„Ísland er Ásgarður laxveiðinnar“

Denni, eða Sveinn Björnsson með greinarhöfundi í Selá í sumar. …
Denni, eða Sveinn Björnsson með greinarhöfundi í Selá í sumar. Hann setti í fimm laxa á tveimur tímum í Bjarnarhyl. Til samanburðar hafði hann eitt sinn verið þrettán daga í Skotlandi án þess að fá högg. Ljósmynd/SRP

„Í mínum huga er Ísland Ásgarður laxveiðanna og Selá sjálf Valhöll,“ skrifar breski blaðamaðurinn Ruaridh Nicoll á vef Financial Times, sem er eitt útbreiddasta viðskiptablað sem gefið er út. Vitnar hann hér til norrænu goðafræðanna, þar sem Ásgarður var heimili guðanna og Valhöll staðurinn sem vopnbitnir menn fóru til eftir dauða sinn og nutu þar endalausra veisluhalda. Ruaridh skrifar grein um heimsókn sína til Íslands þar sem hann naut félagskapar Jim Ratcliffe á bökkum Selár í sumar.

Ruaridh segir frá því að hann hafi notið leiðsagnar Denna Björnssonar við veiðarnar, sem sé eins fær leiðsögumaður og þeir gerast í heiminum. Þeir byrjuðu í Bjarnarhyl í Selá og þar setti hann í fimm laxa og landaði tveimur á tveimur klukkustundum. „Til samanburðar veiddi ég einu sinni í þrettán daga í Skotlandi og fékk ekki högg allan tímann.“

Breski blaðamaðurinn hafði veitt Selá áður, en það var fyrir býsna löngu. Hann minnist þess að hafa þá notað þunga útgáfu af rauðri Frances sem skoppaði eftir botninum, nánast í andlitið á fiskinum. Þegar hann ræðir þessa veiði við Ratcliffe er svarið stutt. „Það er ekki fluguveiði,“ segir hann með þjósti.

Ruaridh skrifar að félag Ratcliffes hafi verið að kaupa upp jarðir til að eignast ár og einnig að leigja þær, og alltaf með sama markmiðinu, að bjarga Atlantshafslaxinum og á sama tíma að njóta einhverrar bestu laxveiði sem í boði er í heiminum í dag.

Gísli Ásgeirsson og Sir Jim Ratcliffe við upphaf laxveiðinnar í …
Gísli Ásgeirsson og Sir Jim Ratcliffe við upphaf laxveiðinnar í Selá sumarið 2019. Hæer eru þeir félagar í Fosshyl. Einar Falur Ingólfsson

Í greininni er rakið hvernig Ratcliffe byggði upp félag sitt á Íslandi, Six Rivers Project sem hefur það að markmiði að vernda viltu laxastofnana á NA – landi. Raunar kallar Ruaridh það svæði trjálausu túndruna á enda veraldar. Ekki víst að heimamenn skrifi upp á þá lýsingu.

Ratcliffe hefur byggt upp eitt stærsta fyrirtæki í heimi á sviði afurða úr jarðolíu. Auður hans er metinn á gríðarlegar fjárhæðir á lista Forbes, sem gefur út stöðu ríkustu einstaklinga á jörðinni. Ratcliffe er ofarlega á þeim lista. Þessi auðæfi gera honum kleift að reka Six Rivers Project í því formi að það er ekki hagnaðardrifið. Fjármunir sem þar koma inn og eru umfram rekstrarkostnað fara í rannsóknir og aðgerðir til að bjarga laxinum.

Sem þeir aka grófan vegslóða meðfram Selá uppræðirRatcliffe hann um lífsferil laxins. „Laxinn er einstök tegund. Hann lifir af sem seiði í þrjú til fjögur ár við þessar aðstæður. Síðan gengur hann til sjávar og tekur stefnuna á Rússland eða Svalbarða og eyðir þar einu til tveimur árum, hundeltur af sel, og snýr svo aftur í uppeldisána.“

Ruaridh Nicoll fagnar þegar Denni leiðsögumaður háfar silfurbjartan lax í …
Ruaridh Nicoll fagnar þegar Denni leiðsögumaður háfar silfurbjartan lax í Selá. Hann segir Selá Valhöll laxveiðimanna. Ljósmynd/SRP

Það er líka einstakt, þegar kemur að dýravernd að þeir einu sem hafa virkilegan áhuga á að vernda laxinn eru þeir sem eru tilbúnir til að borga fyrir að veiða hann. Það er býsna mikil andstæða þegar kemur að öðrum og meira krúttlegum dýrategundum, skrifar Ruaridh. 

Hann vitnar til þeirrar grafalvarlegu stöðu sem samtök um vernd laxastofna í Atlantshafi hafa opinberað. Samkvæmt North Atlantic Salmon Conservation Organization þá hefur fjöldi laxa í Atlantshafi á árunum 1983 til 2016 minnkað um meira en helming. Af þeim 1,529 laxveiðiám sem voru til gögn um og lax gekk í, eru 174 þeirra laxlausar í dag. Stofninn einfaldlega útdauður. 1,014 ár búa ýmist við verulega fækkun eða eru komnar á hættustig með sína stofna.

Ratcliffe byrjaði seint á fluguveiði. Hann var í kringum fimmtugt þegar golfkennarinn hans, John Jacobs, fyrrum fyrirliði Ryder Cup liðs Evrópu stakk upp á því að þeir færu til Íslands að veiða. Ratcliffe hafði farið til fundar við hann til að reyna að bæta sveifluna. Þetta var hins vegar niðurstaðan. Sporðaköst hafa ekki upplýsingar um hvort Ratcliffe stundar golf í dag. Í þessari ferð fyrir um tuttugu árum hitti hann Gísla Ásgeirsson sem nú er framkvæmdastjóri Six Rivers Project.

Greinin tekur einnig á því að uppkaup Ratcliffes á jörðum hafi valdið ágreiningi sem leiddi til lagabreytinga á Íslandi. „Mér er alveg sama,“ svarar hann þegar rætt er um lagasetninguna. Hann segir að ekki megi misskilja svarið. Það sé yfirdrifið nóg af manneskjum á jörðinni og fjölgun fólks sé smátt og smátt að eyða öðru lífríki. „Six Rivers Project er að standa við þau fyrirheit sem við gáfum með góðu og umfangsmiklu starfi og rannsóknum á laxastofnunum í þessum ám.“

Í lok greinarinnar upplýsir Ruaridh að hann hafi verið gestur Six Rivers Project. Þá upplýsir hann líka að verðmæti pakkans sem hann naut var metinn á tæplega 730 þúsund krónur, miðað við gengi dagsins, eða 4500 pund.

Sporðaköst leituðu svara hjá Gísla Ásgeirssyni, framkvæmdastjóra Six Rivers Project, hvort greinin hefði skilað einhverjum viðbrögðum. Hann sagði að ekki hefði staðið á þeim. „Við erum búnir að fá mikið af fyrirspurnum, víðs vegar að úr heiminum. Singapúr, Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar í kjölfar þess að greinin birtist,“ sagði Gísli.

Það er nokkuð ljóst að hið virta alþjóðlega blað Financial Time er góður vettvangur til að höfða vel fjáðra veiðimanna sem vilja komast í Valhöll laxveiðimanna.

Heimild: ft.com Fréttin byggir á endursögn og lauslegri þýðingu.
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert