Árnar sem áttu ekki gott sumar

Arnar Gauti Guðmundsson með opnunarlaxinn úr Laxá í Aðaldal í …
Arnar Gauti Guðmundsson með opnunarlaxinn úr Laxá í Aðaldal í sumar. Hann veiddist á Mjósundi. Vísbendingar voru um meiri laxagengd í upphafi sumars en það skilaði sér ekki í veiðitölum. Ljósmynd/JHB

Þó sjóbirtingstíminn standi sem hæst og ár sem byggja á seiðasleppingum séu enn að skila löxum á land eru flestar af náttúrulegu laxveiðiánum búnar að loka. Á þessu afar köflótta sumri ætlum við að kíkja á nokkrar af þeim ám sem ekki skiluðu góðri veiði.

Laxá í Aðaldal, Vatnsdalsá, Hrútafjarðará, Laxá í Dölum og Andakílsá eru nokkrar af þeim ám sem falla í þennan flokk. Drottningin, eða Big Laxá eins og hún er oft kölluð, perlan í Aðaldal, átti enn eitt slaka veiðisumarið. Þetta er þriðja sumarið í röð þar sem áin dansar í kringum fjögur hundruð laxa. Nú endaði veiðin í 402 löxum. Í fyrra voru þeir 401 og árið þar á undan voru þeir 388. Ef litið er á tölur fyrri ára kemur í ljós að veiðin í Laxá hefur ekki fyrr verið svona léleg á þriggja ára tímabili. Síðustu ár hafa stórlaxar og þá ekki síst fiskar yfir hundrað sentímetrum haldið uppi orðsporinu. Því var ekki að heilsa í sumar.

Lúðvík Lúðvíksson með lúsugan stórlax úr Hnausastreng í Vatnsdalsá um …
Lúðvík Lúðvíksson með lúsugan stórlax úr Hnausastreng í Vatnsdalsá um miðjan september. Þetta er þriðja sumarið í röð þar sem Vatnsdalsá er með veiði upp á ríflega fjögur hundruð laxa. Ljósmynd/Vatnsdalsá

Vatnsdalsá gaf 415 laxa í sumar og er þetta fjórða árið í röð þar sem hún nær ekki fimm hundruð löxum. Síðasta virkilega góða ár í Vatnsdalnum var 2015 þegar hún skilaði veiði upp á rétt tæplega 1.300 laxa. 2016 var ágætt líka með veiði upp á 853 laxa.

Hrútafjarðará var töluvert slakari en í fyrra. Veiðin í sumar var 257 laxar en tvö síðustu ár var hún um 370 laxar. Rétt er að hafa í huga að í henni eru ekki nema þrjár stangir en sumarið var erfitt undir Holtavörðuheiðinni að norðanverðu.

Frá Dönustaðagrjótum í Laxá í Dölum.
Frá Dönustaðagrjótum í Laxá í Dölum. Ljósmynd/Aðsend

Laxá í Dölum hefur enn ekki birt lokatölur en nokkuð ljóst er að hún hefur ekki farið yfir 700 laxa. Mikið var af laxi á hefðbundnum lykilstöðum í Laxá, eins og Höskuldsstaðastrengjum, Þegjanda og Mjóhyl svo einhverjir veiðistaðir séu nefndir. Það er hins vegar samdóma álit þeirra veiðimanna sem Sporðaköst ræddu við að töluvert minna hefði verið af fiski en í fyrra. Veiðin 2021 var 1.070 laxar. Nú var vatnsbúskapur góður í Dölunum í sumar en hefðbundin stórveiði í haustrigningum í september skilaði sér ekki. Laxinn virðist hafa gengið fyrr og ekki þurft að bíða af sér vatnsleysi eins og flest önnur ár. Útlitið er þó ágætt í Dölunum og í byrjun september höfðu áttatíu laxar gengið í gegnum teljarann í Sólheimafossi og hrygning þar efra ætti að skila sér í framtíðinni með stærra búsvæði.

Ekki hafa verið birtar lokatölur fyrir Andakílsá en veiðin stendur nú í 327 löxum. Í fyrra komu á land 518 laxar og enn fleiri árið þar á undan. Verður fróðlegt að fylgjast með Andakílsá sem er enn ofurlítið spurningarmerki eftir umhverfisslysið sem varð þar í maí 2017. Tilraunaveiði hófst að nýju sumarið 2020 og þá var veitt á eina tilraunastöng sem gaf hvorki fleiri né færri en 661 lax. 

Rétt er að hafa í huga að allar þessar ár sem nefndar eru hér að ofan hafa oft skilað mikilli veiði eftir léleg ár. Það má glögglega sjá þegar afleitu árin 2012 og 2014 eru borin saman við góðu árin sem fylgdu í kjölfarið 2013 og 2015. Áhyggjuefnið núna er hversu langt þetta tímabil er orðið, þar sem laxveiðin er heilt yfir slök á Íslandi. 

Uppfært kl. 15:14

Okkur barst ábending varðandi Andakílsá, frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, sem er leigutaki árinnar. Seiðalseppingar í fyrra voru tuttugu þúsund seiði á móti þrjátíu þúsund vorið 2020. Þegar þetta er tekið inn i jöfnuna er það í það minnsta skýring á minni veiði. Það breytir þó ekki heildar niðurstöðunni, en þessu er hér með komið á framfæri.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert