Veiðiaðferð við sjóbirting hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum og sérstaklega hin allra síðustu ár. Hér áður fyrr var hefðbundið að veiða með sökklínu eða sökkenda og kasta Black Ghost, Flæðamús eða öðrum þekktum straumflugum.
Auðvitað veiðast enn sjóbirtingar á straumflugur. En langstærstur hluti fiskanna er veiddur á púpur og það andstreymis með tökuvara. Veiði í þeim sjóbirtingsám sem Sporðaköst hafa haft fregnir af, er með ágætum þegar allt er tekið inn í myndina. Tungulækur er með yfirburði þegar kemur að fjölda og þar hafa komið á land 130 birtingar frá því að veiði hófst um mánaðamótin. Eldvatn í Meðallandi hefur gefið um áttatíu fiska. Þar er við veiðar Sigþór Steinn Ólafsson, sá hinn sami og stýrir vinsælu hlaðvarpi, sem heitir Hylurinn.
„Við erum með 54 birtinga eftir þessa tvo daga. Það er fín veiði, en við erum að tala um sex stangir á tveimur dögum. Það er ógeðslega kalt og glampandi sól. Svo var mikið frost í nótt þannig að þetta var rólegt í morgun. Raunar fer það svolítið eftir því við hvað þú miðar hvað telst rólegt. Þetta er ágætisveiði en mjög vanir menn á öllum stöngum. Þetta var kannski ekki alveg eins og maður getur lent í í vorveiðinni þegar maður mætir kannski í Syðri – Hólma í Tungufljóti og mokar upp 55 úr sama staðnum. Hérna ertu að veiða hátt í tuttugu kílómetra svæði og þú ert að fá einn hér og annan þar. Fiskurinn er líka á töluverðri hreyfingu. Maður mætir kannski á veiðistað og fær ekkert svo fer næsti maður á sama stað eftir fjóra tíma og fær tvo,“ upplýsti Sigþór í samtali við Sporðaköst þegar hann var spurður um aðstæður og veiði.
Hollið sem nú er að veiðum hefur ekki fengið einn fisk á straumflugu. „Ég held að þeir hafi fengið þá fiska sem voru tilbúnir að taka straumflugu, í opnuninni. Nú gilda bara grannir taumar og litlar púpur. Við höfum ekki fengið einn fisk á straumflugu. Samt eru menn í hópnum sem eru duglegir að reyna þær. En aðstæður eru bara þannig. Gintært vatn, sól og kalt. Þú styggir þetta með því að draga sökklínuna í gegnum staðinn. Ef þú ætlar að veiða fleiri en einn þarftu að geta komið aftan að honum. Þeir eru ekki einu sinni að taka stóru púpurnar. Þeir eru bara að taka stærð sextán.“
Er ósanngjarnt að segja Sigþór að þú og þín kynslóð veiðimanna hafið kynnt sjóbirtinginn fyrir púpum?
„Nei. Ég held að það sé ekki ósanngjarnt. Við vorum einmitt að ræða þetta í gærkvöldi. Þegar við vorum sjálfir að veiða á þessum svæðum fyrir tíu árum síðan þá vorum við ekki að nota púpur í sama magni. Það var helst að menn hefðu verið að gera að í Varmá. En ég held að þessi kynslóð silungsveiðimanna sem ætla bara að vera silungsveiðimenn og ætla að ná tökum á henni, séu mikið í þessu.“
Fyrir nokkrum árum síðan þá voru menn almennt ekki að kasta púpu fyrir sjóbirting.
„Nei. Það var alltaf bara Black Ghost eða Flæðarmús eða sambærilegt. Svo sögðu menn bara að sjóbirtingur tæki ekki í sól og litlu vatni. Það þarf bara að laga sig að aðstæðum. Menn fara ekki í Norðurá um miðjan júlí með stóra Snældu og sökklínu og segja að lax taki ekki í sól og litlu vatni. Auðvitað við þær aðstæður sem straumflugan hentar er hún frábær. Til dæmis ef er mikið vatn. Þá er geggjað að veiða sjóbirting á straumflugu. Hér er í Eldvatninu sem er lindá og alveg tær þá hentar miklu betur að veiða hann á púpu.“
Sigþór byrjaði að stunda sjóbirtingsárnar í Vestur – Skafafellssýslu af krafti upp úr 2016. Þá segir hann að enginn í kringum hann hafi verið að stunda púpuveiði. „Þegar ég kom hingað fyrst þá hafði ég verið mest fyrir norðan að veiða urriða og ég gerði bara eins og þar. Þetta gerbreytir öllum aflabrögðum þegar menn ná tökum á þessari veiðiaðferð.“
Hver er lykillinn í þessari veiði?
„Þetta snýst aðallega um að vinna línuna þannig að þú fáir dautt rek og geta kastað andstreymis án þess að straumurinn sé að hjálpa þér með því að toga í línuna.“
Er þá ekki lykilatriðið að púpan reki að fiskinum á hraða árinnar?
„Jú. Einmitt þessi gamli frasi og hér skiptir líka miklu máli að geta lesið vatnið, hvar hann liggur því þessi aðferð er ekki öflug í að leita að fiski. Menn þurfa að geta ályktað hvar fiskurinn liggur. Þetta er mikill munur hvað þetta varðar eða að skúra einhverja tvö hundruð metra með straumflugu og taka alltaf eitt kast og eitt skref.“
Þetta er kannski meira þannig að sjóbirtingurinn er bara við sushi train þar sem réttirnir fljóta hjá í hæfilegri fjarlægð?
„Það má segja það. Vatnið er ískalt og hann er ekki hreyfa sig meira en hann þarf. Fiskurinn er styggur í þessu tæra vatni og sól. Þannig að þetta þarf að vera nógu lítið til að styggja þá ekki en nógu þungt til að komast í andlitið á þeim.“
Hversu miklu máli skipta litur og lögun á púpunni? Eða skiptir mestu máli að koma þessu í mikla nálægð við hann?
„Auðvitað skiptir það einhverju máli en ég held að mestu máli skipti að ná rétta rekinu og lesa vatnið þannig að þú sért að kasta sem flest köst á fiska.“
Eru þið félagarnir að veiða núna í síðasta vígi launamannsins í sjóbirtingsveiði í Vestur - Skaftafellssýslu?
„Ég ætla ekki að fullyrða um það en Jón Hrafn og leigutakarnir hérna eru með flott dæmi hér í gangi og þeir vilja ekki hækka þetta upp úr öllu valdi og fyrir það er maður þakklátur. Ég hef verið að koma hér og víðar og þegar maður getur sætt sig við að það renni einhverjir dagar út af veðri eða aðstæðum, hvort sem það eru flóð eða klakaburður og maður sættir sig við það og kemur aftur. Ef maður væri búinn að borga hundrað þúsund krónur á stöng og lenda oft í því að einhverjir dagar séu óveiðanlegir þá er ég ekki viss um að maður kæmi aftur.“
En er þetta ekki síðasta áin á svæðinu sem er á verði sem venjulegt fólk ræður við og getur talist sanngjarnt, einmitt út frá þessu sem þú nefndir?
„Þær eru kannski nokkrar fleiri en ég ætla ekki að segja hverjar þær eru.“
Tungufljót, Tungulækur, Geirlandsá og fleiri eru orðnar á þannig verðum að þetta jafngildir laxveiðinni.
„En gæðin á veiðinni, fyrir þá sem kunna að veiða svona, eru gríðarlega mikil. Kannski er alveg búið að vera pláss fyrir hækkun. Við förum í Tungufljót í október og verðið er alveg komið að þolmörkum þar. Veiðin er hins vegar ævintýraleg en að sama skapi finnst mér leiðinlegra það sem er að gerast með Geirlandsá. Hún er bara farin inn í pakka með öðrum svæðum og veiðihúsi með fullri þjónustu. Geirlandsá er A klassa svæði en hin eru það ekki. Það er verið að nota Geirlandsá til að selja hin svæðin. Þetta er orðið mjög dýrt og þú getur ekki lengur keypt Geirlandsána eina og sér. Ég á eftir að sjá að það gangi vel að reka sjötuga Breta út í Vatnamót í október. Við veiddum mjög vel í Geirlandsánni síðustu ár og örugglega hefði leyfið mátt vera dýrara, en nú er bara ekki hægt að kaupa leyfi í henni án þess að taka hitt með.“
Fiskarnir sem hollið er búið að fá eru margir á bilinu áttatíu plús. Tveir fiskar hafa náð 90 og 91 sentímetra. Það eru magnaðir sjóbirtingar. „Mest af þessum fiski sem við höfum verið að veiða eru á milli 70 og upp í rúmlega 80.“
Já. Það er eins og þú segir Sigþór. Það eru mikil gæði í veiði.
„Ef þú ímyndar þér erlendan veiðimann sem segir ég ætla að koma til Íslands og ég vil veiða stóran fisk. Ef þú tækir tvo daga í Geirlandsá, tvo í Eldvatni og tvo í Tungufljóti þá ertu öruggur með fimmtán punda plús fisk. Þetta er undir þeim formerkjum að leiðsögumaður sé með í för. Það er engin af þessum stóru ám, hvort sem það er Selá eða Vatnsdalur eða Laxá í Aðaldal sem geta tryggt þetta.“
Sigþór var farinn upp með Eldavatni að kasta smáum púpum á stóra sjóbirtinga. Áfram er sól og áin eins og gler. En með litlu púpunum er gamla „sannleikanum“ um tökuleysi birtingsins við þessar aðstæður rutt úr vegi. Þeir eru að fara að gera góða veiði seinnipartinn þegar örfáar dýrmætar gráður bætast við lofthita.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |