Áhugi á vorveiði á sjóbirtingi er mikill. Víða er uppselt í þekktu og hefðbundnu vorveiðisvæðin í Vestur – Skaftafellssýslu og á sama tíma hefur verðið á veiðileyfum þar um slóðir hækkað mikið síðustu ár.
Stangaveiðifélag Selfoss lumar á nokkrum áhugaverðum stöðum í vorbirting og silung. Nýlega auglýsti félagið þessi svæði. Veiði hefst á þeim öllum 1. maí og stendur vorveiðin til loka maí. Sumaropnun tekur svo við í beinu framhaldi.
Svæðið er mjög stórt eða með Bitrulæk 12 – 14 kílómetrar. Veiðikort er af svæðinu með góðum vegmerkingum og bæjarnöfnum, auk merktra veiðistaða. Svæðið er í nágrenni Selfoss eða innan við tíu mínútna akstur hvort sem farið er að efri hluta svæðisins (t.d. veiðihúsi) eða að neðri veiðimörkum sem eru gamla brúin við Bár. Á þessu svæði er staðbundinn urriði, staðbundin bleikja, sjóbirtingur, sjóbleikja, lax og jafnvel stöku áll. Má segja að von sé í ágæta silungsveiði frá vori og fram til loka á haustin á Volasvæðinu.
Veitt er á tvær stangir á svæðinu og eru þær seldar saman. Veiðihús er í boði sem tekur allt að sex manns.
Í vorveiðinni í maí er eingögnu leyfð fluguveiði og skal öllum fiski sleppt.
Frá 1. júní til 15. september má veiða á flugu, maðk og spón. Leyfilegt er að taka þrjá fiska á dag á stöng, eða samtals sex fiska á sólarhrings veiðileyfi en sleppa skal öllum fiski yfir 65 sentímetra.
Haustveiðin tekur svo við frá 15. september til 20. október og er þá eingöngu leyfð fluguveiði og skal öllum fiski sleppt.
Vatnasvæðið er um ellefu kílómetra langt eða frá gömlu brúnni við Bár í nágrenni Selfoss að brúnni við veiðihúsið í Tungu skammt austan Stokkseyrar. Gott veiðikort er af svæðinu með vegmerkingum og bæjarnöfnum svo vel má átta sig á aðkomu að svæðinu og einstaka veiðistöðum. Á bakhlið veiðikortsins er að finna greinargóða lýsingu á öllum helstu veiðistöðum á svæðinu. Fluguveiði er vaxandi á þessu svæði sem og annars staðar í læknum á kostnað maðksins sem þó gefur oft góðan afla. Sjóbirtingur er aðall svæðisins en hann er kominn á svæðið fljótlega eftir að hans verður vart í ósnum. Þá fást venjulega nokkrir laxar á hverju sumri. Svæðið gefur meiri afla en skýrslur sýna því ekki er veiðibók á svæðinu en ekki næst í nema hluta veiðimanna til að fá upplýsingar um veiði.
Veitt er á tvær stangir og gilda sömu veiðireglur og í Vola, bæði hvað varðar sleppingar á fiski og agn. Sama er að segja um skiptingu veiðitímabila en veiði hefst á svæðinu 1. maí og stendur til 20. október.
Ósinn er neðsti hluti Vola vatnasvæðisins og er skammt austan Stokkseyrar. Til hans fellur auk Hróarsholtslækjar, Baugstaðaá sem kemur úr Skipavatni og eru veiðimörk við útfallið úr vatninu. Fiskur gengur bæði um ósinn í Hróarsholtslæk (Vola) og Baugstaðaá. Ósinn er fornfræg veiðistöð einkum fyrir góða sjóbirtingsveiði. Fiskurinn er blandaður að stærð eða frá pundi og upp í sextán punda bolta. Þegar göngur koma er oft mjög líflegt og má segja að ósinn kraumi af fiski þegar mest er um að vera. Nokkrir laxar koma einnig á land á hverju sumri, flestir á bilinu 5 – 10 pund. Þá er ótalin sjóbleikja sem lítillega verður vart við bæði í ósnum og einnig í Vola og gæti verið spennandi fyrir áhugasama fluguveiðimenn að kanna betur, t.d. snemma að vori. Veitt er á tvær stangir á svæðinu. Veiðihús er í boði á svæðinu og gilda sömu reglur varðandi agn og sleppingar og á efri svæðunum.
Þá er Stangaveiðifélag Selfoss að bjóða upp á vorveiði í Ölfusá og svo tekur við laxveiðitímabil í framhaldinu.
Lýsingarnar hér að ofan eru fengnar af vef SVFS. Fyrir áhugasama er hægt að kanna laus leyfi og verð á vefnum www.leyfi.is sem er í eigu Selfyssinganna og Stangaveiðifélags Hafnarfjarðar. Þar má einnig skoða og panta daga í Hlíðarvatni.
Verð fyrir vorveiðina hjá SVFS eru í þeim verðflokki að flestir ættu að geta fundið eitthvað við hæfi, sérstaklega ef tveir deila með sér stöng.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |