Næst stærsti birtingur sem vitað er um

Maros með draumafiskinn sem hann fékk í Ármótum í Geirlandsá. …
Maros með draumafiskinn sem hann fékk í Ármótum í Geirlandsá. Hann er búinn að landa mörgum sem hafa verið á bilinu 97 til 99 sentímetrar en loksins rættist draumurinn. Ljósmynd/Maros Zatko

Það er skammt stórra högga á milli í sjóbirtingsveiðinni þessa dagana. Við sögðum frá því að hundrað sentímetra langur sjóbirtingur veiddist í Tungulæk á páskadag. Nokkru austar bættu menn um betur í fyrradag.

Maros Zatko, sem búsettur hefur verið á Kirkjubæjarklaustri í níu ár hefur átt sér þann draum að veiða sjóbirting sem nær hundrað sentímetrunum. Hann hefur margsinnis verið afskaplega nálægt því að draumurinn rættist. Búinn að landa 97, 98 og 99 sentímetra sjóbirtingum. En svo kom að því í Geirlandsánni að draumurinn rættist. Sporðaköst náðu tali af Maros í gærkvöldi og hann þekkti númerið og svaraði afar kátur. „Loksins gerðist þetta. Loksins. Ég hef svo oft verið nálægt þessu. Já. Halló,“ sagði veiðimaður sem hafði lifað drauminn.

Blaðkan og stirtlan á þessum fiskum er svo stór og …
Blaðkan og stirtlan á þessum fiskum er svo stór og þykk. Fiskurinn var virkilega vel haldinn eftir dvöl í ánni allan veturinn. Ljósmynd/Maros Zatko

Segðu okkur alla söguna, Maros.

„Áin var búin að vera mjög vatnsmikil en svo um leið og hún fór að sjatna komst hreyfing á fiskinn og það kom tökustuð í hann. Við ákváðum að hvíla Ármótin og þegar við komum aftur þá byrjaði ég. Fljótlega sá ég hreyfingu í yfirborðinu og kastaði aftur en bara aðeins ofar. Þá kom fiskur og tók fluguna. Hann varð strax brjálaður og þetta var svakalega sterkur fiskur. Hann tók straumflugu sem ég hnýti sjálfur. Þetta er svona mín útgáfa í þá veru að líkja eftir seiði. Ég á reyndar eftir að skíra hana,“ hló Maros.

Hvenær áttaðirðu þig á því að þú værir mögulega búinn að setja í draumafiskinn?

„Fyrst í stað var hann langt úti og ég gat ekki áttað mig á hversu stór hann var. Ég fann að hann sló til hausnum og vissi alveg að þetta var góður fiskur. Eftir nokkra stund náði ég honum nær landi og sá á honum sporðinn. Þá giskaði ég á níutíu plús. Hann tók nokkrar rokur í viðbót og þetta tók tíma. Loks þegar ég landaði honum áttaði ég mig á hvað hann var stór. Hann er ótrúlega vel haldinn eftir að hafa verið allan veturinn í ánni. Við mældum hann tvisvar og tveir vinir mínir voru vitni og hann mældist 102 sentímetrar.

Tilfinningar báru Maros nánast ofurliði. Hann setti þessa mynd í …
Tilfinningar báru Maros nánast ofurliði. Hann setti þessa mynd í svart/hvítt en hér átti hann í erfiðleikum með að hemja gleðina. Ljósmynd/Maros Zatko

Þetta var svo stór draumur sem rættist að ég var algerlega í sjöunda himni. Ég hélt fisknum í vatninu og leyfði honum að jafna sig og þetta er flottasti fiskur sem ég hef veitt,“ upplýsti Maros í samtali við Sporðaköst. Hann hló taugaveiklunar gleðiblöndnum hlátri í frásögninni og það mátti heyra að hann var enn að meðtaka sjálfur hversu stór þessi sjóbirtingur er í raun og veru.

Sporðaköst hér á mbl.is fjölluðu síðastliðið haust um sjóbirting sem veiddist í Búrhyl í Tungufljóti og mældist 107 sentímetrar. Það er einn af stærstu sjóbirtingum sem veiðst hafa í heiminum. Hér á siðunni höfum við sagt frá 100 sentímetra birtingum og 101 sentímetra sjóbirtingi sem veiddist fyrir nokkrum árum í Tungufljóti. En að öllum líkindum er þetta næst stærsti sjóbirtingur sem veiðst hefur á stöng á Íslandi á þessari öld og jafnvel frá upphafi stangveiða. Vilji einhver leiðrétta það verður slíkum athugasemdum vel tekið.

En voru þeir stærri í gamla daga, eins og oft er haldið fram?

Í dagblaðinu Tímanum árið 1989 birtist viðtal við Loft Runólfsson bónda á Strönd í Meðallandi í tilefni þess að hann hafði fengið í net sjóbirting sem vigtaði 22 pund og var gefið upp mál á honum líka. Hann var 96,5 sentímetrar að sögn Lofts. Móðir hans, Guðlaug Loftsdóttir sem hafði búið í nábýli við Kúðafljót í 83 ár sagðist ekki minnast þess að hafa séð svo stóran sjóbirting áður. Loftur upplýsti í sama viðtali að hann hefði nokkrum árum áður fengið 100 sentímetra hrygnu í net og vigtaði sá fiskur 21 pund. Sjóbirtingurinn stóri sem var tilefni viðtalsins veiddist í ádráttarnet í ágústmánuði. Kúðafljót var mikil matarkista og þar var stunduð netaveiði með ádrætti. Tungufljót í Vestur – Skaftafellssýslu rennur í Kúðafljótið en þetta eru sterkustu heimkynni sjóbirtingsins.

Flugan sem stærstu sjóbirtingarnir falla fyrir. Maros gaf henni nafn …
Flugan sem stærstu sjóbirtingarnir falla fyrir. Maros gaf henni nafn í gærkvöldi. NoLimit varð fyrir valinu. Ljósmynd/Maros Zatko

Maros þakkar veiða og sleppa fyrirkomulaginu að þessum stóru drekum fer fjölgandi. „Þetta hefur mest verið að gerast síðustu þrjú til fjögur árin. Ég er búinn að búa á Klaustri í níu ár og verið að veiða allan þann tíma. Stórum sjóbirtingum hefur verið að fjölga og síðustu ár hafa verið ævintýraleg. Við fengum sextíu fiska á tveimur vöktum núna í Geirlandsá. Það er hvergi í heiminum hægt að komast í svona veiði held ég. Fyrir nokkrum árum vorum við mikið að veiða fisk á bilinu 55 til 75 sentímetrar. Nú erum við að veiða marga 75 til 85 sentímetra. Það er frábært að það skuli vera til staðir í heiminum þar sem veiði er að aukast og fiskur fer stækkandi. Það er ekki auðfundið í dag.“

Hvergi í heiminum er hægt að komast í svona magnaða …
Hvergi í heiminum er hægt að komast í svona magnaða veiði telur Maros. Honum finnst líka magnað hvað fiskurinn hefur stækkað undanfarin þrjú til fjögur ár. Ljósmynd/Maros Zatko

Hvað heldur þú að muni gerast í framtíðinni? Verður þetta svæði umsetið af ríkum útlendingum?

„Það er góð spurning. Á þessu svæði í kringum Klaustur eru margar góðar ár svo hér eru margar stangir. En á Íslandi eru jarðir í einkaeigu og landeigendur ráða hvað þeir gera í þeim efnum.“

Eftir að viðtalinu lauk og Maros sendi okkur myndir af fiskinum þá upplýsti hann að flugan væri búin að fá nafn. Hann kallar hana NoLimit og er það nafn við hæfi. Þessi fluga eða áþekkar hafa gefið honum fjölmarga fiska í námunda við hundrað sentímetrana síðustu ár og svo þennan draumafisk. Eins og sjá má á svarthvítu myndinni þá voru tilfinningar í spilinu þegar Maros og vinir hans voru búnir að mæla fiskinn. Félagar hans upplýstu að fagnaðarlætin hefðu ómað um alla sýsluna og jafnvel víðar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert