Undirritaður hefur verið leigusamningur milli Veiðifélags Hítarár á Mýrum og Grettisstilla ehf. um leigu á veiðirétti Hítarár, hliðaráa og Hítarvatns. Hluthafar í Grettisstillum eru þeir Haraldur Eiríksson og Reynir Þrastarson, báðir hafa þeir áratuga reynslu af Hítará. Þeir voru leiðsögumenn við ána á sínum tíma og hafa mikil tengsl við svæðið.
Báðir áttu þeir sæti í árnefnd Hítarár um langt skeið og tengjast ánni fjölskylduböndum. Halli var ráðinn staðarhaldari við Hítará aðeins sautján ára að aldri og kom að sölu hennar í hartnær áratug í starfi sínu hjá SVFR.
Í dag er hann með Laxá í Kjós á leigu og skuldbindingar þar, og segir að Reynir Þrastarson fái hitann og þungann af daglegum rekstri, en auðvitað starfi þeir saman að verkefninu.
Ertu ekki svolítið að koma heim?
„Það má kannski segja það. Laxá í Kjós og Hítará hafa í gegnum tíðina verið mínar ár. Ég hef verið í þeim báðum í leiðsögn og ýmsum hlutverkum. Jú, ætli megi ekki segja að hringnum sé lokað og ég kominn heim. Ég er nokkuð viss um að Reynir frændi minn er sama sinnis.“
Hítará 1 og 2 gáfu 708 laxa í sumar og er það betri veiði en verið hefur undanfarin ár. Fara þarf aftur til ársins 2016 til að finna betri veiði. Þetta eru ánægjulegar fréttir fyrir aðdáendur Hítarár þar sem stór skriða breytti farvegi árinnar í júlí árið 2018. Áin stíflaðist en fann sér á endanum nýjan farveg. Veiðin sumarið eftir skriðuna er sú lélegasta á þessari öld en þá gaf Hítará ekki nema 204 laxa. Árið 2020 varð strax bati þegar 503 laxar veiddust og í fyrra voru þeir tæplega 548 og nú fór hún yfir sjö hundruð.
„Okkur finnst þetta mjög spennandi verkefni og við hlökkum til að taka á móti veiðimönnum næsta sumar,“ sagði Halli í samtali við Sporðaköst.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |