Veiðileyfi í laxveiði hækka víða mjög hressilega fyrir komandi veiðitímabili. Svipaða sögu er að segja af leyfum í sjóbirting. Þetta er ekki algilt og eru einstaka dæmi um lækkanir. Verðbólga er fyrsti áhrifavaldurinn en flestir samningar leigutaka við landeigendur eru verðtryggðir og í hátt í tíu prósent verðbólgu er það fljótt að hafa veruleg áhrif. Sama verðbólga hefur einnig áhrif á umgjörð laxveiðiánna en aðföng hafa hækkað og þá eru kjarasamningar einnig að spila inn í.
Víða hækka veiðileyfi um allt að þrjátíu prósent. Þetta er reyndar mjög misjafnt milli veiðisvæða og margt sem spilar inn í. Jóhann Davíð Snorrason sem rekur félagið Kolskegg sem sér um sölu veiðileyfa í Eystri – Rangá, Affallið og Þverá sagði í samtali við Sporðaköst að hækkanir næmu á bilinu 4 til 22 prósent fyrir næsta tímabili. „Flest svæði svæði hjá okkur hækka um 4 – 12 prósent og er það fyrst og fremst vegna um tíu prósent verðbólgu í landinu. Haldir þú ekki í við hana er um raunlækkun að ræða eins og er á sumum svæðum hjá okkur,“ sagði Jóhann Davíð.
Harpa Hlín Þórðardóttir sem annast sölu á Ytri – Rangá sagði að hækkanir hjá þeim væru um tíu prósent í sumar. Stafaði sú hækkun einfaldlega af verðbólgu. Hún tók fram að þau hefðu þurft að hækka verð í veiðihúsi meira en sem verðbólgu nemur en gerðu það ekki.
Sporðaköst sendu fjórar spurningar á helstu leigutaka og söluaðila á laxveiðileyfum. Spurt var um hvort hækkanir væru á veiðileyfum og hversu miklar. Af hverju stafa þessar hækkanir? Eru hópar að hætta við vegna verðhækkana? Er meiri eftirspurn frá erlendum veiðimönnum og hvernig hefur salan gengið heilt yfir?
Góðar heimtur voru á svörum án þess að menn færu út í smáatriði. Þannig sagði Þröstur Elliðason sem er meðal annars með Hrútafjarðará og Jöklu að þar væru hækkanir. Bæði tengist það breytingum á leigusamningum og verðbólgu sem mönnum var tíðrætt um í svörum sínum. Þannig er ljóst að þó nokkrar hækkanir verða í báðum þessum ám.
Stangaveiðifélag Reykjavíkur eða SVFR er að hækka sín svæði um 10 - 12% að sögn Ingimundar Bergssonar. Þó eru undatekningar á í báðar áttir. Elliðaárnar hækka þannig ekki milli ára en urriðasvæðin fyrir norðan hækka meira og segir Ingimundur þá hækkun til komna vegna breyttra samninga við landeigendur.
Starir eru með á leigu Þverá og Kjarrá ásamt Blöndu, Víðidalsá, Sogið og Langadalsá. Þær tvær síðast nefndu munu lækka í verði en Þverá/Kjarrá hækka samkvæmt vísitölu, Víðidalsá hækkar töluvert meira enda er hún að sögn Ingólfs Ásgeirssonar að sigla inn í nýtt umhverfi og vísar hann þar til þess að áin er í útboðsferli og verða tilboð opnuð nú um miðjan janúar og eru þar fyrirsjáanlegar miklar hækkanir til framtíðar. Blanda verður á svipuðu róli en Ingólfur staðfesti að sala hefði gengið mjög vel.
Kristinn Ingólfsson sem rekur veiðivefinn veiða.is og er einn stærsti söluvefur á veiðileyfum segir að heilt yfir séu laxveiðileyfi að hækka á bilinu 8 – 15 prósent milli ára. Verðlagsþróun er enn og aftur helsti áhrifavaldurinn.
Í nokkrum ám verða breytingar á veiðireglum svo töluverður kostnaðarauki leggst á veiðimenn. Þannig er tekin upp leiðsögumannaskylda í Hofsá og Stóra – Laxá er líka komin með það fyrirkomulag. Báðar þessar ár hækka því mikið. Í Stóru – Laxá eiga sér stað leiðréttingar á verði innan veiðitíma og hækka júlí leyfi hressilega en á móti eru dæmi um lækkanir á öðrum tímum, eins og í ágúst.
Laxá í Kjós hækkar nokkuð enda tók gildi ný samningur um ána fyrir sumarið sem er framundan og felur hann í sér fimmtán prósent verðhækkun. Haraldur Eiríksson leigutaki Laxár kemur einnig að Hítará en þar verða verulegur hækkanir. Nokkur atriði koma þar til að sögn Haraldar. Fyrst er til að telja að stangardögum þar fækkar um 25 prósent samkvæmt ákvörðun Hafrannsóknastofnunar. „Auk þess sem verðskrá var endurskoðuð og færð til samræmis við það sem þekkist í nágranna ám Hítarár,“ sagði Haraldur í samtali við Sporðaköst.
Hann benti einnig á hækkandi rekstrarkostnað við húsakost og aðföng, laun og aðkeypta þjónustu. Sagði hann að þetta blasti við öllum í rekstri heimila í dag.
Helga Kristín Tryggvadóttir sölustjóri hjá Six Rivers Iceland, sem rekur Selá, Hofsá, Miðfjarðará í Bakkafirði og nú Hafralónsá svo þær helstu sé nefndar, sagði hækkanir hjá þeim á bilinu 10 til 30 prósent. Hún nefndi eins og aðrir verðbólguna og einnig að nýir leigusamningar væru í einhverjum tilvikum að taka gildi. Þá væri misjafnt hvernig hækkanir kæmu út á veiðitímanum.
Sporðaköst hafa staðfest að víða eru september dagar að hækka meira en aðrir hlutar veiðitímabilsins. Þetta er til staðfestingar á því að veiðifyrirkomulagið veiða/sleppa er að virka vel, allavega fyrir leigutaka.
Þegar horft er til sjóbirtingsveiði þá hafa þar verið miklar hækkanir undanfarin ár og langt fram úr því sem gæti verið útskýrt með verðlagshækkunum. Þar hafa nýir leigutakar með nýja og dýrari leigusamninga hækkað verðið. Fish Partner er nú komið með flest þekktu svæðin í nágrenni Kirkjubæjarklausturs og þar hafa verð hækkað mikið.
Þrátt fyrir að veiði hafi verið allt frá því að vera léleg yfir í að vera þokkaleg síðustu fjögur ár þá virðist ekkert lát á eftirspurn. Þannig segir sölustjóri hjá Six Rivers að þau séu full seld. Svipað er uppi á teningnum víða í stóru laxveiðiánum. Jafnvel dæmi um að færri komist að en vilji.
Raunar nefndu nokkrir leigutakar að óvissa um efnahagsmál, ekki síst í Evrópu hafi gert það að verkum að eitthvað var um hik og jafnvel samdrátt. Svona orðaði Haraldur Eiríksson það. „Óhjákvæmilega verður meiri endurnýjun á viðskiptamannahópnum þegar hækkanir verða ofan í miðlungs laxveiðiár. Hafa verður í huga að hækkanir á okkar stærsta erlenda viðskiptamarkað eru miklar því í ofanálag bætist við neikvæð þróun breska pundsins og slæmar efnahagshorfur þar í landi. Eftirspurn erlendis frá finnst mér vera að dala vegna þessa auk þess sem kauphegðun hefur breyst og einkennist af varfærni og óvissu.
Salan hefur þó gengið með ágætum, en hafa verður meira fyrir henni en undanfarin tvö ár.“
SVFR segir markaðinn enn sterkan þegar kemur að eftirspurn. „Maður finnur þó að það hefur verið erfiðara hjá mörgum að manna sín holl, þannig að það er eitthvað smá bakslag er markaðurinn er þó það sterkur að þar sem holl hafa ekki náð að endurbóka er iðulega einhver á kantinum tilbúinn að taka við keflinu.
Félagaúthlutun er nýlega lokið og umsóknarþunginn var framar björtustu vonum. Markaðurinn er sem sagt ennþá í lagi en við sjáum ekki alveg hvert stefnir næstu árin.“
Harpa Hlín sagði að eftirspurnin væri góð og meiri en í meðal ári. Salan hefði gengið mjög vel. Vissulega hefðu verið dæmi um að hópar hefðu fært sig á ódýrari tíma en níutíu prósent útlendinganna væru að koma aftur. „Þeir voru fyrr en vanalega að staðfesta dagana sína,“ upplýsti hún. Þau eiga enn eftir eitthvað af leyfum í Ytri eftir miðjan ágúst og í Urriðafossi eftir miðan júlí.
Kristinn Ingólfsson á veiða.is segir eftirspurnina góða og það hafi komið honum þægilega á óvart hversu mikið af fyrirspurnum hafi verið berast upp á síðkastið, erlendis frá.
Mjög gróflega má skipta kaupendahliðinni á veiðileyfamarkaðnum í þrennt. Útlendingar, íslensk fyrirtæki og loks einstaklingar. Það hefur gerst af og til undanfarna áratugi að hluti af þessum markaði hefur dregist saman eða jafnvel hrunið. Árin eftir hrun minnkuðu kaup fyrirtækja verulega á þessum markaði. Útlendingamarkaðurinn hefur sveiflast mikið og í svörum hér að ofan má lesa á milli línanna að þar er nokkur óvissa um framhaldið. Síðasti hluti þessa markaðar eru svo einstaklingarnir. Þar hafa Sporðaköst heyrt af samdrætti. Þegar rótgróin holl hafa þurft að taka á sig hækkanir á veiðileyfi og gistingu og jafnvel aðrir kostnaðarliðir bæst ofan á þá er þetta einfaldlega orðið of mikið fyrir suma.
Veiðileyfi í byrjun september sem kostaði um hundrað þúsund krónur í fyrra, hækkar jafnvel í 120 þúsund. Aðstaða í veiðihúsi hækkar úr þrjátíu þúsund í 35 þúsund. Þá er kostnaður við stöngina kominn í 570 þúsund krónur, en var í fyrra 480 þúsund. Tveir menn skipta þessu jafnt á milli sín og greiðir þá hvor um sig 285 þúsund, en sami reikningur var upp á 240 þúsund í fyrra. Komi svo til leiðsögumannaskylda má leggja 120 þúsund krónur ofan á hvorn veiðimann og er þá kostnaðurinn kominn í 405 þúsund krónur á haus. Þetta er fyrir hálfa stöng í þrjá daga í september. Rétt er að taka fram að leiðsögumannaskylda er í fæstum ám en þeim fer fjölgandi. Þá eru einnig mörg dæmi um að kostnaður í veiðihúsi sé hærri en í þessu dæmi.
Sporðaköst vilja ekki æra óstöðuga með því að reikna út verð og kostnaðarauka á betri og dýrari tíma. En það má vera ljóst að einstaklingshluti íslenska markaðarins er farinn að hiksta verulega yfir þessum verðhækkunum, ekki síst í ljósi þess að veiðin hefur víða verið dræm undanfarin ár.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |