Nýr formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur vill endurskoða úthlutunarkerfi veiðileyfa, með það að markmiði að einfalda kerfið og auka skilning félagsmanna á úthlutunarferlinu. Annað atriði sem Ragnheiður Thorsteinsson, nýr formaður SVFR langar að takast á við er að efna til málefnalegrar umræðu um helstu hitamál meðal veiðimanna. Þar er hún að vísa til meðal annars veiða og sleppa umræðunnar og skiptar skoðanir á því hvort eigi að sleppa seiðum í ár yfir höfuð eða ekki – hvað er náttúrulegt og hvað ekki. „Það væri gaman að halda opinn fund um málefnin þar sem þessir hlutir eru rökræddir. Ég held að það gætu skapast skemmtilegar umræður,“ segir Ragnheiður..
Ragnheiður, eða RaggaThorst eins og hún er iðulega kölluð tók við formennsku félagsins á aðalfundi sem haldinn var síðastliðinn fimmtudag. Hún er fyrsta konan sem gegnir embættinu í langri sögu félagsins. „Ég er bara mjög stolt yfir þessu og tilbúin í verkefnið. Félagið er í býsna góðum málum. Þegar forveri minn Jón Þór Ólason tók við voru ýmsar blikur á lofti. Það var ekki eining í félaginu og ýmis vandamál sem þurfti að taka á. Ég sagði á fundinum að hann hefði tekið við vígvelli en ég væri að erfa sólblómakur,“ brosir Ragga.
„En í fullri alvöru, Þá er fjárhagsleg staða félagsins er orðin góð og eigið fé er komið vel yfir níutíu milljónir. Við erum nýlega búin að framlengja flesta samninga okkar um veiðisvæði og það hefur verið umtalsverð fjölgun félaga hjá okkur. Mér finnst ríkja góður andi í félagsskapnum okkar og Ingimundur Bergsson nýr framkvæmdastjóri að taka við. Hjá stjórninni liggur mikil reynsla og tvær nýjar stjórnarkonur að bætast við, þær Brynja Gunnarsdóttir og Dögg Hjaltalín. Þá mun Hrannar Pétursson taka við varaformennsku, Helga Jónsdóttir verður gjaldkeri. Trausti Hafliðason verður áfram ritari og Halldór Jörgensson verður meðstjórnandi. En ég vil ekki vera eins og strúturinn og stinga höfðinu í sandinn, því að það eru áskoranir framundan, Það er óvissa í efnahagsástandinu hér og í heiminum öllum. Það eru sprengitilboð í útboðum. Það synda 18 milljónir norskra eldislaxa í misjafnlega traustum sjókvíum í fjörðunum okkar. Allar þessar áskoranir munu fylgja okkur inn í stjórnarárið ásamt þeim verkefnum sem við höfum þegar verið að sinna.“
Hvernig viltu breyta úthlutunarkerfinu?
„Við erum bæði félagsskapur veiðimanna og fyrirtæki. Við höfum þurft að selja besta tímann dýrt og höfum þá verið að setja axlirnar, eða jaðartímana í félagsúthlutun. Svo eru við með ársvæði sem eingöngu eru í félagsúthlutun en einnig ár sem eru eingöngu í forúthlutun til félagsmanna. Það er gert af nauðsyn, þar sem markmiðið er að lágmarka fjárhagsáhættuna í rekstrinum. Þess vegna eru endurbókanir í boði fyrir veiðimenn sem festa sér sömu dagana ár eftir ár á dýrustu tímunum. Það mætti til dæmis endurskoða hvaða veiðidagar eiga að fara í forúthlutun og svo framvegis.
Ragga vildi nota tækifærið til að þakka fráfarandi formanni fyrir frábært starf. „Hann tók við félaginu á viðsjárverðum tímum og hefur leitt frábært starf. Jón Þór gerði frábæra hluti enda kvöddum við hann með blómvendi og þéttu hópknúsi.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |