Sjóbirtingsveiðin að komast á flug

Þessi mældist 88 sentímetra langur og 46 í ummál. Þorgeir …
Þessi mældist 88 sentímetra langur og 46 í ummál. Þorgeir Þorgeirsson sem veiddi hann í Eyjarofi segist ekki hafa áður landað svona stórum fiski í Eldvatninu. Hann hefur fengið lengri en þessi er svo magnaður. Ljósmynd/ÞÞ

Sjóbirtingsárnar fyrir austan eru komnar í sparifötin. Nú líður að besta tíma á svæðinu og þegar hafa komið góðir dagar þar sem fara saman margir fiskar með stöku stórfiski. Rólegt er inn á milli og oftar en ekki er það veður sem ræður gangi dagsins.

Veiðimenn sem voru í Eldvatni nýverið gerðu ágæta veiði. Afar dagaskipta en allt upp fimmtán fiska daga. Þannig gáfu dagarnir 15. til 17. ágúst fjörutíu fiska. Þorgeir Þorgeirsson er einn þeirra sem nýlega lauk veiðum í Eldvatni og þekkir hann svæðið eins og lófann á sér. „Mér sýnist þessi byrjun vera á pari við síðustu ár. Eldvatnið breytir sér oft milli ára og staðir detta út og aðrir koma inn og þannig er þetta akkúrat núna. Við sáum til að mynda mjög mikið af fiski í Hundavaði á meðan að aðrir staðir eins og Hvannakelda eru jafn sterkir og oft áður á þessum tíma,“ sagði Þorgeir í samtali við Sporðaköst. Hann sagði fisk komin mjög víða um ána og þeir félagar sáu fisk svo ofarlega sem Unubót.

Andstreymisveiðin var að gefa vel hjá þeim félögum og mun betur en hefðbundna veiðin þar sem straumflugum er kastað 45 gráður niður fyrir sig.

Byrjunin lofar góðu í Eldvatninu. Góðir dagar í bland við …
Byrjunin lofar góðu í Eldvatninu. Góðir dagar í bland við rólega daga og allt þar á milli. Það styttist í besta tímann. Ljósmynd/ÞÞ

En er það ekki kannski vegna þess að allir eru farnir að veiða þannig?

„Jú. Það er orðið mun algengara að menn séu að veiða með púpum og með dropper. Það hefur gefið góða veiði. En svo þarf maður að breyta til. Ég var um miðjan ágúst og þá veiddi ég vel á Pheasant Tail og með Squirmy sem neðri flugu. Svo var hann orðinn svolítið leiður á Squirmy þegar við vorum í núna í vikunni. Þá skipti ég út Squirmy og var að kasta Rollunni sem neðri flugu og þá kviknaði á honum aftur.

Hann setti í eina af þessum sleggjum sem svo margir eru að leita að. Það var 88 sentímetra birtingur og hnausþykkur og eftir því sterkur. Sá stóri tók í veiðistaðnum Eyjarofi og var viðureignin löng og endaði næstum því með ósköpum. „Ég hef fengið lengri fiska í Eldvatninu en ekki svona mikinn fisk. Ummálið var 46 sentímetrar og þetta var þvílík skepna. Svakalegur fiskur. hann tók efst í strengnum og straujaði lengst niður úr. Þar vafði hann línunni um grjót og ég óð út og losaði. Þá var hann kominn lengst niður á undirlínu og var þá búinn að festa sig við tvö önnur grjót. Ég náði svo á endanum aftur beinu sambandi við hann. Við komumst svo á endanum báðir í land og ég var búinn að losa fluguna úr honum og ætlaði að lyftahnum en missti takið og hann dólar af stað. Ég þurfti að skutla mér hann og í þriðja skipti náði ég að skófla honum á land og var þá orðinn gegnblautur.“

Krafturinn í nýjum sjóbirtingi er svo magnaður. Þorgeir landaði 70 …
Krafturinn í nýjum sjóbirtingi er svo magnaður. Þorgeir landaði 70 sentímetra urriða og fékk svo skömmu síðar nýgenginn sextíu sentímetra birting. Sá síðar nefndi var margfalt sterkari. Ljósmynd/ÞÞ

Fyrstu dagarnir í Tungulæk fara rólega af stað en þar veiddist í gær 85 sentímetra birtingur á Breiðunni. Tungufljótið hefur verið að gefa góða daga inn á milli og við fréttum af holli nýlega sem var með fimmtán sjóbirtinga og sex laxa og eitthvað af bleikju. Þessi vatnasvæði eiga bara eftir að eflast þegar líður fram yfir mánaðamót og besti tíminn í birtingnum rennur upp.

Stórauknar sleppingar í öllum ám fyrir austan hafa gert það að verkum að stórfiskum hefur fjölgað undanfarin ár og þess verður ekki langt að bíða að níutíu plús fiskarnir fari að veiðast. Raunar hefur Tungufljót þegar gefið eitt slíkt tröll og mældist sá fiskur 97 sentímetrar og veiddist í Syðri – Hólma snemma í ágúst.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert