Stærsti sjóbirtingur sem veiðst hefur á flugu á Íslandi veiddist í Tungufljóti í Vestur-Skaftafellssýslu á laugardag. Sporðaköst hafa í það minnsta ekki upplýsingar um svo stóran fisk með staðfestri mælingu. Stórfiskaævintýrið í Tungufljóti virðist engan endi ætla að taka.
Þetta er þriðji sjóbirtingurinn þar í haust sem er hundrað sentímetrar eða stærri og þessi fiskur var svo sannarlega mun stærri en hinir tveir.
Fiskinn veiddi Stefán P. Jones og mældist hann hvorki meira né minna en 107 sentímetrar. „Þrjátíu punda plús kvikindi,“ sagði einn veiðifélagi hans í samtali við Sporðaköst.
Stefán var að kasta á Búrhyl í fyrradag þegar þessi tröllvaxni sjóbirtingshængur tók. Gefum honum orðið. „Veðrið var hreinlega afleitt. Hávaðarok af norðri og þegar við vorum að byrja var heiðskírt og það er ekki gott fyrir sjóbirtinginn. Hann er mjög viðkvæmur fyrir sól í Tungufljótinu. Þetta voru ekki bestu aðstæður til að kasta flugu fyrir sjóbirting. En maður þekkir svo sem að á þessum árstíma er allra veðra von. Þegar við Kristján Geir Gunnarson félagi minn komum að Búrhyl var sem betur fer skuggi á hylnum. Vegna roksins fórum við yfir og maður þurfti svolítið að kasta og vona það besta, bæði að ná flugunni út og að maður fengi þokkalegt rek, því við vorum að veiða á púpur, andstreymis.
Þetta byrjaði á að Kristján Geir tók einn áttatíu og sex sentímetra fisk. Eftir það fór ég og var með dropper eða tvær púpur. Ég var með þyngri flugu neðar. Það var Copper John græn og svo léttari púpu ofar. Það var fluga sem góður vinur minn hnýtti og er Krókurinn en hnýttur á Heavy Wire krók sem eru mjög sterkir krókar. Þetta voru agnhaldslausir krókar. Það þýðir ekkert að fara með venjulega króka þegar er von á birtingum áttatíu plús sentímetrar. Ég nota ekki tökuvara en dreg bara línuna að mér og fylgist vel með. Ég náði einhvern veginn að smygla línunni í gegnum vindinn. Rekið var fínt. Svo sá ég línuna stoppa aðeins og brá við fiskinum. Auðvitað vissi ég ekkert hvernig fiskur þetta var. Hann var fyrst bara alveg kjurr en eftir smá tíma þá sigldi hann hægt og rólega upp hylinn en hann var allan tímann rólegur. Þetta var svolítið eins og að setja í vörubíl. Hann fór það sem hann ætlaði sér þó að ég væri með einhenduna í keng. Ég réð í raun ekkert við hann. Ég var með einhendu fyrir línu sjö og fjórtán punda taum og ég tók á honum eins og græjurnar þoldu. Ég hef veitt marga sjóbirtinga á þessa stöng og þar á meðal fisk yfir níutíu sentímetra. Ég þekki vel hvað þessar græjur þola.
Hann tók tvær rokur þannig að við þurftum að hlaupa á eftir honum. Samt var hann alveg gæfur ef hægt er að tala um það. Það voru ekki mikil læti í honum. Maður veit að ef svona fiskur væri með alvöru læti þá ætti maður ekki séns í hann. Ekki séns. Hann hefði bara sagt bless. Þessi fiskur var merktur mér. Ég upplifði þetta þannig að ég átti bara að fá þennan fisk.
Við sáum hann ekki nærri strax. Það var ekki fyrr en eftir líklega kortér að það fór að glitta í hann. Við sáum þá strax að þetta var dreki. Sáum móta fyrir brúnleitum hlunk. Strákarnir sem voru með mér telja að viðureignin hafi tekið um 25 mínútur. Það var líka mjög mikilvægt að ég var með góðum mönnum. Félagarnir sem voru með okkur á svæði hættu að veiða og komu og aðstoðuðu og hjálpuðu til. Ég hefði aldrei landað þessum fiski ef ég hefði ekki notið þeirra aðstoðar. Við vorum sem betur fer með stóran háf og það kom sér vel. Þeir mættu til okkar Bjartur Ari Hansson og Tómas Helgi Kristjánsson.
Eftir að fiskurinn var kominn í háfinn þá klikkaði bara eitthvað í hausnum á mér. Ég vissi bara ekki hvað ég átti að halda þegar ég sá hann almennilega. Við allir fjórir öskruðum og öskruðum lengi. Hvað er þetta? Þetta var bara eins og selur. Við trúðum ekki okkar eigin augum. Þetta var svo rosalegt. Öll stærð og öll hlutföll og allt svo stórt. Hausinn á honum og sporðurinn. Þetta er bara eitthvað annað. Hann var líka svo fullkominn. Enginn för eða sár eftir sel eða steinsugu. Í góðum holdum með þykkan hnakka. Þessi fiskur var einn vöðvi. Frá skolti aftur á sporð,“ segir Stefán Jones um viðureignina við þennan mikla sjóbirting sem hann landaði. Það þurfti tvö málbönd til að ljúka mælingunni.
„Fyrst var Kristján Geir með málbandið og ég dró það út en hann togaði á móti og ég spurði hann hvað hann væri að gera. „Ertu ekki að grínast Það er bara ekki lengra. Það stoppar á hundrað sentímetrum. Við getum ekki notað þetta.“ sagði hann. Vó sögðum við báðir. Bjartur Ari kom þá með málband sem er einn og fimmtíu. Hann mældist 107 sentímetrar í miðjan sporð og við fjórir sáum það allir. Það var mjög traustvekjandi að Bjartur sem er starfandi lögreglumaður fylgdist með mælingunni,“ brosir Stefán.
Hann var í mesta brasi með að ná almennilegri stellingu með fiskinn. Bæði er hann svo langur og þungur. Stefán er hraustur og í góðu formi en þetta voru engu að síður veruleg átök. Myndirnar sem fylgja fréttinni segja sína sögu.
„Mér fannst merkilegt að fiskurinn tók efri fluguna. Hún var léttari og minni. Ég hef heyrt marga tala um að stórir fiskar taki frekar minna agn og það gerðist í þessi tilviki. En það var magnað að sjá þegar við skoðuðum púpuna sem hann tók að hann hafði rétt alveg úr króknum, sem samt er úr sérstyrktu efni. Ég held að hann hafi verið búinn að vinda upp á krókinn og þegar við náðum honum í háfinn voru átök og þá gæti hafa rést meira úr króknum. Maður beygir ekki svona krók svo léttilega. Þetta er Hannock heavy wire og þeir eru níðsterkir.“
Þú nefndir að þetta væri að öllum líkindum fiskur úr Kúðafljóti.
„Þetta er dæmigerður Kúðafljótsfiskur. Maður sér það á byggingunni á þeim og laginu. Ég hef heyrt tröllasögur af þessum fiskum. Ólafur Guðmundsson vinur minn var í leiðsögn og viðskiptavinur hjá honum setti í svakalegan dreka í Fitjabakka og missti hann eftir langa viðureign. Það hefur örugglega verið fiskur af þessari stærðargráðu og Óli sagði þetta hafa verið stærsta fisk sem hann hefur nokkurn tíma séð. Og hann hefur líka séð stóra fleka vera að krúsa upp ána eftir lokun veiðitímans. Þessir fiskar eru mjög sérstakir á litinn og eru svona brún silfur grænir. Þeir eru mjög frambyggðir og með þennan mikla hnakka. Við höfum verið að sjá þessa fiska niður í 75 sentímetra og við þekkjum þá úr. Liturinn kemur örugglega frá því að þeir hafa verið lengi í jökulvatninu í Kúðafljóti.“
Þessi 107 sentímetra sjóbirtingur sem Stefán veiddi er einn af allra stærstu sjóbirtingum sem veiðst hafa á flugu í heiminum. Internetið segir að sá stærsti hafi mælst 108 sentímetrar og sá veiddist í ánni Em í Svíþjóð. Einnig er þar getið um 107 sentímetra sjóbirting og var báðum þessum fiskum sleppt. Rétt er að hafa í huga að evrópska mælingin á fiskum er endi í enda en ekki miður sporður í trjónu, eins og mælt er hér á landi og gert var við fisk Stefans.
Drapstu fiskinn?
„Nei. Ég sleppti honum og er afskaplega fylgjandi veiða og sleppa þegar kemur að sjóbirtingi. Ástæður þess að þessir fiskar eru farnir að veiðast núna er einmitt veiða og sleppa,“ sagði Stefán ákveðinn.
Hollið sem hann og félagar hans veiddu í hvassviðri skilaði samtals 59 sjóbirtinga og stærðin er ótrúleg. Þeir voru með tvo 89 sentímetra, 90, 92, tveir 93, 96, 97 og svo þessi ótrúlegi 107 sentímetra fiskur. Þetta er veiði á heimsklassa þegar kemur að stórum sjóbirtingum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |