Veiðiáhugafólk og margvíslegir sérfræðingar, bæði á sviði fiskifræði og umhverfismála óttast það versta í nyrstu héruðum Noregs, næsta sumar. Hnúðlax gengur í síauknum mæli upp í norsku árnar og hefur margfaldast á tímabilinu 2015 til 2021 þegar þessi nýbúi gekk upp í árnar í meira mæli en nokkru sinni fyrr.
Lauslega áætlað sjöfaldaðist magn hnúðlaxins milli áranna 2019 og 2021 í ám í Finnmörku, sem er sá hluti Noregs sem liggur næst Rússlandi. Hnúðlax er einmitt ættaður frá Rússum, ef segja má sem svo, en þeir fluttu hann inn á Kólaskaga á síðustu öld. Upphaflega er hnúðlax kyrrahafslax en er nú að ná fótfestu í Atlantshafinu eftir þessar aðgerðir Rússa.
Það svæði sem verst hefur orðið úti í hnúðlaxabylgjunni er Finnmörk. Þar voru margar laxveiðiár bókstaflega „sjóðandi af hnúðlaxi“ sumarið 2021. Sérfræðingar búast við tíföldun, jafnvel tólfföldun næsta sumar. Kenneth Stalsett er í forsvari fyrir stang- og skotveiðifélagskap áhugamanna í Sör-Varanger í Finnmörku. Hann segir í samtali við Sporðaköst að félagsskapurinn standi nú frammi fyrir ótalmörgum og risavöxnum spurningum. Hann nefnir sem dæmi ána sem hann veiðir mest í en það er Grense Jakobselv. Hún er eins og nafnið bendir til á landamærum Rússlands og Noregs. Sör-Varanger liggur að bæði Rússlandi og Finnlandi. „Við vitum ekki hvernig næsta sumar verður. Við vitum ekki hvort verður hreinlega hægt að veiða í ánni. Sumarið 2021 áætluðu fiskifræðingar að tuttugu þúsund hnúðlaxar hefðu gengið í hana. Ég held að þeir hafi verið miklu fleiri, jafnvel fimmtíu þúsund fiskar. Áin hreinlega sauð af hnúðlaxi hvert sem farið var.“ Kenneth vonast til þess að hægt verði að veiða fyrstu tvær til þrjár vikur veiðitímabilsins, áður en hnúðlaxinn kemur.
„Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki framtíð fyrir Atlantshafslaxinn okkar í Grense Jakobselv ef þetta ástanda heldur áfram. Sama má segja um aðrar ár á svæðinu. Laxinn var þegar í vandræðum en með þessum aðkomufiski er ómögulegt að sjá að hann þrífist. Ef þetta heldur svona áfram þá er útlitið ekki gott. Það er helst að þær ár sem eru með gott aðgengi, vegi og rafmagn í nágrenninu geti barist gegn þessu, með gildrum og þeirri tækni sem nú er í boði,“ sagði Kenneth.
Eins og fyrr segir veit Kenneth og hans fólk ekki hvort eða hvernig verður hægt að skipuleggja veiði næsta sumar og þar getur orðið mikið tekjutap sem skiptir samfélagið á svæðinu miklu máli.
Nokkrar af spurningunum sem laxveiðiiðnaðurinn stendur frammi fyrir eru, hvernig verður hægt að skipuleggja hefðbundinn veiðitíma. Hvernig á að fara með allan þann hnúðlax sem tekinn verður í gildrur. Hvernig á að skipuleggja baráttuna við hnúðlaxinn og margt fleira.
Þeir eru að vonast eftir fjárframlögum frá norska ríkinu til að kaupa gildrur og setja upp og annan búnað sem getur hjálpað við að berjast gegn þeirri miklu holskeflu sem búast má við næsta sumar. Kenneth segir að norsk stjórnvöld sem séu að skoða málið en honum finnst það taka of langan tíma. „Enn hafa engin svör komið en það er ljóst að við sem sjálfboðaliðar höfum ekki mannskap eða fjármagn til að slást við þetta einir og sér.“
Lífsferill hnúðlaxins er tvö ár. Hann hrygnir fyrr en Atlantshafslaxinn og seiðin klekjast hratt út. Þau ganga mjög smá til sjávar og snúa til baka eftir tvö ár sem fullvaxnir hnúðlaxar. Þeir hrygna og veslast svo upp í ánni að þeim leik loknum. Fiskurinn drepst ekki strax heldur nánast rotnar hann lifandi. Enn eitt áhyggjuefnið í þessu samhengi er að til er annar stofn hnúðlaxa sem Rússar fluttu inn til Kólaskaga á sléttu ártali. Sá stofn veiddist í sumar í litlu magni í nyrstu ám Noregs og óttast Kenneth að sá stofn muni einnig ná sér á strik. Þá verður hnúðlax á hverju ári, ekki bara á oddatöluárum. „Það er ljóst að sá stofn er til staðar og við óttumst að hann vaxi og dafni og verði höfuðverkur líka með árunum. Við erum að glíma við nýjan veruleika.“
Hvað myndir þú ráðleggja okkur Íslendingum að gera, þegar þú hugsar til baka hvernig mál þróuðust hjá ykkur?
„Bregðast strax við og setja upp gildrur þar sem það á við og nýta þá tækni sem hægt er. Við sjáum svo vel í okkar ám að hræðilegir hlutir gerast þegar ekki er brugðist við svona innrás strax.“
Hafrannsóknastofnun leitaði að hnúðlaxaseiðum í nokkrum íslenskum ám í vor og á öllum stöðum þar sem var leitað fundust seiði. Botnsá í Hvalfirði, Hvítá í Borgarfirði og Langá geymdu allar slík seiði. Mikil fjölgun varð í hnúðlaxi á Íslandi sumarið 2021 og hefur ekki áður sést í slíku magni hér á landi. Verði þróunin hér á landi svipuð og í nyrsta hluta Noregs má gera ráð fyrir að þessum aðskotafiski fjölgi mikið í íslenskum ám næsta sumar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |