Ævintýrið heldur áfram - þrír yfir 110 cm

Sjóbirtingur háfaður í Heiðarvatni. Þar sveima nú allavega þrír sjóbirtingar …
Sjóbirtingur háfaður í Heiðarvatni. Þar sveima nú allavega þrír sjóbirtingar á bilinu 112 til 116 sentímetrar og mögulega fleiri og enn stærri. Ljósmynd/Vatnsá

Við spurðum hér á síðunni hvort framundan væri haust hinna stóru sjóbirtinga? Ekki óraði okkur fyrir því ævintýri sem sjóbirtingur á Suðurlandi er að verða. Þrír birtingar sem mældust 100 cm eða lengri hafa verið veiddir í Tungufljóti í Vestur – Skaftafellssýslu í haust. Sá stærsti 107 sentímetrar. Og vel að merkja það er stærsti fiskur sem veiðst hefur á Íslandi síðustu tvö veiðisumur og næst stærsti sjóbirtingur í heiminum sem veiðst hefur á flugu.

Nú er kominn teljari í Vatnsá, sem rennur úr Heiðarvatni skammt frá Vík í Mýrdal. Teljarinn er af fullkomnustu gerð og myndar og mælir þá fiska sem þar fara í gegn. Þrír sjóbirtingar yfir 110 sentímetra hafa rennt sér í gegnum hann. Sá stærsti hvorki meira né minna en 116 sentímetrar. Ummiðjan september gekk í gegnum teljarann sjóbirtingshængur sem mældist 112 sentímetrar. Þann 18. fór svo 114 sentímetra fiskur í gegn og þann 23. mældist 116 sentímetra sjóbirtingshængur fara í gegnum teljarann. Þetta er ótrúlega stórir fiskar og fyrsta hugsun var að teljarinn kynni að hafa verið bilaður. 

Hér er skjáskot úr vídeói þegar 114 sentímetra sjóbirtingur fór …
Hér er skjáskot úr vídeói þegar 114 sentímetra sjóbirtingur fór í gegnum teljarann fyrir rúmum mánuði. Ljósmynd/Vatnsá

Ásgeir Arnar Ásmundsson sem sér um reksturinn á Vatnsá segir að teljarinn sé réttur og að hann mæli fiska á marga vegu og taki tillit til hvar fiskurinn er staddur í honum. Gögnin verða síðar yfirfarin af Hafrannsóknastofnun. „Það er rosalegt hvað eru mikil gæði í veiða og sleppa fyrirkomulagi þegar kemur að silungi,“ sagði Ásgeir í samtali við Sporðaköst.

Fiskurinn sem gengur upp í Vatnsá á greiða leið að Heiðarvatni og þar hverfur hann þegar komið er í vatnið sem fremur stórt og djúpt. Netsamband við teljarann í Vatnsá rofnaði í lok september þannig að þeir geta hafa verið fleiri í þessari yfirstærð, en það kemur í ljós þegar farið verður yfir gögnin. „Við sjáum mikið magn af áttatíu sentímetra fiskum í Vatnsá og það er bara á við þokkalegan tveggja ára lax. Maður veltir aðeins fyrir sér framhaldinu. Þegar eru svona margir áttatíu sentímetra fiskar verða þá bara margir hundrað sentímetra fiskar eftir nokkur ár?“ Svarið við spurningu Ásgeirs er líklega já, að þeim fari fjölgandi þar sem birtingurinn, ólíkt laxinum, gengur margsinnis á heimaslóðir og stækkar ár frá ári.

Stefán Jones með 107 sentímetra sjóbirtinginn. Hann tók Krókinn í …
Stefán Jones með 107 sentímetra sjóbirtinginn. Hann tók Krókinn í Búrhyl í Tungufljóti. Þetta er einn stærsti sjóbirtingur sem veiðst hefur í heiminum á flugu. Ljósmynd/Kristján Geir

Ásgeir segist raunar hafa fyrir nokkrum árum séð enn stærri fisk. „Ég sá sjóbirting í Kerlingadalsá sem var í algeri yfirstærð. Ég var að giska á 120 til 130 sentímetra. Nokkrum dögum síðar hafði félagi minn samband við mig eftir að hafa verið við Vatnsá og sagðist hafa séð birting í kringum 130 sentímetra. Sennilega verið sami fiskurinn.“ Upplýsir Ásgeir.

Vatnsá rennur úr Heiðarvatni eins og fram er komið en fellur í Kerlingadalsá og sameinast henni til sjávar.

Heiðarvatn sem Vatnsá fellur úr er eitt besta veiðivatn á …
Heiðarvatn sem Vatnsá fellur úr er eitt besta veiðivatn á Íslandi. Þar má finna allar tegundir ferksvatnsfiska. Ljósmynd/Vatnsá

Þó að Suðurlandið standi upp úr þegar kemur að þessum stórfiskum er svipuð þróun að eiga sér stað í Eyjafjarðará, Húseyjarkvísl og Laxá í Kjós, þar sem sleppingar á sjóbirtingum skila vaxandi fjölda stórfiska. Í Ölfusá hefur orðið mikill vöxtur í sjóbirtingsveiði og er hann þar í mikilli sókn. Sjóbirtingur er að eflast um land allt og verða næstu ár spennandi þegar þessir stóru fara kannski að veiðast í meira mæli.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert