Skógá undir Eyjafjöllum hefur gefið góða veiði síðustu viku og það þrátt fyrir litla ástundun. Áin hefur vart borið sitt barr eftir eldgosið í Eyjafjallajökli í apríl árið 2010. Gríðarlegt magn af ösku fór illa með Skógá og lagðist veiði nánast af eftir gosið. Tilraunir hafa verið gerðar með sleppingar á seiðum í ána en veiðin ekki náð sér á flug.
Skóga gaf mest veiði upp á tæplega 1.600 laxa sumarið 2008 og oft hefur verið þar góð bleikjuveiði og dæmi um allt að 2.700 silungaveiði yfir sumarið.
Ásgeir A. Ásmundsson var með ána á leigu þegar best lét fyrir gos. Nú hefur hann tekið við ánni á nýjan leik og sleppti í fyrra sambærilegum skammti af seiðum á við það sem var fyrir gos. Nú eru þessir fiskar að koma úr hafi og hefur veiðin verið að glæðast þar undanfarna daga og áin komin yfir sextíu laxa þrátt fyrir að hafa verið lítið stunduð.
Stóri göngustraumurinn fyrir Skóga er næsta stórstreymi sem er á mánudag. Afar spennandi verður að sjá hvað gerist þá en fiskar hafa verið að ganga síðustu daga á hverju flóði.
Sporðaköst litu við í Skógá þar sem erlent kvikmyndatökuteymi var við ána að mynda hana og var þar í stóru hlutverki einn af þekktari veiðimönnum landsins. Þar kastaði Sigurður Héðinn fyrir laxa í Ármótum, þar sem hliðaráin Kverna mætir Skógá. Þetta er einn af bestu veiðistöðum árinnar og Haugurinn var ekki lengi að setja í hann. Í nánast fyrsta kasti tók nýrunninn smálax. Honum var landað og Haugurinn kastaði aftur. Annar glænýr smálax tók fluguna. „Skuggi, að sjálfsögðu,“ svaraði hann þegar spurt var fluguna. En hann er einmitt höfundur Skugga og virtist sáttur með frammistöðuna. Sá þriðji kom á land stuttu síðar og sá fjórði lak af í löndun. Eftir tveggja tíma veiði varð Haugurinn að rjúka til Reykjavíkur.
Við stönginni tók ítalskur veiðimaður og kastaði Haugnum í túpuformi neðst á staðinn. Enn einn nýrunni smálaxinn tók túpuna. Höfundurinn var farinn en hefði án efa líkað þessi niðurstaða.
„Well now you cast,“ sagði sá ítalski við útsendara Sporðakasta. Á það var fallist. Fiskur ólgaði undir Collie Dog flugu. Í næsta kasti reif hann í fluguna en kvaddi. Það var svo nokkru neðar sem enn einn nýrenningurinn tók fluguna af yfirvegun og honum var landað og sleppt. Þetta var magnað ævintýri á stuttum tíma í Skógá. Sex laxar á þremur tímum og ekki verið að berja stöðugt.
„Það er alveg ljóst að hann er mættur og það eru fiskar að koma á hverju flóði. Það verður spennandi að sjá hvað gerist næstu daga með stækkandi straumi. Hún er komin yfir sjötíu laxa og með afar litlu veiðiálagi. Það sem er einkar áhugavert að það hafa nánast eingöngu veiðst hængar. Ætli hrygnurnar komi fyrr en á næsta ári og þá sem tveggja ára. Það getur orðið spennandi,“ sagði Ásgeir leigutaki.
Framundan er besti tíminn í Skógá og þá kemur í ljós hvort Skógá fari að nálgast það sem hún var þegar best lét. Ljóst er að hún líður enn aðeins fyrir hversu illa hún fór árin eftir gos, og veiðimenn hafa ekki snúið aftur. Kannski það gerist með haustinu.
Þegar Sporðaköst voru að keyra í burtu mátti sjá Ásgeir með kengbogna stöng og myndatökufólk hlaupandi í kringum hann.
Ísland er magnað laxveiðiland. Á meðan að fyrstu krókódílarnir, eða legnu stórlaxarnir eru farnir að gefa sig fyrir norðan eru smálaxagöngur að hefjast í Skógá, einni syðstu laxveiðiá Íslands.
Laxveiðin í Skógá byggir eingöngu á seiðasleppingum og heimtum af þeim. Sleppingar í fyrra og í sumar voru á pari við það sem gerðist fyrir gos.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |