Sigurður Héðinn eða Haugurinn eins og hann er jafnan kallaður boðar nýjung fyrir laxveiðifólk. Hann ætlar í vetur að bjóða upp á það sem hann kallar grunnnámsskeið í laxveiði undir heitinu Gerum betur. Námskeiðið er eitt kvöld og er haldið í Haugur Workshop sem er verslunin hans á Rauðarárstíg.
Haugurinn er reyndur leiðsögumaður og hefur undanfarin ár sent frá sér bækur þar sem hann kafar djúpt í fræðin. „Já, ég byggi þetta á bókunum og fer yfir undirstöðuatriðin í veiðinni. Það er svo margt sem fólk er forvitið um. Hvernig á að lesa vatn? Ég fer yfir val á flugum og af hverju gárutúban er að virka og hvað er smáfluga?
Ég hef tekið eftir því, bæði sem leiðsögumaður og líka í búðinni hjá mér að fólk er með svo mikið af spurningum og það er mjög eðlilegt. Ef þú ert að fara í einn eða tvo veiðitúra á sumri þá er bara fullt sem þig langar að fræðast um og gera betur þegar loksins er komið í veiðitúrinn. Ég mun svo líka leggja spilin á borðið og fara yfir öll leyndarmálin.“
Hann er ekki að lofa því að námskeiðið skili sér strax í magnveiði en markmiðið er fyrst og fremst að fólk verði hæfara til að meta aðstæður og taka góðar ákvarðanir. „Það er svo fyrsta skrefið að því að veiða fleiri fiska,“ brosir Haugurinn.
Haugurinn miðar við þrjá klukkutíma en segir það ekki heilagt og ef umræður spinnast þá verða þær kláraðar. „Þetta er svo margslungið sport. Við þurfum að huga að tækniatriðum, eins og að menda eða vippa flugulínunni, strippa. Hvaða tauma er best að nota og ýmislegt fleira sem gerir veiðifólk hæfara til nýta tímann vel við bakkann. Verð á veiðileyfum er sífellt hækkandi og þá er atriði að vera með undirstöðuna á hreinu,“ upplýsir Haugurinn í samtali við Sporðaköst.
Hann er viss um að eftirspurnin eftir því að geta sest niður með einhverjum sem hefur mikla reynslu, er til staðar. „Þetta getur líka verið skemmtilegt tækifæri fyrir veiðiklúbba eða starfsmannafélög og ég er til í að mæta þar sem hentar ef óskað er eftir því.“
Verð á mann er 12.500 krónur og áhugasamir geta skráð sig á netfangið siggi@haugur.is
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |