Sífellt fleiri sjóbirtingar í yfirstærð hafa verið að veiðast hin síðari ár. Einn slíkur veiddist í Tungulæk í gær og er sá fiskur merkilegur fyrir nokkurra hluta sakir.
Í fyrsta lagi er það stærðin eða lengdin en fiskurinn mældist hundrað sentímetrar og hafa slíkir drekar verið mjög sjaldgæfir og eru það í raun enn. Hins vegar hefur sjóbirtingum í þessum stærðarflokki verið að fjölga hin síðari ár og mörgum ætti enn að vera í fersku minni 107 sentímetra birtingurinn sem Stefán P.Jones veiddi í fyrrahaust í Tungufljóti. Þá mældu teljarar í Vatnsá fiska yfir 110 sentímetra.
Það var Hafþór Hallsson sem veiddi sjóbirtinginn í Tungulæk í gær og tók hannBlackGhost í Vatnamótum. Hafþór komst þar með í flokk manna sem hafa veitt bæði lax og sjóbirting sem ná þessari lengd. Þeir eru ekki margir veiðimennirnir sem uppfylla inntökuskilyrði í þann klúbb. Sporðaköst vita um einn annan veiðimann, en það er Theodór K. Erlingsson sem einmitt aðstoðaði við löndun á þessum magnað hæng í gær.
Mælingin er óumdeild og voru bæði lögreglumaður og starfsmaður Vinnueftirlitsins viðstaddir mælinguna og staðfestu hana. Hafþór var í góðan hálftíma með þennan mikla hæng áður en hann náðist til myndatöku og mælingar. Honum var svo sleppt eins og lög gera ráð fyrir.
Hafþór veiddi 102 sentímetra lax í Tunguá, sem er hliðará Grímsár í Borgarfirði. Þetta var árið 1992 og tók sá fiskur maðk. Þar með er staðfest að Hafþór er gjaldgengur í þennan fámenna merkisklúbb.
Teddi, sem er hinn meðlimurinn sem Sporðaköst vita af veiddi einmitt sinn hundrað sentímetra sjóbirting líka í Tungulæk fyrir tveimur árum. Hann hafði áður veitt lax sem stóð meter.
Veiðin er áfram góð í Tungulæk þó hún hafi róast eftir stóra hollið sem við sögðum frá í gær.
Sporðaköst óska eftir því að fá upplýsingar um ef fleiri veiðimenn hafa afrekað að landa bæði hundrað sentímetra laxi og sjóbirtingi.
332 fiskar hafa nú verið skráðir í veiðibók í Tungulæk og er það mögnuð veiði á tíu dögum þegar vitað er að aðstæður hafa verið mjög erfiðar suma daga.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |