Geirlandsá gefið vel þegar aðstæður leyfa

Spænskur veiðimaður með vorfisk úr Ármótum í Geirlandsá. Ríflega sjötíu …
Spænskur veiðimaður með vorfisk úr Ármótum í Geirlandsá. Ríflega sjötíu fiskar hafa verið færðir til bókar en aðstæður hafa verið afar misjafnar þessa fyrstu veiðidaga. Ljósmynd/Ólafur Tómas

Geirlandsá, það gull af sjóbirtingsá sem hún er, hefur gefið rétt yfir sjötíu fiska þessa fyrstu daga veiðitímans. Sá magnaði veiðistaður Ármót geymir ávallt mikið af fiski á vorin. Geirlandsáin hefur hins vegar ekki verið veiðanleg nema hluta af þeim dögum sem í boði hafa verið. Miklir vatnavextir hafa verið af og til og síðast í gær hljóp hún í kakó.

Stærsti fiskurinn til þess mældist níutíu sentímetrar og þá hafa veiðst tíu fiskar sem eru áttatíu sentímetrar eða ríflega það.

Ólafur Tómas Guðbjartsson var í leiðsögn í Geirlandsá fyrr í vikunni.

„Já það er rétt. Ég skrapp austur og tók tvær vaktir með veiðimönnum frá Spáni. Ég var með þeim seinni vaktina 5. apríl og þá fyrri 6. apríl. Við fengum æðislegt veður og áin var komin í frábært form. Fiskur var að sýna sig víða um Ármótin og einnig neðan við brú. Spánverjarnir veiddu svo sjálfir til 7. apríl og enduðu í 27 fiskum, sem er nokkuð gott miðað við hversu afslappaðir veiðimenn þeir voru. Fóru seint út og snemma í hús.“

Veiðimaður sem tók við af Spánverjunum sagði ána gjörsamlega óveiðandi í gær þegar hann mætti á svæðið. Stefnan var sett á steik á einhverju hótelinu í gær og sofa síðan út í dag. Veðurspáin lítur orðið betur út fyrir næstu daga en viðbúið að rigni eitthvað áfram. Að loknum páskum er útlit fyrir gott veður og þá er viðbúið að tölurnar hækki hratt í Geirlandinu.

Séð yfir breiðuna neðst í Ármótum í Geirlandsá. Svona dagar …
Séð yfir breiðuna neðst í Ármótum í Geirlandsá. Svona dagar hafa komið og þá er áin fljót að jafna sig. Í gær hellirigndi og áin fór aftur í kakó. Ljósmynd/Ólafur Tómas

„Fiskarnir sem ég háfaði upp fyrir Spánverjana voru flestir vel á sig komnir miðað við árstíma, en langflestir þó nokkuð frá því að vera byrjaðir að smolta, sem er nú kannski eðlilegt sé tekið mið af loka kaflanum af vetri,“ upplýsti Óli urriði aðspurður um hvernig fiskurinn er haldinn.

Veiddu þeir þetta ekki allt á púpur?

„Nei. Þetta var allt tekið á sökkenda og straumflugur. Mikið á Black Ghost og Olive litaðar flugur. Ég get rétt ímyndað mér hversu margir fiskar hefðu komið upp þessa góðu daga, ef vanir púpuveiðimenn hefðu verið að læðast að fiskunum þarna,“ sagði Ólafur Tómas að lokum og brosti. 

Nýr leigutaki hefur nú tekið við Geirlandsánni og er hún nú seld undir merkjum Fish Partner sem orðnir eru býsna stórtækir á svæðinu. Leigja Tungufljót, Fossála, Vatnamót og Geirlandsá. Verðið á öllum þessum svæðum hefur hækkað mjög mikið og það svo mikið að gamli veiðimannastofninn sem stundað hefur þessi svæði áratugum saman er nú í útrýmingarhættu. Áður en Fish Partner tók Geirlandið yfir hafði Stangaveiðifélag Keflavíkur verið með ána á leigu svo lengi sem elstu menn muna og þarf að fara nokkuð langt aftur á síðustu öld til rifja upp hvenær það félag tók ána fyrst á leigu. Hart var bitist um ána og þrátt fyrir að SVFK væri tilbúið til að borga mun hærra verð fyrir leiguna áttu þeir ekki í roð í tilboð Fish Partner, herma heimildir Sporðakasta. Hærra leiguverð er að sjálfsögðu greitt af veiðimönnum sem kaupa svo veiðileyfin.

Hilmar Þór Sigurjónsson er búinn að landa sínum fyrsta þetta …
Hilmar Þór Sigurjónsson er búinn að landa sínum fyrsta þetta sumarið. Það gerðist í Hólaá og hann var mjög sáttur með daginn. Ljósmynd/Hilmar Þór

 

Fín veiði í Hólaá

Hólaá við Laugarvatn er sífellt vinsælli meðal veiðimanna enda gefur hún oft mikla veiði. Einn af okkar upprennandi veiðimönnum sem heimsótt hefur svæðið þessa fyrstu daga er Hilmar Sigurjónsson. Hann náði sér í tvo fallega urriða þar á skírdag og var afskaplega sáttur að vera kominn á blað þetta vorið. „Ég fékk þessa fiska á Gullið sem Björn Hlynur hnýtti og hinn á Squirmy. Ég sá þrjár bleikjur en þær vildu ekki taka. Mér er sagt að þetta sé mjög snemmt fyrir bleikjuna að hún sjáist þarna,“ sagði Hilmar í samtali við Sporðaköst.

Hilmar er sérfræðingur í Varmá en eins og flestum veiðimönnum er kunnugt er hún lokuð vegna klóaksmengunar og óvíst hvenær hún verður opnuð á nýjan leik.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert