Sjóbirtingsveiðin í Laxá í Kjós hefur gengið mjög vel. 220 birtingar hafa veiðst frá 11. apríl þegar opnað var fyrir veiði. Tímabilið er stutt í Kjósinni og lokar hún aftur 10. maí en upp úr því getur stórstjarnan, laxinn, farið að láta sjá sig. Þessar aflatölur gefa ekkert eftir sjóbirtingsánum í Vestur-Skaftafellssýslu og nú var jafnvel töluvert betri veiði en á sumum svæðum þar.
Er þetta metveiði hjá í vorveiðinni?
„Nei alls ekki. Ég hef séð vorveiðina fara alveg í fjögur hundruð fiska. Ég var svolítið spenntur að sjá hvernig þetta myndi ganga núna því að okkur fannst vanta mikið af sjóbirtingi í fyrra miðað við það sem við eigum að venjast. Við höfðum ekki miklar væntingar til vorsins og það voru dæmi um það að menn létu dagana frá sér,“ sagði Haraldur Eiríksson, leigutaki í Laxá í Kjós, í samtali við Sporðaköst.
Hefurðu skýringu á þessu?
„Í fyrra var vatnsstaðan góð allt sumarið. Þá brunar fiskurinn upp í alla læki og skurði í stað þess að liggja á frísvæðinu í bunkum. Það dreifðist strax úr honum í fyrra. En ég skal alveg viðurkenna það að ég var með verulegar áhyggjur af því að mér fannst vanta árganga inn í stofninn. Mér fannst vanta minni fiskinn. Þessir birtingar sem voru að veiðast í fyrra voru gamlir og stórir en það vantaði þessa millistærð og líka minni fiskinn, svona þrjú til fjögur pund. Núna sjáum við hins vegar óhemju af þessum fiski. Geldfiskur sem er þrjú til fimm pund. Það kemur bara upp úr dúrnum að þessi fiskur heldur til einhvers staðar þar sem við urðum hans ekki varir. Sumarið í fyrra var með svo gott vatn allan tímann. Við vorum að mæla snjóbráð fram til 23. júlí og þá getur þessi fiskur farið víða og gerir það.“
Vorveiðin á sjóbirtingi er í raun bara smá gluggi. Fyrsti veiðidagur í vor var 11. apríl og sá síðasti verður 5. maí. Miðað við þessar tölur þá hafa að meðaltali veiðst rétt um sextán birtingar á dag. Það er virkilega góð veiði.
Ein ástæðan fyrir því að Halli lokar þessu svona snemma er að þess eru dæmi að laxinn hafi mætt fyrir 10. maí. „Eitt árið voru sjö lurkar mættir í Laxfoss 8. maí og menn voru enn að kasta fyrir sjóbirting uppi í Káranesfljóti,“ hlær Halli.
Þannig að þú ert bara ánægður með þennan vorglugga?
„Ég er mjög ánægður og sérstaklega vegna þess að stór hluti af þessu er fiskurinn sem ég hélt að vantaði. Það sem meira er þá eru menn að læra meira og meira inn á þetta. Fiskurinn er jú að ganga í öfuga átt miðað við það sem eðlilegt er og þegar líður á eiga menn að færa sig neðar en ekki ofar. Það er búin að vera mjög góð veiði núna í kringum þjóðvegsbrúna. Þetta er svæði sem menn hafa lítið verið að stunda en nú er Bollastaðabreiðan einn sterkasti staðurinn.“
Fyrstu dagana voru straumflugur ráðandi. Eftir því sem kólnaði og birti tóku púpurnar yfir og hafa verið að gefa best upp á síðkastið.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |