Ráðgátan um regnbogasilungana óleyst

Regnbogasilungur úr Minnivallalæk, Hafþór Óskarsson veiddi þennan og hann fékk …
Regnbogasilungur úr Minnivallalæk, Hafþór Óskarsson veiddi þennan og hann fékk viðurnefnið fat boy, enda spikfeitur og páskalegur. Ljósmynd/Hafþór Óskarsson

Ráðgátan um regnbogasilungana í Minnivallalæk er langt frá því að vera leyst. Þeir halda áfram að veiðast og fyrstu niðurstöður eftir að vísindamenn hafa skoðað hreistursýni benda til þess að þetta sé fiskur úr eldi. En hvaðan? Það vita menn hreinlega ekki. Þröstur Elliðason leigutaki að Minnivallalæk er nú við veiðar í læknum og landaði hann fallegum regnbogasilungi í gær ásamt nokkrum „heimamönnum“ sem er staðbundni urriðinn sem lækurinn er frægur fyrir. 

„Úr hreistursýni má sjá að hann var í stöðugu fæðuframboði sem bendir til þess að hann hafi verið í eldi. Allavega er hægt að greina neitt vetrarstopp,“ sagði Þröstur í samtali við Sporðaköst. Athygli hefur vakið að fiskarnir bera ekki hefðbundnu merki eldis, sem eru uggaskemmdir og skaddaður sporður. Hvaðan fiskurinn gæti komið er eitthvað sem menn klóra sér í hausnum yfir.

Hafþór með regnbogasilung sem fer í reyk. Hann segir í …
Hafþór með regnbogasilung sem fer í reyk. Hann segir í pistlinum sínum að þetta hafi verið mögnuð viðureign. Ljósmynd/Hafþór Óskarsson

Hafþór Óskarsson var við veiðar í læknum áður en Þröstur tók við í gær. Hafþór sendi Sporðaköstum skýrslu eftir veiðitúrinn og myndir. Kunnum við honum bestu þakkir fyrir.

„Við fjölskyldan áttum bókaða daga við Minnivallalæk 6. - 8. apríl. Þetta var bara afslöppunarferð með smá veiði ívafi en átti heldur betur eftir að koma á óvart. Ég var búin að frétta af því að það væru einhverjir regnbogasilungar búnir að veiðast í læknum en engar skýringar hafa fundist hvaðan hann kæmi.

Eftir að við fjölskyldan vorum búin að koma okkur fyrir upp í húsi þá rölti ég niður að Stöðvarhyl. Fyrir þá sem þekkja ekki til umhverfisins þá er lykilatriði að vera ekki nálægt bakkanum þegar komið er að þessum veiðistað. Þess vegna, þegar ég nálgaðist Stöðvarhylinn, var ég alveg við grindverkið vinstra megin við hylinn. Ég gekk niður fyrir veiðistaðinn en þegar þangað var komið setti ég undir púpuna Roza Pinks Hare’s með tungsten kúlu. Ég setti svo auðvitað tökuvara á tauminn enda lykilatriði þegar veiða á „upstream.“

Veðrið var sko alls ekki að leika við mig dagana sem ég var við lækinn – rok og rigning og hviður úr öllum áttum. Ég fann að besta leiðin til að koma flugunni út á tökustað var að koma henni frá mér í bakkastinu. Eftir nokkur köst kom að því.. BÚMM – fiskur var kominn á. Heldurðu að það hafi ekki verið þessi fallegi urriði sem kom úr öldurótunum! Hann stökk svona fallega fyrir mig fjórum sinnum og lét öllum illum látum eins og Minnivallalækja-urriðinn er þekktur fyrir.

Enn einn regnboginn kominn á land. Þeir hafa nú verið …
Enn einn regnboginn kominn á land. Þeir hafa nú verið bókaðir fimmtán talsins og eru allir þykkir og flottir. Þröstur leigutaki landaði þessum. Uppruninn er enn á huldu. Ljósmynd/Þröstur Elliðason


Eftir mikla baráttu gaf þessi úrilli hængur sig fyrir rest en honum var sleppt aftur í djúpið og var hann frelsinu feginn. Þvílíkir fiskar sem leynast þarna í læknum! En ég var ekki hættur að veiða eftir þennan feng heldur hélt ég áfram að kasta aftur fyrir mig. Ég fylgdist vel með tökuvaranum sem skyndilega hvarf og upp stökk þessu silfurbjarti fiskur. Ég sá strax að þetta var ekki staðbundinn urriði. Það þýddi ekkert annað en að taka vel á honum og draga hann úr hylnum. Hann lét öllum illum látum og fannst ekki leiðinlegt að sýna mér alla þá loftfimleika sem hann var með í pokahorninu.

Eftir margar tilraunir til að koma honum í háfinn gaf hann sig loksins, en þessir fiskar eru ótrúlega sterkir og virkilega gaman að eiga við þá. Ég var aðeins við veiðar í 2 – 3 tíma þessa tvo daga sem við vorum við lækinn en endaði samt með að setja í sex fiska og landa þremur. Stærðin á þessum fiskum voru 65 – 70 cm. Flugurnar sem vöktu áhuga hjá þeim fiskum sem ég setti í voru: Roza Pinks Hare’s, Krafla (bleik silungafluga) og Peacock. Ég mæli hiklaust með að veiðimenn prófi Minnivallalækinn enda virkilega flott veiðisvæði og frábært ný uppgert hús.“

Glæsilegur urriði úr Minnivallalæk sem Þröstur veiddi í gær. Mun …
Glæsilegur urriði úr Minnivallalæk sem Þröstur veiddi í gær. Mun fleiri regnbogar hafa veiðst í læknum en urriðar í byrjun veiðitímans. Ljósmynd/Þröstur Elliðason

Svo hljóðaði pistill Hafþórs. Það má bæta því að regnboginn sem hann heldur á á myndinni fékk viðurnefnið „fat boy“ þar sem hann var virkilega vel haldinn og páskabragur á honum þar sem landinn er nú að troða í sig súkkulaðieggjum í gríð og erg. Hafþór tók fiskinn og verður hann reyktur hið fyrsta.

Þegar þessi orð eru skrifuð hafa verið bókaðir fimmtán regnbogasilungar í Minnivallalæk og sex urriðar. Þá hefur ein bleikja verið færð til bókar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert