Hvorki fallegt né rómantískt en virkar

Fannar með hundraðkallinn sem hann veiddi í Bessastaðastokk í Sæmundará. …
Fannar með hundraðkallinn sem hann veiddi í Bessastaðastokk í Sæmundará. Þar er búið að setja í nokkra í þessum stærðarflokki en þeir hafa slitið. Ljósmynd/GAG

Sæmundará í Skagafirði er mögnuð perla þegar kemur að laxveiði. Hún er ekki mikil um sig en fóstrar stórlaxastofn. Einn slíkur veiddist í vikunni og fleiri misstust. Sá sem landaði fyrsta hundraðkallinum í Sæmundará er Fannar Vernharðsson og hafði fyrr í sumar fengið þar 95 sentímetra lax.

„Við vorum í veiðistað sem heitir Bessastaðastokkur. Við höfðum veitt hann áður og fengið þar einn lax. Sáum ekki fleiri þar en skyndilega kom sólarglæta þannig að við sáum vel ofan í hylinn og þá sáum við þá liggja mjög djúpt. Þarna voru tveir alvöru drekar. Við settum kón undir og köstuðum langt upp fyrir þá og leyfðum þessu leka. Það var ekki eitthvað fallegt eða rómatískt við þetta. En þetta svín virkar,“ sagði Fannar í samtali við Sporðaköst.

Hann og félagi hans Garðar Aron Guðbrandsson voru búnir að missa tvo af þessukaliberi í hylnum. Eftir mikil hlaup og reiptog slitu þeir. „Þessir tveir voru ofar í hylnum og við höfðum ekki séð þá. Þannig að það voru fjórir tuttugu pundarar í þessum hyl.“

Fyrr í sumar fékk Fannar þennan 95 sentímetra fisk í …
Fyrr í sumar fékk Fannar þennan 95 sentímetra fisk í Sæmundará. Hann segir ótrúlega mikið af stórlaxi í ánni. Ljósmynd/FV

Fannar telur að viðureignin hafi tekið hátt í fjörutíu mínútur. „Hann var mjög lengi í veiðistaðnum og ég tók þétt á honum. Svo allt í einu tók hann ákvörðun um að rjúka niður úr honum. Við eltum hann einhverja þrjú hundruð metra og náðum að háfa hann í flúðum og það var nú bara smá heppni að við náðum því. Það var mikið af grjóti þar og hann var mjög reiður þessi stóri hængur.“

Illa hnýtta flugan hans Fannars. Laxinn var reyndar ekki sammála …
Illa hnýtta flugan hans Fannars. Laxinn var reyndar ekki sammála honum og tók hana. Ljósmynd/FV

Þeir mældu fiskinn vel og vandlega, frá snoppu aftur í miðjan sporð. „Við tókum góðan tíma í það og héldum honum í vatni allan tímann. Garðar mældi hann fyrst 102 sentímetra en ég var ekki að trúa því og löguðum málbandið og þá sáum við að hann var yfir hundrað sentímetra og bókuðum hann því réttilega 101.“

Fannar var að veiða Sæmundarána fyrr í ágúst og átti þá líka skemmtilega veiði. Hann landaði 95 sentímetra hæng á flugu sem hann hnýtti sjálfur. „Hann var ekki síður dýrmætur því ég var þá að prófa flugu sem ég hafði sjálfur hnýtt. Ég kann ekkert að hnýta en hann tók hana. Ég er farinn að halda að illa hnýttar flugur séu bara málið.“

Svo er hér önnur af hundraðkallinum rétt áður en hann …
Svo er hér önnur af hundraðkallinum rétt áður en hann fékk frelsi á nýjan leik. Ljósmynd/GAG

Já. Var þetta svona „dauður Frances?“

„Já. Nákvæmlega,“ hló hann og við erum að báðir að hugsa um kvikmyndina Síðasta veiðiferðin.

Morguninn eftir þetta ævintýri Fannars og Garðars fóru aðrir í hollinu í Bessastaðastokkinn og beittu sömu aðferð og settu í risavaxinn lax sem þaut niður ána á miklum hraða og eftir um kílómeters hlaup þá tók hann enn eina roku og svo snarpa að línan á veiðihjólinu snarvöndlaðist og fiskurinn sleit fimmtán punda taum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert