðeins lengra. Alveg neðst og strippaðu smáfluguna eins og Sunray." Blaðamaður blandar sér í leiðsögnina. Láttu hana taka dauðarek inn á milli. Það er snögglega kveðið í kútinn. Þessi veiðistaður stendur alveg undir nafni. Látum Matta bara um leiðsögnina.
„Við erum að detta í áttatíu laxa og þetta er með besta móti hér. Það voru flóð og slíkt þannig að við þurftum að þyngja flugurnar en núna er þetta alveg geggjað. Ég held við séum við að detta inn í eitthvað mjög gott.“
Það sem af er sumri eru veiðin á stöng nánast jöfn því sem gerist í stóru móðuránni, Laxá í Aðaldal. Hver stöng í Aðaldal hefur gefið 20 laxa það sem af er sumri. Þar er veitt á tólf stangir og hafa þær samtals landaði 235 löxum eða 20 á stöng. Staðan er sú sama í kvíslinni. Þar eru fjórar stangir sem hafa skilað áttatíu löxum eða tuttugu á stöng. Það er því mjög líklegt að Mýrarkvísl verði með töluvert betri tölfræði en Laxá í lok sumars. Þær falla saman til sjávar en Mýrarkvísl sameinast Laxá fjórum kílómetrum ofan við ós Laxár.
Hann segir að eftir að hlutirnir fóru að ganga betur hin síðari ár þá er fólk bara í áskrift að sínum dögum. Fólk pantar bara sömu dagsetningar að ári um leið og það fer.
En hvað gerði gamanmyndin Síðasta veiðiferðin fyrir ykkur í markaðssetningu, þegar þú horfir til baka?
„Það er erfitt að mæla það en hefur pottþétt hjálpað nafninu og hjálpað til við að koma okkur á kortið,“ sagði Matti.
Þeir leikstjórar, Örn Marinó Arnarson og Þorkell S. Harðarson eru miklir áhugamenn um veiði og féllu algerlega fyrir Mýrarkvísl og hafa verið fastagestir sem veiðimenn í Mýrarkvísl frá þeim tíma. Ef að líkum lætur verða þeir á sinum stað í kvíslinni í sumar Hins vegar hefur þeim ekki gengið vel að veiða í henni, en það er önnur saga.
„Anda. Anda og vera róleg. Anda,“ hlær Matti og er nú að hjálpa Pamelu að takast á við fluguna sem gjarnan fylgir logninu. „Pamela. Setjum undir Black Ghost á gulli. Hann gæti komið í það.“
Aftur í viðtalið. „Ég finn það alveg að hún er að fara að setja í lax. Það er bara eitthvað,“ hlær Matti. Í Löngulygnu fékkst 90 sentímetra hrygna í fyrradag. „Svo fengum við líka grútleginn 90 sentímetra hæng. Geturðu ímyndað þér hvernig afkvæmi kæmu út úr því?“ Matti er spilandi kátur. Næsti veiðistaður hjá þeim er Krókhylur.
Sendu mér mynd Matti þegar laxinn kemur hjá henni. Hann lofar því.
Stemmningin í veiðihúsinu var mjög skemmtileg í gærkvöldi. Konurnar áttu montréttinn enda áttu þær stórlaxana en karlarnir voru ábyrgir fyrir smálöxunum. Rebecca og Pamela fengu báðar, eins og fyrr segir 90 sentímetra fiska. Hæng og hrygnu.
Örfáum mínútum eftir að samtalinu við Matta lauk kom barst mynd af Pamelu að togast á við lax í Krókhyl. Hann tók Laxá blá númer fjórtán og var fallegur smálax eins og myndin ber með sér. Mældur 62 sentímetrar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |