Tilboð í Víðidalsá voru opnuð í dag. Alls bárust tilboð frá fimm aðilum og ljóst er af þeim tilboðum sem bárust að leiga fyrir veiðirétt í Víðidalsá hækkar um tugi milljóna. Samkvæmt heimildum Sporðakasta er leiguverð nú í kringum áttatíu milljónir króna á ári, en nokkur af þeim boðum sem bárust voru vel yfir hundrað milljónir króna og hæsta boð hljóðaði upp á 115 milljónir króna á ári. Nokkur fráviks tilboð bárust frá þeim aðilum sem sendu inn tilboð.
Hæsta tilboð, í það minnsta við fyrstu sýn barst frá núverandi leigutökum sem eru Starir ehf í samstarfi við landeigendur sem kenndir eru við Stóru – Borg í Víðidal.
Boðinn var út veiðiréttur í Víðidalsá sem samanstendur af átta stöngum á laxasvæðinu í Víðidalsá og hliðaránni Fitjaá. Þá er þrjár stangir á neðsta hluta árinnar sem flokkast sem silungasvæði. Loks var veiðiréttur í Hópinu hluti af útboðinu. Óskað var eftir tilboðum í svæðið til fimm ára. Tvö veiðihús eru jafnframt hluti af leigunni. Annars vegar Tjarnarbrekka sem hýsir veiðimenn á laxasvæðinu og veiðihúsið Þúfa sem er aðstaða fyrir veiðimenn á silungasvæðinu.
Starir ehf hafa verið með ána fram því árið 2014 og rekur það félag ána í sumar en nýr samningur tekur gildi sumarið 2024.
Veiðifélag Víðidalsár opnaði tilboðin í dag og var mikill áhugi á útboðinu enda Víðidalsá eitt af stóru nöfnunum í laxveiðinni.
Björn Magnússon bóndi að Hólabaki og formaður veiðifélagsins var ánægður með tilboðin sem bárust en ljóst er að þessi tilboð hljóða upp á mikla hækkun til landeigenda, eða sem nemur tugum milljónum króna á ári. Að sama skapi er ljóst að hækkun á veiðileyfum í Víðidalsá verður mikil. Björn átti von á fleiri tilboðum en er ánægður með þau sem bárust.
Veiðifélagið mun taka sér tíma í að fara yfir tilboðin að sögn Björns og ræða við þá sem buðu, áður en félagsfundur verður kallaður saman til að kjósa um tillögu stjórnar. Í útboðsgögnum var tekið fram að veiðifélagið áskilur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna þeim öllum.
Veiði í Víðidalsá hefur sveiflast mikið síðasta áratug og var dræm árin 2018 til 2020. Aðeins varð bati milli ára á síðasta sumri þegar áin gaf 810 laxa. Mesta veiði á þessari öld var sumarið 2009 þegar 2019 laxar voru færðir til bókar. Lélegasta sumarið var á öldinni hins vegar hörmungarárið 2012 þegar aðeins 325 laxar veiddust. Meðaltalsveiði síðastliðinn áratug er í kringum átta hundruð laxar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |