Vísindaveiða rjúpu á Mosfellsheiði í dag

Töluvert magn er af rjúpu á Mosfellsheiðinni. Ásgeir Heiðar tók …
Töluvert magn er af rjúpu á Mosfellsheiðinni. Ásgeir Heiðar tók þessa mynd í síðustu viku á heiðinni. Hann mun leiðbeina mönnum í dag. Ljósmynd/Ásgeir Heiðar

Frétt þessi er aprílgabb mbl.is

Vísindaveiðar á rjúpu fara fram á Mosfellsheiði í dag. Tuttugu veiðimenn fá að ganga til rjúpna og má hver og einn skjóta allt að þremur rjúpum. Ástæðan fyrir veiðinni er fyrst og fremst til að kanna ástand fuglanna og kortleggja útbreiðslu fuglaflensu í norðlægum löndum. Hópur vísindamanna á vegum WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar stendur að verkefninu í samráði við íslensk stjórnvöld. Um síðustu helgi fóru slíkar veiðar fram í Skotlandi og í Norðurhluta Noregs og Svíþjóðar. Í dag er svo komið að Íslandi og Grænlandi.

Þeir veiðimenn sem vilja taka þátt þurfa að mæta í Veiðihornið í Síðumúla og skrifa þar undir pappíra og leggja fram skotvopnaleyfi og veiðikort. „Við lögðum til að gera þetta með þessum hætti, frekar en að velja einhverja tuttugu veiðimenn og þannig eiga allir möguleika á að komast í þetta,“ sagði Áki Ármann Jónsson formaður SKOTVÍS sem skipuleggur veiðarnar. Hann bætti við að þeir veiðimenn sem tækju þátt fengju nákvæmar upplýsingar um svæðið sem veiðar eru heimilaðar á og með hvaða hætti þyrfti að skrá fuglana. „Við vitum að það er mikið af fugli á Mosfellsheiðinni og þetta á að geta gengið þokkalega hratt fyrir sig og dagurinn á að duga í þetta,“ sagði Áki ennfremur.

„Það var ekki hlaupið að því að fá tilskilin leyfi en umhverfisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson var tilbúinn að hlusta á röksemdirnar og gaf í gær út reglugerð svo heimilt sé að framkvæma þetta.“ Áki segir að vísindamennirnir leggi áherslu á að ná fuglunum áður en farfuglar frá Evrópu fara að streyma til þessara landa. Með gagnasöfnun á þessum tíma fáist raunveruleg staða í staðbundnum villtum stofnum í þessum löndum.

Guðlaugur Þór Þórðarson staðfesti í samtali við Sporðaköst að reglugerðin hefði litið dagsins ljós í gær og að þessar vísindaveiðar væru heimilar.

Hér er hundur Ásgeirs Heiðars búinn að taka stand á …
Hér er hundur Ásgeirs Heiðars búinn að taka stand á fugl fyrr í vetur. Hver veiðimaður má að hámarki skjóta þrjá fugla í dag. Ljósmynd/Ásgeir Heiðar

En verður ekki allt vitlaust út af þessu?

„Það er nú þannig að flest mannanna verk eru umdeild. En eftir að hafa hlustað á röksemdafærslu sérfræðinga WHO þá teljum við mikilvægt að þessara gagna sé aflað. Tímasetningin skiptir líka máli áður en farfuglarnir streyma til landsins. Þeir vilja taka punktstöðu í útbreiðslu fuglaflensunnar. Við sáum öll hvaða áhrif Covid hafði á heiminn. Ef þessar upplýsingar gefa vísindamönnum svör við þeim spurningum sem leitað er að, þá er það mikilvægast í þessu samhengi,“ sagði Guðlaugur Þór.

Eins og fyrr segir er fyrirkomulagið með þeim hætti að menn melda sig í Veiðihorninu í Síðumúla, sem opnar klukkan 10 í dag og þar fá veiðimenn leiðbeiningar um hvert skal haldið og hvernig staðið skuli að veiðunum. Ásgeir Heiðar landsþekktur veiðimaður verður á Mosfellsheiðinni og fylgist með framkvæmdinni og leiðbeinir mönnum hvert best er að fara.

„Þetta kom upp með skömmum fyrirvara en við vorum að sjálfsögðu tilbúin að taka þetta að okkur og við ætlum að gefa hverjum veiðimanni pakka af Bioammo umhverfisvænu haglaskotunum til að nota í dag. Framleiðendur Bioammo á Spáni vildu endilega taka þátt í þessu og hafa raunar gefið skot í þeim löndum sem þegar er búið að safna gögnum í. En þetta verður bara mjög fróðlegt og vonandi skemmtilegt um leið og menn afla þekkingar sem getur skipt máli,“ sagði Ólafur Vigfússon í Veiðihorninu.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert