„Var ekki að fara að synda eftir laxinum“

„Ég var alveg bugaður og þó ég sé ekkert mjög gamall þá er ég orðinn of gamall fyrir svona svaðilfarir. Mig langaði bara svo mikið í hann,“ sagði Matthías Þór Hákonarson leigutaki Mýrarkvíslar eftir ótrúlega viðureign við stórlax í gljúfrunum í Kvíslinni.

Matti og konan hans, Ragna Sif Pétursdóttir, voru saman að veiða Mýrarkvíslina og hún hafði fengið lax um morguninn á svæði eitt og Matti var sjálfur nýlega búinn að landa lúsugum smálaxi og þegar klukkan var að nálgast níu um kvöldið vildi hann aðeins kíkja á einn stóran hæng sem hann hafði séð. „Ég nefndi það við konuna hvort ég ætti ekki að fara og taka eitt eða tvö köst á hann.“ hlær Matti þegar Sporðaköst höfðu samband við hann og báðu um frásögn af þrekrauninni í gljúfrunum.

Rétt er að nefna hér í frásögninni að myndband fylgir þessari frétt sem Ragna Sif tók og Matti klippti saman og sendi Sporðaköstum. Tónlistarvalið er líka hans. Á einum stað í myndbandinu sést Ragna Sif snúa vélinni og súmma inn á Stokkhylinn til að sýna fjarlægðina.

Hængurinn sem Matti vildi eiga stefnumót við var í Stokkhyl. Það er aðeins klöngur að þeim veiðistað og hann lét sig hafa það. Í fyrsta kasti kom hængurinn á eftir heimasmíðuðum þyngdum Kolskegg. „Ég bauð honum hana í annað sinn og þá bara negldi hann fluguna. Svo upphófst bara hefðbundin barátta og var búin að taka einhverjar tuttugu mínútur og ég var farinn að geta lyft honum aðeins og hann nálgaðist háfinn. Þegar Ragna Sif ætlaði að háfa hann þá rauk hann yfir í hinn bakkann og lét sig vaða niður úr hylnum. Ég opnaði bara bremsuna og hljóp á eftir honum. Hann beið alltaf eftir mér reglulega því línan fór hraðar og fór að toga í hann niður. Svo alltaf þegar ég komst í færi við hann lét sig vaða niður. Þegar við komum niður að Voðhyl sem er einhverjum mörg hundruð metrum neðar held ég þá var það bara stóra stoppið. Maður syndir bara í gegnum hann.“

Matti var ekki tilbúinn til að synda þó að hann væri orðinn gegnblautur eftir að hafa stigið í holu og dottið. Það var því bara ein leið og hún var upp. „Þetta var hrikalega erfitt og ég vissi svo sem ekki alveg hvort ég kæmist niður stigann í Voðhyl og þetta var allt í voða en mig langaði að ná honum. Ég náði á endanum að klöngrast þetta alveg bugaður á köflum. Svo ætlaði hann að láta sig vaða niður úr Voðhylnum og hann var kominn á pallinn þar fyrir neðan en þá sagði ég stopp og setti bremsuna fasta og vann hann sentímetra fyrir sentímetra upp aftur. Þar náði ég loksins að stranda honum eins og sést í myndbandinu.“

Hversu þreyttur varstu orðinn?

Hann hlær. „Ég var svo bugaður. Ég mældi hann ekki en reynslan segir mér 85 til 90. Þetta var ekki stærsta gerðin en mjög flottur og öflugur hængur. Ég stakk upp á því við frúna að hún kæmi með málbandið. Það hlaut ekki góðar undirtektir. Mig langaði alveg að landa honum en ekki svo mikið að ég vildi leggjast til sunds í Voðhyl. Þetta var bara lax sko. Ég sagði við strákana félaga mína, mér líður eins og Danny Glover í myndinni Lethal weapon. „I am to old for this shit,“"

Hversu lengi voru þið að jafna ykkur?

„Ég var nokkuð lengi með hann þar til hann synti loks í burtu og gerði það rólega. Hann skvetti ekkert á mig þegar hann fór. Ég var sennilega þreyttari og er enn með strengi eftir þetta. Þetta var náttúrulega ákveðin lífsreynsla og að vissu leiti það sem maður er að sækjast eftir. Samt ekki á hverjum degi. Við komum í Stokkhyl klukkan níu og ég var mættur í bílinn aftur 9:50 þannig að þetta hefur verið einhver viðureign upp á fjörutíu mínútur,“ sagði Matti að lokum.

Hann benti einnig á að betra væri að horfa á myndbandið á stórum skjá. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka