Öflugar opnanir í Tungulæk og Eldvatni

Stefán Sölvi Pétursson og Sigvaldi Lárusson með birtinga úr Tungulæk. …
Stefán Sölvi Pétursson og Sigvaldi Lárusson með birtinga úr Tungulæk. Vatnsmagnið er mikið og Tungulækur í sinni stærstu útgáfu. Ljósmynd/Rúnar Hroði Geirmundsson

Eldvatnið og Tungulækur stóðu undir væntingum veiðimanna á fyrstu vöktum veiðitímans. Tungulækur var mikið spurningamerki sökum aðstæðna. Lækurinn var eitt hafsvæði yfir að líta á neðri hlutanum, enda hélt Skaftá á móti útfallinu en mjög hátt var í jökulánni og Tungulækurinn átti ekki greiða leið út í hana.

Fyrsti þrjár vaktirnar í Tungulæk gáfu þrettán sjóbirtinga allt að áttatíu sentímetra langir. „Það var allt á floti en svo fundum við þá loksins á milli Réttarhyls og Vatnamóta,“ sagði Aðalsteinn Jóhannsson í samtali við Sporðaköst.

Tungulækur er magnað vorveiðisvæði en mikið af birtingi er jafnan í læknum á þessum tíma. Nánast öll veiðin kom á fluguna Zelynski.

Séð yfir efri hluta Tungulækjar. Enn er töluverður snjór á …
Séð yfir efri hluta Tungulækjar. Enn er töluverður snjór á svæðinu og ljóst að vatnsmagn verður mikið þá daga sem lofthiti er hár fyrir austan. Falleg mynd frá ljósmyndaranum Rúnari Geirmundssyni. Ljósmynd/Rúnar Hroði Geirmundsson

Nokkru neðar í Meðallandinu var líka fjör hjá veiðimönnum sem voru að leita að sjóbirtingi. Eldvatnið gaf átján fiska á fyrsta degi og þar af voru fimm sem náðu áttatíu sentímetrum. Það vekur athygli að stóru birtingarnir voru flestir að veiðast á púpur. Killer Bug og Copper John svo einhverjar séu nefndar. Veiðistaðurinn Eyjarof var lang sterkasti staðurinn en annars gaf Villi og Mangatangarnir báðir fiska. Aðstæður í Eldvatni voru mjög góðar og verður gaman að fylgjast með framhaldinu þar. Fjörið hélt áfram í dag og voru veiðimenn víða að setja í birtinga.

Séð yfir Skaftá, þar sem Tungulækurinn sameinast henni. Enn er …
Séð yfir Skaftá, þar sem Tungulækurinn sameinast henni. Enn er mikill ís á því mikla fljóti. Fyllsta ástæða er fyrir veiðimenn að vera á varðbergi. Það er ekkert grín að fá ísfleka í bakið. Ljósmynd/Rúnar Hroði Geirmundsson

Tungufljót var umflotið á neðri hlutanum og þar var mikið ísrek. Raunar máttu veiðimenn þakka sínum sæla að ekki fór illa. Veiðimenn voru að skipta um svæði og því staddir á bakka þegar gríðarstór ísfleki fór af stað. Hann var á stærð við nokkra fótboltavelli, eins og einn viðstaddra lýsti. Það er nokkuð ljóst að illa hefði getað farið ef veiðimaður hefði verið út að kasta og fengið flekann á sig. Þessi fleki var eins og segir gríðarmikill að flatarmáli og sjálfsagt vegið einhver tonn. Það er því ljóst að menn þurfa að vera á varðbergi við þær leysingar sem nú standa yfir og eiga eftir að eiga sér stað. Fyrsti dagurinn í Tungufljóti var því nánast óveiðanlegur. Hin raunverulega opnun bíður því kannski aðeins, en þetta getur verið fljótt að gerast.

Jón Hrafn er búinn að vera iðinn við kolann í …
Jón Hrafn er búinn að vera iðinn við kolann í Eldvatni. Þennan fékk hann síðdegis á Skarfagarði í Eldvatni. Opnunin þar er að standa undir væntingum. Ljósmynd/Karl Antonsson

Við sögðum frá Leirá í gær þar sem var magnaður opnunar opnunardagur og hátt í tuttugu birtingar voru færðir til bókar.

En hvergi var önnur eins veiði og í Litluá í Kelduhverfi þar sem um sextíu silungar voru færðir til bókar. Veghylur hefur þegar þetta er skrifað gefið fjörutíu fiska. Athygli vekur að stærsti fiskurinn sem hefur verið bókaður er 81 sentímetra urriði sem veiddist í Langahólma og tók hann Black Ghost Zonker. Athygli vekur að Black Ghost og Zonkerinn hafa gefið yfir fjörutíu fiska.

Hólaá er skemmtilegur kostur í silungsveiði og þar byrjaði tímabilið á mjög góðan hátt og skilaði um þrjátíu silungum á fyrsta degi.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert