Önnur risahrygnan á nokkrum dögum

Ásrún Ósk alsæl með hrygnuna stóru. Hún kallaði hana hefðarfrú …
Ásrún Ósk alsæl með hrygnuna stóru. Hún kallaði hana hefðarfrú og var þakklát fyrir að kynnast henni. Þetta er stærsti laxinn úr kvíslinni í sumar. Ljósmynd/Ástþór Reynir Guðmundsson

Húseyjarkvísl gaf hundraðkall í fyrradag. Þar var að verki Ásrún Ósk Bragadóttir. Hún og maðurinn hennar voru stödd í Klapparhyl á sunnudag. „Maðurinn minn var búinn að fara eitt rennsli yfir hylinn og ég fór svo á eftir honum. Þetta var mjög fullorðinsleg taka. Bara eitt högg og svo bara lagðist hún og ég haggaði henni ekki lengi vel,“ sagði Ásrún Ósk í samtali við Sporðaköst um þessa stóru hrygnu sem hún landaði með aðstoð eiginmannsins.

Hún segir að viðureignin hafi tekið um klukkutíma. Aldrei hafi verið nein sérstök hætta á ferðum. Laxinn tók nokkrar rokur en hélt sig í hylnum. „Ég var viss um að þetta væri stór lax um leið og hann tók. Ég fór yfir það í huganum að taumurinn var nýr og vonaði að hnúturinn myndi halda. Það var aðal stressið en annars var þetta bara mikið reiptog. Jú, jú, ég tók alveg andköf þegar línan lá lengst niður eftir og miklu ofar kemur sporðurinn upp úr. Það var alveg óþægilegt. Ég hugsaði með mér að annað hvort færi ég rosa glöð að sofa eða alveg brjálið. Ég er enn með skítaglottið á andlitinu eftir þetta og veit hreinlega ekki hvenær það hverfur.“

Þetta er glæsilegur fiskur og tók viðureignin klukkustund. Hrygnan mældist …
Þetta er glæsilegur fiskur og tók viðureignin klukkustund. Hrygnan mældist 100,5 sentímetrar mæld í miðjan sporð eins og lög gera ráð fyrir. Ljósmynd/Ástþór Reynir Guðmundsson

Ásrún Ósk veiðir mest á flugur sem hún hnýtir sjálf en segist hreinlega ekki viss hvernig þessi fluga kom til þeirra. Hún er ekki viss um hvað flugan heitir en taldi hana líkasta Collie dog þó að vissulega sé smá hvítt í henni líka og smá Sunray keimur af henni.

Ástþór Reynir Guðmundsson, maður Ásrúnar hafði rölt niður með ánni á meðan að hún var að þreyta stórlaxinn. Loksins þegar hann kom til baka bað hún hann um að sækja háfinn. „Hann gerði það nú ekki fyrr en eftir svolitla stund. Þegar hann kom með háfinn sem er alveg virkilega stór og fínn, vorum við sammála um að nota ekki háfinn. Hann var einfaldlega ekki nógu stór. Þetta endaði með því að hann sporðtók hann.

Við mældum hana og hún var nákvæmlega 100,5 sentímetrar. Svo þegar ég bókaði hana í rafrænu bókina þá var lengdin rúnnuð upp og hún skráðist 101. Ummálið var 44 sentímetrar.“

Sólin varpaði haustgulum lit á sporðinn á þessari hefðarfrú í …
Sólin varpaði haustgulum lit á sporðinn á þessari hefðarfrú í kvíslinni. Ljósmynd/Ástþór Reynir Guðmundsson

Þetta er langstærsti fiskurinn sem Ásrún hefur veitt. Áður var hennar stærsti 93 sentímetrar. „Þá var ég ein. Það var æðislegt.“ 

Ástþór maðurinn hennar á stærst 98 sentímetra lax, sem hann veiddi í Gullhyl, einmitt í Húseyjarkvísl. „Við höfum alltaf rætt það hjónin að hlutfallslega hef ég fengið stærsta laxinn, af því að ég er minni en hann. Nú þarf ekkert að ræða um nein hlutföll. Ég hef veitt þann stærsta,“ hlær Ásrún Ósk.

Hún segir að Klapparhylurinn hafi verið mjög líflegur og þar hafi fleiri stóri laxar verið að stökkva, hvort sem þeir náðu þessari lengd eða ekki.

Þetta er flugan sem hrygnan tók. Bókuð á Collie en …
Þetta er flugan sem hrygnan tók. Bókuð á Collie en Ásrún segist ekki hafa verið viss. Hún hnýtir sjálf sínar flugur, en vissi ekki hvernig hún eignaðist þessa. Smá Sunray keimur af henni. Ljósmynd/Ásrún Ósk

Húseyjarkvíslin er komin yfir 120 laxa og sjóbirtingurinn er mættur og að gefa sig. Athygli vekur þegar veiðibókin er skoðuð að þar er bókaður einn hnúðlax og veiddist hann í Fosshyl 27. júlí. 

Þetta er önnur hrygnan á nokkrum dögum sem veiðist á Norðurlandi. Í gær sögðum við frá hrygnu sem veiddist í Deildará á Sléttu sem mældist 100,7 sentímetrar. Fágætara er að fá hrygnur sem ná hundrað sentímetra mælingu en mun oftar eru það hængarnir sem verða svo stórir.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert