„Vonandi náum við meðalveiði í sumar“

Gert klárt fyrir löndun í Norðurá. Ef að líkum lætur …
Gert klárt fyrir löndun í Norðurá. Ef að líkum lætur þá verður veiðin svipuð og í fyrra, ef miðað við gögn Sigurðar Más. Ljósmynd/Norðurá

Hvernig verður laxveiðin í sumar? Það er stóra spurningin á þessum árstíma og svör við þeirri spurningu liggja ekki fyrir fyrr en í haust. Við leituðum samt svara hjá þeim manni er best þekkir til á Vesturlandi.

Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun hefur rannsakað og safnað gögnum um áratugaskeið um laxagengd á Vesturlandi. Hann ræddi við Sporðaköst í fyrra um stöðuna fyrir veiðisumarið 2022 á Vesturlandi.

Hann sagði útlitið með þeim hætti að hann yrði sáttur ef við næðum meðalveiði en veiðin varð svo nokkuð undir meðaltali á þessum slóðum. En hvernig horfir þetta við fyrir sumarið 2023 og rétt að ítreka að Sigurður Már er fyrst og fremst að tala um Vesturlandið.

Veiddur smálax á Vesturlandi. af þessum 36 súlum eru aðeins …
Veiddur smálax á Vesturlandi. af þessum 36 súlum eru aðeins 14 sem ná meðalveiði eða fara yfir hana. Ljósmynd/SMJ

„Við erum búin að vera í lægð á Vesturlandi og það bara nokkuð lengi. Ef við tökum alla veiðina á smálaxi á Vesturlandi aftur til 1987, þá er meðalveiðin um fjórtán þúsund laxar á ári úr öllum ánum. Við höfum verið um og undir tíu þúsund löxum frá 2019. Árið 2019 var náttúrulega verst af þeim öllum og það var vegna þeirra miklu þurrka sem voru það ár. Það voru bara ekki veiðiskilyrði. Það getur vel verið að það hafi verið meira af fiski það ár en veiðin gefur til kynna en aðstæður voru mjög óvenjulegar og erfiðar,“ sagði Sigurður Már í samtali við Sporðaköst um stöðu og horfur fyrir komandi sumar.

Hann segir síðustu fjögur ár þegar horft er til smálaxins á þessu svæði búin að vera 30 til 50% undir meðalveiðinni, horft aftur til 1987. Það eru orðin fjögur ár. Hann bendir hins vegar á að þetta hafi sveiflast töluvert og flest árin frá 1987 og fram til aldamóta hafi veiðin á smálaxi verið undir þessu meðaltali, þannig að það er svo sem ekkert nýtt að við náum ekki meðaltalinu. Hins vegar hafa komið góðæriskaflar í veiðinni og nefnir hann þar til sögunnar árin 2004 og fram til 2015 með undantekningu árin 2012 og 2014. En þau voru mjög slæm ár eins og margir muna.

„En núna erum við í þessari lægð og þegar maður skoðar hvað veldur þá er þetta að einhverju leiti sambland af framleiðslu í ánum á þessum tíma og sjávarskilyrðum. Ef við horfum á framleiðslu í ánum yfir langt tímabil og ég er hér sem dæmi að horfa á Langá, af því að ég er með hana fyrir framan mig og hún er býsna lýsandi fyrir svæðið. Þar var einn árgangur mjög slæmur úr hrygningunni 2014. Það var klakið 2015 og hann er búinn að vera að endurheimtast undanfarin ár og er nokkurn veginn allur búinn að skila sér. Hann skilaði Langánni ekki nema helmingi af eðlilegum styrkleika samtals, í löxum talið.

Veiðin á Vesturlandi aftur til 1987. Línan sem gengur í …
Veiðin á Vesturlandi aftur til 1987. Línan sem gengur í gegnum myndina er meðalveiðin. Síðustu fjórar súlur eru töluvert undir meðalveiðinni. Sú sem bætist við eftir þetta sumar verður að öllum líkindum á sömu nótum. Ljósmynd/SMJ

Svo erum við með þurrkaárið 2019. Þar urðu mjög mikil afföll um vorið. Þurrkarnir komu það snemma að gönguseiðin sem þá gengu út hafa sennilega orðið fyrir verulegum afföllum og þar af leiddi að smálaxinn árið 2020 var í miklu minni styrkleika en efni stóðu til. Þetta eru nú nokkuð þekktar staðreyndir en þessu til viðbótar urðu veruleg afföll af öllum seiðaárgöngum í ánum þetta þurra sumar 2019. Þetta var mjög alvarleg staða sem kom upp. Það er vissulega hluti af skýringunni af hverju hefur gengið svona illa undanfarin ár. En það skýrir þetta ekki að fullu. Fleira kemur til.“

Það jákvæða er þó segir Sigurður að frá 2017 hafi klakárgangarnir verið nokkuð góðir sem hafi komið út úr hrygningu þó svo að þeir hafi svo liðið fyrir þurrka og aðrar aðstæður. Þannig að hann segir að efniviðurinn sé þokkalegur.

„Þeir árgangar eru að byrja að skila sér að fullu í sumar. Þannig að ég er ekkert mjög svartsýnn hvað varðar framleiðsluna í ánum fyrir sumarið. Ég held að það séu alveg ágætis forsendur fyrir að það verði góð útganga af seiðum. Það er vissulega jákvætt.“

Sjávarskilyrðin er hins vegar sá þáttur sem Sigurður hefur áhyggjur af og vísar þá til sjávarhita í júlí á beitarsvæðum laxins sunnan og vestan við landið.

„Við vitum nokkurn veginn hvert laxinn okkar er að fara og höfum við Jóhannes Guðbrandsson kollegi minn á starfstöð Hafrannsóknastofnunar á Hvanneyri náð í gögn um sjávarhita á þessum beitarsvæðum í júlí og keyrt þau gögn á móti því hvað kemur af smálaxi ári síðar. Þetta eru þær aðstæður sem mæta gönguseiðunum þegar þau koma á uppeldissvæðið. Einföld tölfræði í þessu skýrir mjög mikið. Þessi sjávarhiti í júlí skýrir um 50% af breytingum í smálaxaveiðinni. Bara þessi einfalda mæling segir okkur mjög mikið. Við tökum þessar yfirborðsmælingar sjávar fráNOAA Bandarísku veðurfræðistofnuninni.“

Þetta er myndin sem skiptir öllu máli. Sjávarhiti á lárétta …
Þetta er myndin sem skiptir öllu máli. Sjávarhiti á lárétta ásnum, árið áður. Sú tala frá því í fyrra er þekkt. Lóðrétti ásinn er fjöldi þeirra laxa sem við munum veiða í sumar, miðað við þessar forsendur. Fylgni er mjög sterk í þessum samanburði. Ljósmynd/SMJ

Sigurður nefnir sem dæmi að mæling á sjávarhita á þessum slóðum 2021 hafi sýnt meðal yfirborðshita í júlí upp á 10,5 gráður. Smálaxinn sem gekk í árnar á Vesturlandi í fyrra gekk í þennan sjávarhita sem seiði 2021. Eins og menn muna þá var smálaxinn ekki neitt sérstakur í fyrra og víða voru örlaxar, eða minni fiskar en við viljum sjá.

„Þegar við fáum þessi bestu ár, eins og 2013, 2008 og 2010 þá hefur meðalhitinn í júlí verið 11,5 til 12 gráður.“

Svona litu beitarstöðva laxins af Vesturlandi út í júlí í …
Svona litu beitarstöðva laxins af Vesturlandi út í júlí í fyrra. Meðalhitinn var rétt undir 10 gráðum. Bestu smálaxaárin hafa verið þegar hitinn er á bilinu 11,5 til 12 gráður. Ljósmynd/SMJ

Þetta eru ótrúlega dýrmætar gráður?

„Þó að þetta hreyfist ekki mikið til þá ríður þetta einfaldlega baggamuninn. Það verður miklu meira úr fiskinum sem fer til sjávar þegar hitastigið er hærra. Það er meiri fæða og vaxtarhraðinn er meiri. Það kemur vænni fiskur en venjulega og það kemur meira af honum. Eina verulega undantekningin frá þessu eru gönguseiðin 2019, eða smálaxinn 2020. Þau fóru út í góðan sjávarhita en skiluðu mjög litlu.

Horfurnar fyrir sumarið í sumar eru lakari en í fyrra ef við horfum til sjávarhita.“

Hvað mældist meðalhiti sjávar á þessum svæðum í fyrra?

„Hann mældist rétt undir tíu gráðum þannig að það er ekki tilefni til mikillar bjartsýni. Auðvitað er breytileiki í þessum gögnum en maður hefur aldrei séð mjög góða veiði í kjölfarið á svo lágum sjávarhita. Ég býst því við að veiðin verði í svipuðum takti og síðustu ár. En á móti kemur að sumar árnar eru að framleiða meira magn af seiðum,“ sagði Sigurður Már að lokum, þegar hann var beðinn um að túlka stöðuna út frá þessum staðreyndum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert